"Það leiðist engum einum ef..."

Ég hef þekkt Hermann Gunnarsson frá því að hann var 16 ára gamall og strax í upphafi var mér ljóst að þar var enginn venjulegur maður á ferðinni.

Við unnum saman eitt sumar og tókst með okkur einstök vinátta, enda þekki ég varla nokkurn mann sem betra er að eiga að vini.

Hann var þá kornungur orðinn einn af bestu knattspyrnu- og handboltamönnum landisns og hefði raunar getað orðið í fremstu röð í hvaða íþróttagrein sem var, átti lengi markametið í handboltaleik og var nokkurs konar Messi Íslands um árabil. 

Hemmi, eins og ég, á miklar taugar til Vestfjarða, og að bænum Hrafnabjörgum við Arnarfjörð bjó árum saman einsetukonan Sigríður Ragnarsdóttir, einangruð frá umheiminum stærstan hluta ársins. 

Ég heimsótti hana einu sinni fyrir Stöð 2 um jól og gerði þátt sem hét "Jól við jötuna." 

Hún sagðist varla geta hugsað sér meira viðeigandi umhverfi til jólahalds en að sitja við jötuna á aðfangadagskvöld í fjárhúsinu. "Var það ekki einmitt þar, sem sá fæddist sem boðskapur jólanna er kenndur við?" spurði hún. 

Í viðtali við einn þeirra "sérvitringa" á afskekktum bæ, sem ég hitti á þessum árum, spurði ég hann hvort honum leiddist aldrei einum. "Nei," svaraði hann. "Ég tek undir það sem Steingrímur í Nesi sagði eftir að hann hafði dottið ofan í djúpa gjótu í Aðaldalshrauni og verið þar einn fastur í myrkrinu í nokkur dægur."

Þegar hann fannst loks og var bjargað upp úr svartholinu, var hann skælbrosandi og var spurður, hvort honum hefði ekki leiðst einveran í svona langan tíma þarna niðri. 

"Nei," svaraði Steingrímur með bros á vör. "Það leiðist engum einum ef hann er nógu skemmtilegur sjálfur." 

Þannig held ég að Hemmi Gunn geti litið á málin, því leitun er að skemmtilegri og ljúfari manni.  

 


mbl.is Fjarri öllum ys og þys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband