Svipað og "Engihjallaóveðrið" hjá okkur ?

Hermt er að vindhraði í Noregi hafi náð allt að 50 metrum á sekúndu eða ríflega 95 hnútum, en til samanburðar má nefna að 6 hnútar (leiðrétting vegna athugasemdar: 64 hnútar) teljast fárviðri. 592130b.jpg

Þetta minnir á veður sem sumir kalla "Engihjallaveðrið" 1992 þegar vindhraði á Reykjavíkurflugvelli náði 93 hnútum, og bílar fuku eins og leikföng á bílastæðunum við blokk við Engihjalla í Kópavogi.

Þótt fallandi tré séu hættuleg í Noregi hygg ég að skógurinn komi í veg fyrir að mun meira tjón  verði vegna skriðufalla. fs00008895.jpg

Ég hef verið á ferð á fjallvegum í Varmalandi í Svíþjóð þegar skip sukku í miklu óveðri á Kattegat og skemmdir urðu víða um Norðurlönd. 

Á þessum fjallvegum var þéttur og hár skógur og skafrenningurinn því aðeins brot af því sem verið hefði á sambærilegum íslenskum fjallvegum. 

Þegar litið var upp á víð til himins á milli trjánna mátti sjá skýin æða yfir trjátoppana þótt tiltölulega lítill vindur væri niðri við jörð í skjóli skógarina. 

Trén binda líka jarðveginn og því verða síður mikil skriðuföll eins og við þekkjum hér á landi. img_2263.jpg

Skriðan sem lokaði Björgvinjarbrautinni er því óvenjulegt fyrirbæri í Noregi. 

Sums staðar duttu sjónvarps- og útvarpssendingar út í Noregi og hjá okkur minnir mig að annað útvarpsmastrið á Vatnsenda hafi fallið niður í óveðri á níunda áratugnum. 

Þótt nú sé dimmt hér heima í hryðjunum sleppum við slíkt og getum setið í næði fyrir framan sjónvarp eða hlustað á útvarp, til dæmis á upptöku frá tónleikum Stórsveitar Reykjavíkur og Gáttaþefs í Háskólabíói 27. nóvember á fyrsta sunnudegi í aðventu.img_2270.jpg

Fyrir atbeina Stórsveitarinnar og þó einkum félaganna Hauks Gröndals var ráðist í það að plata Gáttaþef til að taka upp gamlan þráð og vera með dagskrá líka þeim sem hann var með á jólaskemmtunum fyrir tæpri hálfri öld. 

Í Engihjallaveðrinu mátti litlu muna að ég yrði fyrir tjóni þegar flutningabíll, sem skýldi þáverandi TF-FRÚ niðri við Skerjafjörð lyftist hvað eftir annað upp og var alveg við það að velta yfir á flugvélina, sem var af gerðinni Dornier Do 27. img_2273.jpg

Við börðumst við það, ég og Guðjón Sigurvinsson flugvirki, að koma í veg fyrir það að flutningabíllinn ylti og tókst það, en það stóð afar tæpt. 

Í vetur hefur verið efiðara en áður að verja FRÚna óveðursskemmdum af því að hún hefur staðið kyrrsett úti í snjósköflum Selfossflugvallar í átta mánuði og því verið afar tímafrekt og dýrt að fara þangað vel á annan tug ferða til að stunda þar mokstur þegar vélin hefur verið leyst, henni snúið og hún bundin að nýju. 

En það vantar ekki að þetta erfiði er góð líkamsrækt og hressandi. 

Og einn af gömlu Fiötunum mínum, Fiat 600, (Zastava 750) árgerð 1972 er í góðu yfirlæti í versluninni Tekk Company skreyttur á þann hátt að það er alveg í anda jólanna að láta myndir af honum fljóta hér með og minni á myndir úr árlegum fjölskylduhittingi á aðfangadagskvöld, sem ég var loks að setja inn í næsta blogg á undan þessu. 

 


mbl.is Fótboltahöll hrundi til grunna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tryggvi Helgason

Hvers vegna Selfoss ??? Er ekki nægilegt pláss í Reykjavík ???

Gleðileg jól. TH

Tryggvi Helgason, 26.12.2011 kl. 16:29

2 identicon

6 hnútar kallast nú ekki fárviðri í minni sveit...  vantar ekki eins og eitt núll þarna hjá þér?  :)

Karl J. (IP-tala skráð) 26.12.2011 kl. 18:09

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta áttu að vera 64 hnútar en vegna ásláttarbilunar fór talan 4 ekki inn hjá mér.

FRÚin hefur verið kyrrsett á Selfossflugvelli vegna þess að gerðar hafa verið nýjar kröfur hér á landi, einu allra landa sem ég þekki til, um það að fyrir hendi sé svonefnd "upprunavottorð" fyrir stærra, betra og öruggara nefhjóli, sem er undir vélinni en sett var undir svona vélar hér fyrir næstum hálfri öld. 

Nefhjólið á FRÚnni hefur verið athugasemdalaust undir fjórum flugvélum með þessu kallmerki og farið í gegnum 26 ársskoðanir og hátt í hundrað aðrar skoðanir þessi 40 ár með vitneskju allra skoðunarmanna Flugmálastjórnar á þessum tíma. 

En nú, 40 árum síðar, er ekki til neitt "upprunavottorð" frá þeim tíma, enda hefur það aldrei þurft fyrr en nú með nýju reglunum. 

Ég á ekki peninga til að kaupa nýjan, lakari og óöruggari nefhjólsgaffal og færa með því öryggið aftur um hálfa öld og því stendur vélin þarna vikum og mánuðum saman. 

Hef sent beiðni varðandi þetta mál til Flugmálastjórnar og bíð vongóður. 

Ómar Ragnarsson, 26.12.2011 kl. 18:20

4 Smámynd: Tryggvi Helgason

Ég verð að segja að ég alveg steinundrandi á þessum upplýsingum frá þér, Ómar.

Að mínu mati þá virðist nokkuð augljóst að það þarf að breita mörgu í landinu, - ekki einungis í sambandi við fiskiveiðar, - heldur ýmsu öðru einnig.

Hvað í heiminum er þetta "upprunavottoruð" ? Uppruni á hverju, - flugvélinni sjálfri, nefhjólinu, dekkinu eða einhverju öðru ?

Hver er "uppruninn" á þessu, sem mér sýnist vera tómt bull ? Hver setur þetta fram og hvaðan er þetta komið ? Er þetta eitthvað sem komið er frá Evrópubandalaginu ? Ekki er Ísland í þessu ESB, svo þeim kemur ekkert við hvað við gerum á Íslandi. Kveðjur, TH

Tryggvi Helgason, 26.12.2011 kl. 20:52

5 identicon

Það er merkilegt að jafn vel gefinn maður og þú Ómar skulir ekki koma auga á lausnina á þessu Frúarmáli. En fyrst þú kemur ekki auga á það sjálfur, þá koma hér ábendingar:

Lausnin felst í því að koma þarf málinu fyrir dómstóla.  Það gerist þannig að þú lýsir frati á eftirlitsaðalinn, ferð einfaldlega austur á Selfoss, ræsir Frúna og flýgur henni til Reykjavíkur. En ekki verður það venjulegt flug, heldur vandlega undirbúið, allt saman kvikmyndað bak og fyrir, allt tekið upp, samtöl við flugturn, lending filmuð og lögfræðingar eða fulltrúar sýslumanns, blaðamenn o.s.frv viðstaddir lendinguna og alt skráð í bak og fyrir þar sem þú lýsir því hátt og snjallt yfir að þar sem þér sé gert að uppfylla "óuppfyllanleg" skilyrði, og þar með gert ómögulegt að nýta atvinnutæki þitt þér til framfæris, þá brjóti nauðsyn lög og þú áskiljir þér rétt til þess að fljúga téðri hvert á land sem er, að uppfylltum þeim skilyrðum sem á annað borð er hægt að uppfylla.

Það sem næst gerist er að þér verður hótað öllu illu, bréf munu streyma inn um bréfalúgu þína frá eftirlitsaðlinum, sem mun líklega ekki "þora í þig" landsfrægan manninn. Þú heldur því áfram að fljúga þar til þeir sjá sig tilneydda til að kæra þig til dómstóla, en það er einmitt staðurinn þar sem þú vilt vera. Þar berð þú fram þín lagarök, að um ólöglega stjórnsýslu sé að ræða (hófsemisreglan) þar sem þér sé gert að uppfylla skilyrði sem þér sé ómögulegt.  Héraðsdómur, Hæstiréttur, og síðan Mannréttindadomstóllinn  (leiðin hans Þorgeirs), circa 5 -6 ár, Frúin væntanlega kyrrsett á meðan, en í góðri geymslu innanhúss allan tímann á kostnað hins opinbera.

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 26.12.2011 kl. 21:28

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta mál er í raun séríslenskt eins og sést af því að erlendu flugvélarnar, sem eru með sams konar nefhjól og ég veit um og hef myndir af, eru í Finnlandi og Svíþjóð, en bæði þessi lönd eru innan ESB og EASA, en EASA er flugöryggisstofnun Evrópu sem spannar öll þau lönd innan og utan ESB, sem hafa innan sinna vébanda flugfélög sem starfa á alþjóðlegum grundvelli eins og Icelandair og Iceland Express.

Hvað snertir málarekstur þá er í hann í gangi á almennum grundvelli fyrir einkaflugmenn. 

Slíkt kostar milljónir og er ekki á færi mínu. 

Áður en ég aðhefst nokkuð frekar en að bjarga flugvél minni frá skemmdum með ærnum kostnaðir og fyrirhöfn mun bíða svars við bænarbréfi mínu til Flugmálastjórnar þar sem ég höfða til og treysti á skynsemi og drengskap þeirra sem þar á bæ taka afstöðu til þess.

Ómar Ragnarsson, 26.12.2011 kl. 22:04

7 identicon

"bænarbréf til Flugmálastjórnar"?  "skynsemi og drengskapur" kerfiskalla"?

Halló, halló, manni minn! Maður gæti haldið að þú værir fæddur í fyrradag.

Hvað kostnaðinn við málaferli áhrærir, þá ertu með stórfrétt í höndunum, framhaldssögu sem CNN og jafnvel 60 minutes mundu slást um.  Áhugi alþjóðlegra stofnana í flugmálum yrði strax vakinn, og íslensku kerfiskallarnir mundu lyppast niður með skottið milli lappanna.  Svo ættirðu líka að vita, eftir söfnunina vegna 70tugs afmælisins, að þú átt hauk í horni þar sem þjóðin er annars vegar, honum Frikka Weisshappelyrði ekki skotaskuld úr því að safna nokkrum millum í málsvarnarlaun handa þér. 

Svo, Ómar, strax og veðrið skánar eftir áramót, fáðu þér þá bíltúr austur fyrir fjall og skutlaðu Frúnni í bæinn með pompi og pragt!

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 26.12.2011 kl. 22:23

8 identicon

Eða bara til mín. Svo gætirðu fengið einhvern annan til þess. hehe, einhvern teinislausan.

Jón Logi (IP-tala skráð) 26.12.2011 kl. 22:33

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er ekki þeirrar gerðar að vilja klekkja á mönnum að óþörfu með því að gefa þeim ekki tækifæri eða tíma til til að hugsa sitt ráð og finna lausn á þessu einstaka máli varðandi vél mína. 

Í gangi er annar og heildstæður málarekstur hvað varðar þessi mál gagnvart grasrótarfluginu í heild og mestu varðar að það endi farsællega.

Ómar Ragnarsson, 27.12.2011 kl. 03:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband