Grímunni kastað. Styðjum frændur okkar.

Seint virðist það ætla að verða að íbúar Eþíópíu búi við vestræn lýðréttindi og stjórnarfar. Valdaskipti, sem þar hafa orðið síðustu 80 ár hafa í meginatriðum verið þannig að ein alræðisstjórnin hefur tekið við af annarri.

Mussolini réðst inn í landið 1935 og steypti Halie Selassi keisara af stóli, og þegar Bretar stökktu Ítölum burt 1941 var gamli keisarinn bara settur aftur í hásætið. 

Kommúnistar veltu keisarastjórninni síðan endanlega úr sessi en undir stjórn Mengistus tók við versta harðræðið af þeim öllum. 

Núverandi stjórnvöld leggja kapp á að sleikja sig upp við Bandaríkjamenn til þess að njóta stuðnings þeirra, en undir yfirborðinu leynist alræði fámennrar valdaklíku sem notar gamalt "styrjaldarástand gagnvart Eritreu" og "hryðjuverkaógn frá Sómalíu" sem skálkaskjól til að stjórna undir yfirskini hernaðarástands og neyðarlaga. 

Svo vildi til að árið 2006 þurfti ég að ferðast um svæði nálægt landamærum Sómalíu og þar voru vegfarendur ekki óhultir vegna ræningja, sem laumuðust stundum í skjóli myrkurs yfir landamærin, rændu fólk og fóru hið snarasta til baka. 

En þetta var aðeins í næsta nágrenni landamæranna. 

Árásin á Tvíburaturnana 2001 var vatn á myllu stjórnvalda í Eþíópíu því að þau stukku strax yfir á vagn hræðslunnar við hryðjuverk og réttlæta nú allt sem hægt er með hryðjuverkaógn og fengu meira að segja bandaríska herinn til að gera árás á múslimska uppreisnarmenn í Sómalíu fyrir nokkrum árum.  

Í höfuðborginni Addis Ababa sem er nokkurs konar gluggi gagnvart umheiminum sýnist borgarlífið ósköp venjulegt en í borginni sést af stærð stéttar öryggisvarða að öryggið er falskt. 

Það er eitthvað meira en lítið bogið við það að í reynd er allt flug lítilla flugvéla er í raun bannað í þessu víðlenda ríki meira en 60 milljóna íbúa. Inann við tíu litlar flugvélar eru til í landinu. 

Á sínum tíma var reistur ágætis flugvöllur við borgina Arba Minch og við hann dýrindis flugstöð úr marmara, sem stendur auð allan ársins hring og að meðaltali lendir ein flugvél á vellinum á dag sem er eins og draugastaður. 

Ríkisflugfélagið Ethiopian Airlines er flaggskip landsins, flott og vel rekið alþjóðlegt nútímaflugfélag í samvinnu við Bandaríkjamenn. 

Stór Coca-Cola verksmiðja er þar og hvergi til svo aumt strákofaþorp í landinu að þar sé ekki hægt að kaupa þennan drykk á sama tíma og fólk og fénaður hrynur niður úr þorsta og hungri. 

En hagkerfi landsins, sem er með meira en 200 sinnum fleiri íbúa en Ísland, er minna en það íslenska, bæði fyrir og eftir Hrun. 

Í landinu er gríðarmikil ónotuð orka á sama tíma og rafmagn er skornum skammti og fólk býr í strákofum við hungurmörk.

Grímunni, sem ráðamenn í Eþíópíu hefur tekist að hafa yfir sér gagnvart umheiminum og vestrænum löndum, hefur nú verið kastað gagnvart sænsku blaðamönnunum, sem dirfðust að hafa samneyti við fólk sem er í ónáð hjá yfirvöldum, og er vonandi að norrænir frændur okkar fái stuðning frá íslenskum stjórnvöldum. 


mbl.is Hafa áhyggjur af örlögum Svíanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband