Hreinsandi martraðir.

Þegar ég var sex ára fór ég að fá hræðilegar martraðir. Þær voru svo raunverulegar að ég var lengi að jafna mig þegar ég hrökk upp og vaknaði, og ég man þær enn nákvæmlega eins og þær hefðu komið í gær.

Þær fólust í því að eftir að ég var sofnaður í myrkrinu fannst mér ég vakna upp við það að veggirnir í herberginu voru ýmist að hrynja yfir mig eða að þeir komu að mér úr öllum áttum og loftið seig niður þangað til að ég átti engrar undankomu auðið og var að því kominn að kremjast og kafna. 

Í einum draumnum skreið ég (sofandi) undir rúmið en það lagðist þá ofan á mig og kramdi mig, en í þeim svifum vaknaði ég undir rúminu svo titrandi af skelfingu að það tók langan tíma fyrir mig að sofna aftur. 

Í síðasta skiptið sem þetta gerðist vaknaði faðir minn við þetta, en á þessum tíma svaf öll fjölskyldan okkar, alls fimm manns, í sama herberginu. 

Hann tók mig í fang sér, huggaði mig og sefaði þangað til ég sofnaði aftur og síðan hefur þetta aldrei gerst aftur. 

En mörgum árum seinna spurði hann mig hvort ég myndi eftir því þegar ég, fjögurra ára gamall, fór með honum inn á trésmíðaverkstæði við Vegamót á Seltjarnarnesi. 

Jú, því mundi ég greinilega eftir og man það vel enn í dag. 

Hann spurði mig hvort ég myndi eftir því að trésmiðurinn hefði tekið mig upp í gríni, sett mig ofan í kistu og skellt lokinu í lás. 

Nei, ég mundi ekkert eftir því, man það ekki í dag og sennilega er það gersamlega þurrkað út úr minni mínu um aldur og ævi.

Það þótti honum skrítið, því að hann mundi vel að ég, sem yfirleitt var afar hægur og þægur, hefði gersamlega tryllst af hræðslu og veinað og öskrað af skelfingu þangað til kistan var opnuð og mér lyft upp úr henni. 

Þetta sýnist mér benda til að martraðirnar tveimur árum síðar hafi verið viðbrögð sálarinnar til þess að losna við hina skelfilegu minningu frá því tveimur árum áður og hreinsa þær út, því að greinilegt er, að undirmeðvitundin hafði bælt þær niður, svo mér var ómögulegt að muna þetta atvik. 

Svo algerlega losnaði ég við þessa minningu, að það er til dæmis ekkert mál fyrir mig að fara í ómsskoðun inni í sívalningnum í spítalanum sem svo margir eiga erfitt með að fara inn í vegna innilokunarkenndar. 


mbl.is Martraðir þurfa ekki að vera slæmar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mig grunar nú bara að þetta hafi verið súrefnisskortur sem hafi valdið þessum martröðum. Lítil lungu í herberg með 5 manns og koltvísýringurinn örugglega langt yfir heilbrigðum mörkum.  Líkamleg nauð læðir sér stundum inn í svefninn. Set þetta bara svona fram sem kenningu.

Jón Steinar Ragnarsson, 28.11.2011 kl. 02:41

2 Smámynd: Lárus Gabríel Guðmundsson

Athyglisvert. Líklega rétt greining. Lengi situr ógn í litlu hjarta, en heilun föðurs hlýju læknar mein.

Lárus Gabríel Guðmundsson, 28.11.2011 kl. 08:43

3 Smámynd: Fanney Amelía Guðjonsson

Heilinn er bjargvættur okkar á margan hátt. Ég hef unnið úr mörgu í gegnum svefn. Við erum afslöppuð og þá tekur undirmeðvitundin við, sem oft er með minningar sem við höfum gleymt og grafið. Svona gleymdar minningar geta komið út í alskonar hegðun og valdið okkur vandræðum í lífi okkar. Ég get rétt trúað því að þú grófst þessa minningu djúpt, hræðileg minning.

Fanney Amelía Guðjonsson, 28.11.2011 kl. 08:53

4 identicon

Innilokunarkennd, Claustrophobia, er talin ein af skelfilegustu upplifunum sem hugsast getur. Menn geta tryllst af hræðslu. Að setja lítið barn ofan í þröngan kassa og loka honum, og það á návist föðurs, er ekki aðeins dæmalaus heimska, en ætti að vera refisvert. En “á misjöfnu þrífast börnin best” er eitt af mörgum arfa vitlausum orðsháttum í íslensku.

Annars er lítið eða ekkert mark takandi á draumum.

 

Draumar eru myndir af handahófi.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 28.11.2011 kl. 09:26

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

“á misjöfnu þrífast börnin best” er vanmetin viska hjá þér, Haukur (að mínu mati)

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.11.2011 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband