15.12.2011 | 15:12
Lengja austur-vestur-brautina ?
1956 kom fram í viðtali við þáverandi flugmálastjóra, Agnar Koefoed-Hansen að það helsta sem gæti bætt Reykjavíkurflugvöll væri að lengja austur-vestur brautina til vesturs.
Ástæðan er einföld. Aðflug og fráflug á þessa braut er ákjósanlegt að því leyti að í austurátt liggur ferillinn yfir auð svæði í Öskjuhlíð og Fossvogsdal og til vesturs út á Skerjafjörð.
Síðan eru liðin tæp 56 ár og enn í dag yrði þetta afar mikil bót, því að þá væri hægt að stytta norður-suður brautina, beina mestöllu flugi frá því að fara yfir Kvosina til norðurs eða Kársnes til suðurs auk þess sem losna myndi rými fyrir byggingar húsa.
Best af öllu væri þó að leggja núverandi norður-suður braut niður og gera aðra mun styttri í staðinn, sem lægi frá núverandi skýli nr. 4 og út í Skerjafjörð þar sem áður var olíustöð Skeljungs.
Flug myndi þá alfarið leggjast af yfir Kársnes og að mestu yfir Kvosina og losna myndi talsvert rými í Vatnsmýri og vestan við Háskóla Reykjavíkur til húsbygginga.
En líkast til eru engir peningar til fyrir svona þarfar breytingar og því síður sýnist manni verða fallist á að lækka tré á hluta skógarins í Öskjuhlíð.
Enda virðast tré, og helst framandi barrtré eða aspir, sem ná sem allra mestri hæð, að vera orðnar heilagar kýr, hvar sem hægt er að planta þeim, því að íslenska birkið, birkikjarrið eða bara grasið, virðast ekki vera nógu fínn eða flottur gróður. Erlent skal það vera.
Afleiðingin af síhækkandi skógi barrtrjáa í aðflugsstefnu austur-vestur brautarinnar verður aukin flugumferð um norður-suður brautina og oft í erfiðum hliðarvindi auk flugtaka til austurs yfir skóginn háa, flugtök sem verða sífellt nær mörkum öryggis eftir því sem trén verða hærri.
En trén, eins há og hægt er, munu fá forgang yfir flugöryggið.
Enginn virðist pæla í því hvort það sé algert skilyrði fyrir útivist og gróðri í þessari aðflugslínu að hafa trén sem allra hæst og mest framandi í íslensku landslagi, hvort enginn annar gróður komi til greina og hvort hlutföllin á milli barrskógar og annars gróðurs séu æskileg í Öskjuhlíðinni.
Tilvist borga byggist á samgöngum, líka tilvist Reykjavíkur, og ef líkja má samgöngum við vef köngulóar eru flugsamgöngurnar þráðurinn að ofan.
En svo er að sjá að margir borgarfulltrúar séu búnir að gleyma þessu og fylgi fram rökum, sem myndu ekki aðeins réttlæta að leggja flugvöllinn niður og flytja þá starfsemi til Keflavíkurflugvallar, heldur myndu sömu rök duga um það að leggja höfnina niður og flytja þá starfsemi til Suðurnesja, af því að hægt yrði að byggja svo mikið af íbúðabyggð á því frábæra svæði til slíks, sem hafnarsvæðið er.
Og ekki má gleyma Miklubrautinni sem tekur svæði, sem er rúmlega helmingur þess sem flugvöllurinn tekur. Þar mætti með sömu rökum reisa íbúðabyggð á langbesta svæði borgarinnar fyrir slíkt og beina umferðinni annað.
Æpandi verkefni blasa við í landi okkar varðandi það að stöðva ofbeit og gróðureyðingu og klæða það land gróðri sem blásið hefur upp. En skógræktin getur eins og annað farið út í öngstræti ef ekkert er hugað að því hvort rækta eigi hvaða tré sem er hvar sem er á saman tíma og enn er að finna stór landsvæði þar sem landgræðsla er sannanlega bráðnauðsynleg og þörf, en skortir fé til að snúa vörn í sókn, vilja til að breyta landnýtingu, eða hvort tveggja.
Fá ekki að fella tré í Öskjuhlíð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Austur vestur brautin er góð hugmynd Ómar, en ég get engan veginn fallist á að gróðu hafi þjóðerni, og mér finnst að við eigum að fagna þeim gróðri sem vill hjá okkur þrífast. Ennfremur eigum við að leytast við að forðast sem mest skemmdir á gróðri allstaðar á landinu , ekki bara utan höfuðborgarsvæðisins.
brynjólfur sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 15.12.2011 kl. 16:02
Mér þykir hæstvirt borgarstjórn vor mismuna trjám eftir því hvar þau vaxa. Hún neitar að láta lækka trjágróður í aðflugsstefnu einnar flugbrautar Reykjavíkurflugvallar, en gerir á sama tíma kröfu um að trjágróður sem vex út á og yfir gangstéttar og götur borgarinnar sé klipptur. Hvers eiga svo aspirnar við ráðhúsið að gjalda ? Réttdræpar vegna þess að einhver lauf kitluðu borgarfulltrúa í nefið ?
Hvaða sanngirni er þetta ?
Guðm. Logi (IP-tala skráð) 15.12.2011 kl. 20:13
Það er bara verið að nýta alla mögulega anga til að bola flugvellinum burtu hvað sem tautar og raular.
Erlingur Alfreð Jónsson, 16.12.2011 kl. 20:06
Ómar:
Eitt grundvallaratriði virðist hafa gleymst í heitfengum málflutningi þínum fyrir meintum hagsmunum flugrekstrar í Vatnsmýri á kostnað hagsmuna þeirra hundrað þúsunda gesta sem árlega vilja njóta útivistar í skjólgóðri, skógi vaxinni Öskjuhlíðinni.
Mergurinn málsins er sá, að Isavia hefur af einhverjum óútskýrðum ástæðum kosið að ýkja stórlega hættuna af trjánum í Öskjuhlíðinni.
„Hættan sem steðjar að flugumferð á Reykjavíkurflugvelli virðist hafa verið ýkt í bréfi flugvallarstjóra Isavia til Reykjavíkurborgar í september síðastliðnum. “
„Valdís Ásta Aðalsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Flugmálastjórnar, segir ekki rétt að flugi stafi nú þegar hætta af trjánum í Öskjuhlíð.“
Þetta mál er sem sagt ekkert annað en ys og þys út af engu.
http://vefblod.visir.is/index.php?s=5657&p=123991
Aðalsteinn Sigurgeirsson, 17.12.2011 kl. 01:25
"Ekki nú þegar" er það orðað. Þau tilfelli að trén verði of há eru tvenns konar. Annars vegar það að bili hreyfill í flugtaki á tveggja hreyfla flugvél í flugtaki til austurs og hún er komin of langt til þess að hægt sé að stöðva hana á brautinni, getur orðið mjög tæpt að hún komist yfir trjátoppana.
Í hinu tilfellinu getur orðið erfitt að stöðva flugvél eftir lendingu vegna þess að þröskuld brautarinnar hefur þegar orðið nauðsynlegt að færa um 200 metra inn eftir brautinni og hún því styttri til lendingar sem því nemur.
Svigrúmið hefur því minnkað vegna hugsanlegrar launhálku, misreiknings flugstjóra eða misvindis eða annarra atriða sem geta lengt stöðvunarvegalengdina.
Það er mismunandi hve bratt tveggja hreyfla flugvélar geti flogið á öðrum hreyfli en ég hef nú þegar hafið sjálfstæða rannsókn á þessu máli og mun greina frá niðurstöðum hennar þegar að því kemur, bæði hvað varðar skóginn og flugvélarnar.
Ómar Ragnarsson, 17.12.2011 kl. 19:27
Kæri Ómar:
Ef mark ætti að vera takandi á slíkri rannsókn sem þú nefndir (á svigrúmi, stöðvunarvegalengd, „þröskuldum í formi trjáa“ o.s.frv.), yrði hún að vera ÓHÁÐ, og sjálfstæð, unnin af erlendum sérfræðingum. Trúverðugleiki Isavia þykir mér vera orðinn lítill í þessu máli og af fyrri skrifum þínum um þetta mál að dæma myndir þú teljast vanhæfur (í skilningi stjórnsýslulaga) til þessa starfa.
Aðalsteinn Sigurgeirsson, 18.12.2011 kl. 19:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.