20.12.2011 | 20:42
Einn óöruggasti staðurinn til að vera á.
Það er löngu viðurkennt að hinn félagslegi þáttur reykinga er sá, sem reynist því reykingafólki einna erfiðastur sem vill reyna að hætta að reykja.
Þannig er miklu erfiðara fyrir annað hjóna að hætta ef bæði hafa reykt og hitt heldur áfram að reykja.
Helst þurfa þau að taka höndum saman og hætta bæði samtímis.
Ég fylgdist sem vinur með Bubba Morthens þau misseri sem hann hafði sigrast á öllum vímugjöfunum nema þeim erfiðasta, nikótíninu.
Eins og oft er, hafði hann fengið leyfi til að skilja nikótínið eftir og halda áfram að reykja til þess að gera það ekki of erfitt að hætta við alla hina vímugjafana.
Þegar frá leið eftir endanlegan sigur Bubba þótti honum æ súrara í broti að geta ekki sigrast á nikótíninu og gerði atrennur til þess að koma þeim djöfli líka frá.
Frægt var þegar DV birti "paparazzí- mynd með fyrirsögninni "Bubbi fallinn" þar sem hann sást vera byrjaður að reykja.
Bubbi fór í mál við blaðið vegna þess tjóns sem myndin olli varðandi traust á honum, því að ekki var nóg með að lesa þurfti sig inn í frétt um málið til að komast að hinu sanna, heldur var á þessum tíma birt dagleg smáauglýsing DV í Fréttablaðinu, víðlesnasta blaði landsins, þar sem enga útskýringu var að fá.
Bubbi vann málið verðskuldað, lagði aftur af stað inn í hringinn til þess að rota nikótínófreskjuna í eitt skipti fyrir öll.
Hann sagði mér að eitt það allra erfiðasta á þessum baráttutíma sínum hefði verið að fara í bíó þar sem mikið var reykt á hvíta tjaldinu og hefði hann orðið að forðast slíkar bíómyndir.
Sennilega eru þær svona lúmskar vegna þess að þegar setið er í myrkvuðum sal og horft með innlifun á góða bíómynd, eru áhrifin einráð, ótrufluð og yfirþyrmandi.
Þess vegna er svo mikilvægt að kvikmyndagerðarmenn sýni ábyrgð í þessum efnum án þess að þurfi að beita á þá ritskoðunarklippum.
En það er ekki alltaf auðvelt, sérstaklega ekki ef sýnd eru atriði frá mestu reykingatímunum.
Ef ég til dæmis skrifaði ævisögu mína og gerð yrði mynd eftir henni og reyndi að fanga þá stemningu sem var þegar faðir minn sat um kvöld og tefldi við Baldur Ásgeirsson heimilisvin okkar, meðan ég spilaði fyrir þá sérvaldan jass af hljómplötum og virti fyrir mér hinn stóra og ógnvekjandi öskubakka sem Baldur gaf pabba með merki SS-sveitanna, hauskúpu og krosslögðum leggjum, yrði óhjákvæmilegt að sveipa þá mynd, sem gefin væri, með þykkum tóbaksreyknum sem fyllti herbergið þar sem þeir tottuðu pípu, vindla og sígarettur.
Það að reykingafólk þurfi að fara út fyrir húsdyr til að reykja virkar vafalaust hamlandi á reykingar þeirra, en á móti kemur óhagræðið af því að það eru oft svo óskaplega skemmtilegir vinnufélagar sem verða nánari og betri kunningjar í þessum hópum reykingamanna og efla þar með það félagslega áreiti sem reykingarnar hafa í þessum hópum, þar sem þetta lítur tilsýndar út eins og nokkurs konar helgar trúarsamkomur sem efla og treysta reykingaböndin.
Baráttan um reykingar í kvikmyndum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
skrýtið hvað fólki reynist miserfitt að hætta að reykja, sumir læknar hafa líkt fíkninni við heróínfíkn og sumir upplifa það eflaust svo erfitt, hins vegar reynist þetta ekkert mál fyrir suma þeir hætta strax og segja það auðvelt.
Ari (IP-tala skráð) 21.12.2011 kl. 02:17
Ég held að það sé búið að innprenta því að það sé svo erfitt að hætta að reykja.. Bubbi búinn að heilaþvo sjálfan sig með þessu.
Ég er búinn að vera hættur í 1 ár í janúar, var rosalega létt; Enda fór ég í þetta með því hugarfari.. notaði tyggjó fyrstu vikuna; Bara alsæla núna að vera laus úr þrældómi tóbaksfyrirtækja.. + að lykta ekki eins og myglaðar nærbuxur með úldnum ullarsokk.
DoctorE (IP-tala skráð) 21.12.2011 kl. 10:36
Þetta er persónubundið. Faðir minn heitinn réði aldrei vel við vínið en hann gat frá unglingsaldri byrjað og hætt að reykja þegar honum sýndist. Hann virtist algerlega ónæmur fyrir áhrifum nikótínsins.
Móðir mín gat hins vegar aldrei ráðið neitt við reykingarnar.
Ómar Ragnarsson, 21.12.2011 kl. 19:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.