Ég gefst upp.

Ég gefst upp. Í fyrra gerði ég svolítinn skurk í því að fjölmiðlar losuðu sig við hið hvimleiða orðalag "bílvelta varð". Það bar örlítinn árangur í fyrstu en nú er fjölmiðlafólk komið í sama farið og fyrr í þessu efni og nokkrum öðrum þar sem virðist ekki nokkur leið að gera málfar einfaldar og rökréttara.

"Bílvelta varð" er tvisvar sinnum lengra orðalag en "bíll valt." 

"Bíll valt" er fallegra, rökréttara og helmingi styttra en "bílvelta varð".

Nú hafa birst margar fréttir í röð af því að bílar hafi oltið en ekki örlar á viðleitni til að orða þetta, þótt ekki væri nema tilbreytninnar vegna, öðruvísi en "bílvelta varð". Þetta er orðin fréttasíbylja: "Bílvelta varð." "Bílvelta varð". Bílvelta varð." 

Í annarri frétt í dag er þessu að vísu snúið við: "...svo varð bílvelta..." 

Ef um væri að ræða málfar á enskri tungu væri auðvelt að kippa þessu í lag. Það vill enginn vera lélegur í ensku.

En íslenskan virðist ekki njóta þeirrar virðingar í augum margra sem hin yfirþyrmandi enska tunga og snobb fyrir henni hefur áunnið sér. 

Það er flott, "gorgeous", að tala góða ensku en virðist vera álitið hallærislegt að gera sömu kröfur um notkun íslensks máls.

Hér með lofa ég því að minnast aldrei framar á "bílvelta varð" eða "...svo varð bílvelta."  Ég gefst upp.  


mbl.is Bílvelta við Hólmavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Það er slæmt þegar fólk gefst upp en verra þegar orðabækur viðurkenna ekki gamlar og góðar beygingarmyndir óreglulegra sagna. Ég fylgist sérstaklega með sögninni að valda og það verður að segjast að fáir hafa vald á að nota hana. Í kvöldfréttum Sjónvarpsins var tvítekin þátíðarmyndin ollum í stað ullum. Og þegar ég gáði í orðabókina á netinu þá er ullum ekki talin fullgild beygingarmynd sbr. valda olli, ollum (!? ullum), valdið (!? ollað, ollið, vh.þt. ylli S

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 4.12.2011 kl. 21:07

2 identicon

„Í kvöldfréttum Sjónvarpsins var tvítekin þátíðarmyndin ollum í stað ullum.“

Og um hvað snýst málið?  Er ekki í samræmi við hefð að segja sem svo: „Við ollum tjóni“?

Var ekki brúkað „rétt“ mál í Sjónvarpsfréttunum?  Og hafi svo ekki verið; hvað mátti betur fara?

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 4.12.2011 kl. 21:17

3 Smámynd: Pétur Arnar Kristinsson

"Uppgjöf varð.."

Bílveltur verða og bankahrun

Engum er það að kenna

-Enginn er ábyrgur, enginn mun

Engum refsa nenna..

Pétur Arnar Kristinsson, 4.12.2011 kl. 23:16

4 identicon

Svo þegar bílverltan hefur orðið, er spurningin.    Urðu slys á fólki ?      Hef reyndar aldrei vitað að slys yrðu á bílunum.   :-)

ingibjörgbaldursdóttir (IP-tala skráð) 5.12.2011 kl. 02:13

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Erlend málnotkun veður uppi og hefur lengi verið. Margir virðast telja t.d. ferðaþjónustu vera sama og „ferðamannaiðnað“ sem er hrá þýðing úr enskunni: touristindustry. En orðið industry telja þeir sömu aðeins þýða iðnað en ekkert annað.

Orð hafa þann eiginleika að taka stundum á sig ýmsar myndir og ná yfir fleiri eina merkingu, orðin eru margræð. Þýðendur falla því oft í sömu gryfjuna aftur og aftur þó þeim sé margbent á villuna. Auðvitað getur erlenda orðið þýtt starfsemi og ýmsa fjölbreytni. Rétt væri að telja framleiðslu af ýmsu tagi í þágu ferðaþjónustu réttilega vera „ferðamannaiðnað“ eins og framleiðslu á póstkortum, lopapeysum, húfum og öðrum höfuðfötum, vettlingum og sokkum, minjagripum og jafnvel pulsugerð fyrir sjoppurnar. Já, síðasta orðið hefur fest sig enda nær það orð yfir ótrúlaga starfsemi.

Annað hvimleitt orðasamband er „að taka af stað“ og er greinilega beint fengið úr dönskunni. Auðvitað fer betra á að „leggja af stað“ eða þess vegna „hefja för“.

Mér finnst miður að RÚV felldi niður þáttinn „Daglegt mál“ sem Árni Böðvarsson cand. mag. og orðabókarritstjóri átti lengi veg og vanda af. Mér er lengi minnisstæð rödd hans en Árni kenndi íslensku í MH á sínum tíma fyrir 40 árum. Hann var afburða kennari og hvatti nemendur sína að vanda mál sitt.

Þá komu ýmsir bráðskemmtilegir íslenskufræðingar þar við sögu. Einn þeirra var Guðni Kolbeinsson sem varð eftirminnilega á í messunni að yfirsjást eldri eignafallsmyndina af nafnorðinu lækur: læks í stað lækjar. Varð það Guðna tilefni að hverfa frá þessu erfiða hlutverki að veita Daglegu máli forstöðu.

Góðar stundir.

Guðjón Sigþór Jensson, 5.12.2011 kl. 07:54

6 identicon

Aldrei að gefast upp Ómar. Það er margt í málinu sem þarf að halda til haga. En vissulega getur hver sem er gert sínar bommertur, eða eru það búmmertur, eða er þetta orð sem á að þýða "mistök" bara sletta ??;)

Það sem mest fer í taugarnar á mér (má ég kalla það "pirrurnar"?) er ruglingurinn á "utan" og "erlendis", altso (þýsk-upprunnin sletta), og svo hin pínlega vangeta landans að geta beygt orðin "ær" og "kýr", og hvað þá skilið neitt um skepnu þá sem í nefnifalli heitir "sýr".

Þess vegna eru orðin "belja" og "rolla" frekar notuð, en sjálfur var ég svo heppinn að Hrafnkell læknir á Vífilsstöðum kenndi mér þessa fallbeygingu skilmerkilega þegar ég var  gutti.

Árni Bö var svo með skemmtilega þætti, og það m.a. notað sem atriði  í skemmtiþætti, eða jafnvel áramótaskaupi.

Jón Logi (IP-tala skráð) 5.12.2011 kl. 09:08

7 identicon

Ættli það hafi ekki svolítið að gera með, hvað menn vilja segja.  TIl dæmis er orðið "industry" úr ensku, raunverulega latneska orðið "industria", sem þýðir að vera ötull.  Að vinna af hörku.  Þegar fólk vinnur af hörku, verður eitthvað til ... þar af leiðandi orðið "industry".  Ekki finnst mér orðið "iðnaður" vera ill valið orð, þvert á móti ... það hefur augljósa tengingu við "iðinn", eða "iðn", á sama hátt og "industry" við "industria".  Með önnur orðatiltæki eins og "tage av sted" úr dönsku, er kanske skildara "færa úr stað" en að "taka af stað".  En hér má kenna Íslendingum sjálfum um, og ást þeirra á herra tungumálum ... samanber, af hverju ekki að nota orðið "að  fara", sem er alda gamallt norrænt orð og betur till þess fallið en "hefja för".  Því orðið "fær" er myndað af orðinu "far"..  Síðan finnst mér óþarflega mikið gert úr "bílvetla varð".  Hér er verið að mynda "ópersónulegt form", og mega Íslendingar bara kenna sjálfum sér um ... af hverju kenna þeir ekki fólkinu almennilega Íslensku áður en það er látið í fjölmiðlastörf?  Alls staðar í heiminum, er það fyrsta annað og þriðja að viðkomandi tali gott mál, áður en hann fær starf í fjölmiðlum.  Nema á Íslandi, þar virðist það eitt skipta máli að hafa rétta "tengiliði".  Hlusta þú á Kínverska sjónvarpið, þar tala þeir allir "mandarin" eins og Peking vill að hún sé töluð, en ekki Shanghai-sku.  Sem er ansi frábrugðin.  Hlustaðu á Bandarískar fréttastöðvar, þar tala þeir "amerísku" útgáfuna af Oxford mállísku ... en ekki "fuck you man", tungumálið sem talað er á götunni.  Og í danmörku, þar er valið "Árósa"-málfarið.

Svona má lengi halda áfram.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 5.12.2011 kl. 09:08

8 identicon

Varð því miður fyrir því óláni að horfa á Dans, Dans, Dans um daginn!  

Sem er svo sem ekki í frásögur færandi en þar sagði einn dómara: „...gaman að sjá hvernig þú flörtaðir(e.flirt) við okkur og daðraðir!“

Er nema von að menn gefist upp?

Karl J. (IP-tala skráð) 5.12.2011 kl. 15:34

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Uppgjöf mín varðandi "bílvelta varð" var áréttuð á enn einni fréttinni í dag og má af því sjá hvernig staðan er varðandi þetta orðalag.

En það þýðir ekki að ég muni almennt gefast upp við að fjalla um rökleysur og málleysur hér í pistlunum. 

Ómar Ragnarsson, 5.12.2011 kl. 18:46

10 identicon

Heill og sæll Ómar.

Ég þekki þig af öllu öðru en að gefast upp. Síst af öllu þegar rökleysa, bull og rangt mál eru annars vegar. Nánast öll umfjöllun fjölmiðla af umferðaróhöppum og slysum er með þeim eindæmum, að manni verður frekar orðfall. Uppgjöf á aldrei að bera þar á góma, heldur frekar að reyna að koma hlutunum til betri vegar og koma viti fyrir blaðamenn.

Bílveltur virðast vera eins og vindhviður eða stjörnuhrap í umfjöllum fjölmiðla. Samkvæmt fréttum velta bílar fyrirvaralaust og án ástæðu, ef marka má fréttaflutning af þeim atburðum. Hér er dæmi frá því í morgunn:

--------------

"Þrjú ungmenni sluppu ómeidd úr bílveltu."

"Fólksbíll með þremur ungmennum um borð, valt á Grensásvegi á móts við Réttarholtsveg á þriðja tímanum í nótt.

Ungmenninn sluppu ómeidd, en ökumaðurinn, sem er réttindalaus, er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis og bílinn hafði hann tekið ófrjálsri hendi af fjölskyldumeðlim."

----------

Þetta var birt á www.visir.is 8,12,2011 og lesið hvað eftir annað í morgunfréttum Bylgjunnar. Bíllinn tók sem sagt upp á því að velta upp úr þurru, svona af því að hann langaði til þess, eða fældist eins og hross.

Fréttin hefði að sjálfsögðu átt að hljóma:

"Ölvaður eða dópaður réttindalaus ökumaður velti bíl, sem hann hafði tekið ófrjálsri hendi af fjölskyldumeðlim á gatnamótum Bústaðavegar og Réttarholtsvegar á þriðja tímanum í nótt. Þrjú ungmenni voru í bílnum og sluppu þau án meiðsla."

Ég get ómulega séð hver sök bílsins var í þessu tilfelli, fyrir utan aðrar rangfærslur í fréttinni, þar sem Grensásvegur og Réttarholtsvegur eiga engin sameiginleg gatnamót.

Sami þvættingur er nánast alltaf uppi á teningnum þegar fjallað er um bílveltur eða árekstra. Bílar velta á vegum og skella saman á gatnamótum. Ekkert er minnst á raunverulegar ástæður eins og fall fram af vegum, eða önnur atriði sem yfirleitt valda því að viðkomandi atburðir eiga sér stað. Þáttur veghaldara, ökumanna og annara þátta er haldið fyrir það sem raunverulega á sér stað.

Meðan svo er komust við lítið eða ekkert áfram í baráttunni gegn umferðarslysum. Maður verður bara að segja: "Ja mikil er ábyrgð bílsins!"

Ólafur Guðmundsson.

Ólafur Guðmundsson (IP-tala skráð) 8.12.2011 kl. 13:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband