14.12.2011 | 07:29
Mál í ólestri.
Erlendis eru símhlerunarmál litin alvarlegum augum, bæði af almenningi og einnig af stjórnvöldum, en hér á landi ríkir undarlegt fálæti um þau mál.
Fyrir nokkrum árum var upplýst um víðtækar og alvarlegar símhleranir hér á landi á tímum Kalda stríðsins og bar þetta á góma í nokkrum fjölmiðlum í smá tíma en lognaðist síðan útaf, rétt eins og þetta væri mál sem hefði litla þýðingu og væri lítt áhugavert.
Ég hef áður sagt frá því í pistlum mínum að ég hafi rökstuddan grun um í ljósi þeirra upplýsinga, sem mér tókst að fá sumarið 2005, að þá hefðu sími minn og sími nokkurra annarra verið hleraðir inni í eins konar símatorgi.
Meðal þeirra, sem voru í þessu símatorgi hlerana voru aðilar, sem voru í þeim aðstæðum, að ætla mátti að símar hverra sem væri, væru hleraðir í okkar þjóðfélagi.
Eitt af því, sem ég komst að, var að mismunandi reglur giltu hjá símafélögunum þá. Hjá einu þeirra þurfti samþykki þriggja tiltekinna yfirmanna til að heimila hlerun og voru slíkar heimildir sárasjaldan veittar.
Ástæðan hjá þessu símafyrirtæki fyrir því að þrjá menn þyrfti til samþykkis liggur í augum uppi: Með því að hafa þrjá "vitorðsmenn" minnkar hættan á því að geðþótti eins manns ráði þessu og að hann þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að upp komist, ef hann veitir samþykki til hlerana að vild sinni eða misnoti þá aðstöðu sína.
Ég hafði á þessum tíma síma hjá tveimur símafyrirtækjum og aldrei komu fram neinar vísbendingar um hlerun hjá því fyrirtæki þar sem þrjá menn þurfti til að veita leyfi til hlerana um að sá sími minn gæti verið hleraður.
Ég komst hins vegar að því að hjá hinu fyrirtækinu, því fyrirtæki sem var með þann síma minn sem varð fyrir truflunum, var það aðeins einn maður hjá því fyrirtæki sem tók ákvarðanir um hleranir.
Að mínum dómi er það alveg galið fyrirkomulag að aðeins einn maður sjái um þetta, því að það getur opnað möguleika á nánast hvaða hlerun sem vera skal án þess að viðkomandi þurfi að hafa áhyggjur af því að upp komist eða athugasemdir gætu verið gerðar.
Það skal tekið fram að vísbendingarnar um hlerun þeirra síma, sem virtust vera í nokkurs konar símatorgi hlerana með mínum síma, bentu til þess að þessar hleranir væru alveg fyrir utan hið venjulega kerfi þar getur þurft úrskurð dómara.
Út úr þessu les ég það að ég og hverjir sem eru verði að gera ráð fyrir þeim möguleika að þetta geti hvenær sem er gerst aftur, ef það er þá ekki í gangi stanslaust.
Nýjasta símahlerunarmálið bendir til þess að þessi mál séu enn í ólestri hjá okkur að mörgu leyti.
Búast má við því að sama fálætið gagnvart þessu fái að viðgangast sem endranær. Þetta virðist vera bátur sem enginn í okkar fámenna kunningjasamfélagi þorir að rugga.
Það er að mínum dómi mjög miður að svo skuli vera, gagnstætt því sem er hjá flestum lýðræðis- og mannréttindaþjóðum.
Sá rökstuddi möguleiki frá 2005 að símar séu hleraðir hjá hverjum sem er, veldur því að hver þjóðfélagsþegn verður að gera ráð fyrir því að sími hans sé hleraður, hvenær sem er og hvar sem er.
Ljóst er að að jafnaði er slík hlerun óbein, því að ekki er mannskapur fyrir hendi til að hlusta að staðaldri.
En hitt gæti verið möguleiki, að öll símtöl séu tekin upp jafnóðum, og þess vegna möguleiki fyrir "Stóra bróður" að að setja síðar menn í það hlusta síðar á hvaða símtöl sem vera skal eða taka upp beina og stanslausa hlustun að vild.
Fyrir mig sem þegn í landi sem kennir sig við frelsi og mannréttindi finnst mér slíkt ekki vera viðunandi þótt svo virðist sem flestum virðist skítsama og ekki gera sér grein fyrir þeirri hættu, sem slíkt skapar.
Ein af fjórum tegundum frelsis sem Roosevelt Bandaríkjaforseti setti fram í frægri ræðu fyrir réttum 70 árum var "frelsi frá ótta."
Víðtækar símahleranir eru skýr skerðing á "frelsi frá ótta."
Og ekki bara það. Þær upplýsingar sem ég fékk 2005 voru allar þess eðlis að viðkomandi upplýsingagjafi varð að treysta því að ég héldi nafnleynd.
Þegar óttinn er kominn á slíkt stig og er orðinn almennur hefur "Stóri bróðir" lokað hringnum sem óttinn hefur búið til fyrir hann. Er það slíkt þjóðfélag sem við viljum lifa í ?
Upplýstu grunaða um símahleranir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar.
Alveg sammála þér þarna !
Hitt er svo annað mál, ef lögregla (SS, tollayfirvöld) telja sig geta upplýst sakamál fyrr og betur með því að láta hlera, þá er það auðvitað það sem þarf að gera. Um það verða þó að gilda strangar reglur, og sambærilegar við önnur vestræn lönd.
En að einhver starfsmaður símafyrirtækis hafi látið grunaða vita að því, finnst mér enn stærra brot. varla hefur sá (þeir) gert það af kunningskap einum, sennilega hafa þessir útrásarguttar haft varan á og haft sína menn út um allt. þeir höfðu jú eignarhald víða.
Birgir Gudjonsson (IP-tala skráð) 14.12.2011 kl. 08:16
Ónefndur er sá galli þess að allir geti átt von á því hvenær sem er og hvar sem er að vera hleraðir að þá missa nauðsynlegar hleranir í algerum undantekningartilfellum marks.
Ómar Ragnarsson, 14.12.2011 kl. 10:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.