19.12.2011 | 15:06
Minnst 600 megavött, takk !
Upphaf stóriðjudraumanna sem ólu af sér nær tafarlausar byggingaframkvæmdir við álver í Helguvík voru svo dæmalaust mikið í stíl við annað sem kennt hefur verið við árið 2007 þegar þetta komst allt á mestan skrið.
Þá voru reistir hærri skýjaborgir og loftbólukastalar hér á landi en nokkurn hafði órað fyrir að væri hægt, en er best lýst í eflingarmyndbandi Kaupþings þar sem boðuð er trú á mátt íslenskra ofurmenna á andlega sviðinu sem sé langt fyrir ofan það sem þekkst hafi fyrr, algerlega ný hugsun og snilld, "Kaupthinking".
Með nýrri snilligáfu er hægt að tvöfalda hvað sem er á hverju ári, vexti fjármagnsins og gróðans eru engin takmörk sett, -, já, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð...
Byrjað var í bókstaflegri merkingu að reisa skýjaborgina í Helguvík, áður en búið var að útvega orku og finna út hvort hún væri yfirleitt til, áður en búið var að semja við tólf sveitarfélög um háspennulínur, vegi og virkjanamannvirki, hvað þá að verið væri að hugsa um endingu orkunnar eða afleiðingar orkuþurrðar fyrir komandi kynslóðir þegar þar að kæmi.
Ný lögmál hinna íslensku ofurmenna andans voru í gildi, sama eðlis og "Kaupthinking".
Aðalatriðið var ekki hvort orkuverðið væri fyrir neðan allt velsæmi, heldur hitt að selja eins hroðalega mikið af henni og unnt væri og hrinda af stað eins ofboðslega miklum framkvæmdum og unnt væri til að skapa með virkjana- og stóriðjuframkvæmdunum þúsundir starfa.
Ekkert var verið að spá í það þótt þær sömu þúsundir yrði atvinnulausar eftir örfá ár þegar framkvæmdunum lyki, því að upp myndu spretta ný risaálver, sem nýttu alla þá orku sem hægt væri að kreista út úr landi okkar, skítt með eyðileggingu náttúruverðmæta og það að ryðja öðrum kaupendum burtu.
Rétt eins og "Kaup-thinking" hafði rutt úreltum fjármálalögmálum í burtu, ruddi trúin á takmarkalausan vöxt álframleiðslu og virkjanir úreltum lögmálum um takmörk orkulinda í burtu.
Á fróðlegum fundi fyrir þremur árum upplýsti fulltrúi Norðurorku að ekki væri hægt að reka álver nú á tímum með arði nema það framleiddi minnst 350 þúsund tonn á ári og þyrfti minnst 600 megavött.
Ef nú verður gengið til verka við skýjaborgina frá 2007 sem lífga á úr dái, mun lítt gagna að uppfylla orkusölusamning Norðuráls og HS Orku, sem hljóðar upp á aðeins hluta af því sem í raun á að krefjast handa álguðinum.
Þegar þar að kemur verða Íslendingar uppi við vegg í alls ófærri samningsaðstöðu þar sem búið er að slá föstu að aðeins einn kaupandi kemur til greina og getur sett stólinn fyrir dyrnar þegar honum hentar.
Forstjóri Landsvirkjunar hefur nýlega lýst því hve arfavitlaus sú söluaðferð er að bjóða í upphafi aðeins einum stórum kaupanda hið umsamda til sölu. Með því verður aðstaða seljandans vonlaus.
Mun betri staða komi upp ef mörgum smærri hugsanlegum kaupendum er boðin orkan sem þeir geti síðan keppt um að kaupa.
Þetta, að leika af sér alveg í byrjun, er hins vegar það sem áltrúarmenn sækja svo fast í sambandi við álverið í Helguvík og nú munu þeir eflast í því sem aldrei fyrr.
Skítt með það þótt virkjun í Eldvörpum muni aðeins flýta fyrir því að klára orkuna á Svartsengissvæðinu enn fyrr en ella. Skítt með það þótt Reykjanesskaganum öllum verði umturnað með virkjanamannvirkjum.
Skítt með það að ekki er gert ráð fyrir að orkan endist nema í 50 ár og að eftir það muni ekki aðeins verða orkuskortur til rafmagnsframleiðslu, heldur skortur á heitu vatni fyrir húsahitun.
Og skítt með það að að með því að byrja í upphafi á að bjóða alla orkuna einum kaupanda er tryggt að hún verði seld á smánarverði.
Skítt með það þótt ekki sé einu sinni til reiðu þau 150 megavött sem þarf fyrir fyrstu tvo áfanga virkjunarinnar.
Já, skítt með það að nú munu engir smærri kaupendur bjóða hærra verð fyrir orkuna, sem þeir sjá að þegar er búið að ráðstafa allir og miklu meira en það.
P. S. Í fyrstu frétt Stöðvar tvö í kvöld var upplýst að nú gæti allt farið á fulla ferð og að álverið myndi byrja að framleiða ál eftir aðeins tvö ár. Bjargað hefði verið "gríðarlegum hagsmunum" með því að tryggja 300 milljarða fjárfestingu sem væri jafn mikil og vegna Kárahnjúkavirkjunar. Já, það er búið að "bjarga þjóðinni" samkvæmt þessum fréttaflutningi rétt eins og "þjóðinni var bjargað" með úrskurði Sivjar um Kárahnjúkavirkjun í desember 2001. Fréttin á Stöð 2 varpaði ekki upp einni einustu spurningu varðandi það sem kemur fram hér að ofan. Nei, - nýtt gróðæri á beinni og breiðri stóriðjuhraðbautinni sem blasir við framundan!
Verða að afhenda orku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Halló, þú veist jafnvel og hver annar heilbrigður maður að það er MIKIÐ atvinnuleysi á Reykjanesinu, þetta álver mynd umbreyta því til batnaðar. Flýgur þú ekki í flugvél, veistu úr hverju flugvélar eru búnar til?? Er orðin rosalega þreytt á svona bölsýnis fólki sem sér bara græn tún og blóm í engi, við lifu ekki á því!!!
hafdis (IP-tala skráð) 19.12.2011 kl. 15:19
Það segir mikið um ástandið að einkavædd HS orka vill allt til vinna að losna frá arfaslökum orkusölusamningi sem gerður var við Norðurál.
Alltaf skemmtilegt þegar orkufrekjurnar agnúast út i hófsemdarmenn með þeim frasa að þeir sem noti ál séu hræsnarar að vilja ekki fleiri álver á Klakann. Vert er að benda á að ársframleiðslan er þegar ca 3 tonn pr íbúa.
Hafdís, hvar er hægt að vinna orkuna?, til hversu langs tíma? hvert er orkuverðið? og hverjir vilja selja orku á því verði?
Eða eru spurningar u slík grundvallaratriði "bölsýni"?
Ég tel eðlilegt að Hafdís geti svarað þessu þar sem hún sýndi það og sannaði að geta lagt heiðarlega saman þar sem hún fór með bravör í gegnum ruslpóstsvörnina...
Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 19.12.2011 kl. 15:54
Tja, síðast er ég sá Ómar í háloftunum flaug hann líkast til vél úr timbri og dúk. Og einhver var búinn að hvísla því að mér að meiri hluti álframleiðslu heimsins fari í einnota umbúðir, og að það sem fer í ruslið á hverju ári sé meiri massi en allt löglegt flugvélablikk heimsins til samans. Svo mörg voru þau orð....
Jón Logi (IP-tala skráð) 19.12.2011 kl. 16:44
Já, er það ekki hafdís. Ómar flýgur flugvél og því skal álver rísa í Helguvík. Basta. Logic á nýju plani, á nýjum “flight level”.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 19.12.2011 kl. 17:41
Það veit aldrei á gott þegar menn eða þar fyrir kóngulær gleyma eða glata þræðinum að ofan. Nú halda Keflvíkingar ekki lengur upp á sjómannadaginn.
Bergþóra Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 19.12.2011 kl. 19:20
Nú liggur fyrir að til að kynda álver við Helguvík er ekkert rafmagn fáanlegt. Þá legg ég til, svo draumur Hafdísar rætist, að sett verði upp orkuver sem tengist líkamsrækt og menn fái vinnu við að troða dínamóa og orkan verði seld til álbræðslu. Þannig fengju fjölmargir Suðurnesjamenn vinnu og framleiða mætti fleiri bjórdósir. Allt yrði þetta svo til að samanlögð hamingja heimsbyggðarinnar stórykist.
Og þá yrðu væntanlega allir glaðir.
Þorvaldur s (IP-tala skráð) 19.12.2011 kl. 19:25
Það er næg orka til en fámennur hópur öfgafólks með ítök í VG hefur stórskaðað uppbyggingu orkufreks iðnaðar í landinu.
Gunnar Th. Gunnarsson, 20.12.2011 kl. 01:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.