28.11.2011 | 15:45
Nýtt búsetulandslag.
Sameining Bæjarhrepps og Húnaþings vestra, ef af veður, er löngu tímabær staðfesting á nýju búsetulandslagi í Norðvesturkjördæmi sem hefur skapast með breyttum samgöngum.
Nú er styttra að aka frá Hólmavík til Reykjavíkur en til Ísafjarðar og byggðirnar við Húnaflóa eiga miklu meira sameiginlegt en Strandir og Vestfirðir.
Raunar er kjördæmaskipunin á skjön við raunveruleika atvinnusvæða, sem er sá að svæðið frá Borgarfirði til Þjórsár er eitt búsetu- og atvinnusvæði sem stenst þau alþjóðlegu skilyrði "virks borgarsamfélags" (FUA, Functional Urban Area) að þar búi minnst 15 þúsund manns og að skemmri tíma en 45 mínútur taki að fara á jöðrum þess inn að miðju.
Það er ekki tilvilljun að í frumvarpi Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er gert ráð fyrir að fjölga megi kjördæmunum úr sex upp í átta, því að núverandi "landsbyggðarkjördæmi" eru of stór og of sundurleit til þess að næg tengsl myndist milli kjósenda og þingmanna.
Hornafjörður á lítið sameiginlegt með Vogum á Vatnsleysuströnd, og Fljótamenn lítið sameiginlegt með Akurnesingum.
Kosið um sameiningu Bæjarhrepps og Húnaþings vestra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Skil aldrei hversvegna þið létuð það eftir Ara Teitssyni þarna í stjórnlagaráði að hafa mörg kjördæmi í tillögu ykkar að nýrri stjórnarskrá. Auðvitað á Ísland að vera eitt kjördæmi og það sem meira er, það er fáránlegt að vera með tvö stjórnsýslustig í 300.000 manna samfélagi. Alltof dýrt og þungt í vöfum. Sveitarstjórnir eru í dag útungunarstöðvar fyrir bitlingaleppa fjórflokksins í framtíðinni. Svo má benda á það, að ef við værum með eitt stjórnsýslusvæði fyrir allt svæðið, verða öll Héðinsfjarðargangaævintýri úr sögunni.
Beinakerling (IP-tala skráð) 28.11.2011 kl. 17:22
Ömurlegt að láta framsóknarmennskuna ráða með tillögur um að gera ekki landið að einu kjördæmi. Það er eina leiðin til að minnka hið skaðlega kjördæmapot.
Auðvitað á að fækka sveitafélögunum og ekki síst þeim framapoturum sem þar sitja.
Er ekki tómt rugl að hafa sjö sveitafélög á höfuðborgarsvæðinu.
Hvað er mörgum ofaukið þar?
Trausti (IP-tala skráð) 28.11.2011 kl. 18:08
Það er engu slegið föstu um það að kjördæmin verði átta í tillögum okkar heldur aðeins að þau megi verða allt að átta. Meginreglan er persónukjör þannig að hver kjósandi megi kjósa fleiri en einn frambjóðanda ef hann vill og deila þannig atkvæði sínu niður á þá, og þá jafnvel í mismunandi kjördæmum.
Einnig er lagt til að meginreglan verði að hver kjósandi megi deila atkvæði sínu niður í frambjóðendur í mismunandi flokkum en þó er Alþingi heimilt að ákveða að það verði ekki heimilt.
Alþingi verður látið eftir að ákveða fjölda kjördæma og kjördæmamörk.
Aðalatriðið er það að samkvæmt tillögum okkar verður vægi atkvæða jafnt alls staðar á landinu hvort sem kjördæmin verða eitt eða fleiri og persónukjör algilt um röðun þingsæta auk jöfnuðar á milli framboða.
Kerfið er "kjördæmavarið landskjör" þannig að séu kjördæmin til dæmis 6-8 skalt tryggt að hvert kjördæmi fái að minnsta kosti einn mann á þing. Þó má sá maður ekki vera með færri atkvæði á bak við sig en nemur meðaltali atkvæða á milli þingsæta.
Flókið?
Nei, mjög einfalt. Ekki fyrir kjósandann. Ef kjósandinn vill aðeins krossa við lista eins flokks í hans kjördæmi eins og hann er vanur, þá gerir hann það bara. Atkvæði hans fer að fullu til flokksins en hann telst hann hafa dreift því jafnt á milli allra frambjóðendanna á framboðslistanum.
Ómar Ragnarsson, 28.11.2011 kl. 21:29
Leiðrétting: Byrjun síðustu tveggja setninganna átti að vera svona:
"Flókið?
Nei, mjög einfalt fyrir kjósandann...."
Ómar Ragnarsson, 28.11.2011 kl. 21:31
Auðvitað er vitleysa að hafa svona mörg sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og jafnvel sums staðar útá landi Trausti, en heldur þú virkilega að topparnir hjá hverju sveitarfélagi vilji skera niður sjálfa sig, það er bara aldrei að fara að gerast og það er enginn að fara að setja þetta sem mál sem þarf að berjast fyrir. Menn vilja halda þessu embættismannakerfi alls staðar nákvæmlega eins og það er enda eru það þeirra hagsmunir að skera ekki af sér fótinn.
Ari (IP-tala skráð) 28.11.2011 kl. 23:19
Kjördæmapot er ekki alslæmt og í raun nauðsynlegt ef halda á landinu í byggð utan höfuðborgarsvæðisins.
Gunnar Th. Gunnarsson, 28.11.2011 kl. 23:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.