4.1.2012 | 18:54
Ein stjórnarskrá fyrir eina þjóð.
Hverju sinni getur aðeins ein stjórnarskrá verið í gildi fyrir hverja þjóð. Ekki tvær. Ekki þrjár.
Innan stjórnlagaráðs voru margir sem vildu ganga alla leið í beinu lýðræði, miklu lengra en nokkur nágrannaþjóða okkar.
Þegar á heildina er litið er gengið mjög langt þegar þess er gætt að samkvæmt frumvarpinu hefur forseti Íslands ótakmarkað val um að nýta sér málskotsrétt til þjóðarinnar.
Þegar það er lagt við hinn tvöfalda rétt sem er nýmæli í frumvarpiu til málskots til þjóðarinnar, þ. e. annars vegar að 10% kjósenda geta það, að frátöldum svipuðum málaflokkum og eru nefndir í hliðstæðum ákvæðum þeirra stjórnarskrá nágrannalandanna sem á annað borð gera ráð fyrir málskotsrétti til þjóðaratkvæðagreiðslu og hins vegar að 2% kjósenda geta lagt fram þingmál, sem getur endað í þjóðaratkvæðagreiðslu, er ljóst að í frumarpinu er stigið risaskref í áttina að beinu lýðræði.
Þegar þetta þrennt er lagt saman er gengið lengra en hjá nokkru nágrannalanda okkar.
Samt eru þeir til, þeirra á meðal Ögmundur Jónasson, sem telja það "forkastanlegt" að ganga ekki miklu lengra en okkur þjóð sem við berum okkur saman við.
En síðan eru það hinir, sem telja það "forkastanlegt" hve langt stjórnlagaráð gekk í víðfeðmum umbótatillögum sínum og þessi öfl munu beita öllum ráðum til að kæfa þessa tilraun til stjórnarbóta.
Þegar hefur komið fram andstaða við frumvarpið hvað það varðar að á mörgum sviðum sé allt of miklu breytt á varasaman hátt.
Þegar gengið er á þessa gagnrýnendur um það hvað sé svona hættulegt, þegar tekið er tillit til þess að þessar breytingar byggjast yfirleitt á atriðum sem hafa hlotið góða reynslu í mörgum löndum, verður yfirleitt fátt um svör.
Til þess að rökstyðja að þessi ákvæði séu svona varasöm, þurfa viðkomandi að lýsa því hvaða "séríslenskar aðstæður" séu fyrir hendi.
Það hafa þeir yfirleitt ekki gert ennþá, hvað sem síðar verður.
En af þessu sést að í litrófi íslenskra stjórnmála eru skiptar skoðanir úr báðum áttum, frá hægri og frá vinstri, frá mikilli íhaldssemi til róttækra byltingarskoðana og sótt er að frumvarpi um nýja stjórnarskrá úr tveimur áttum.
En engin leið er að nota eina stjórnarskrá sem þjónar svo ólíkum skoðunum meðal þjóðarinnar.
Stjórnlagaráð samþykkti einróma frumvarpið að nýrri stjórnarskrá þótt ljóst væri af umræðum um það að enginn fulltrúi fékk allt sitt fram.
Af hverju?
Af því að við, eins og þjóðin, verðum að sætt okkur við það sem Þorgeir Ljósvetningagoði sagði forðum: Við verðum að hafa ein lög í landinu, eina stjórnarskrá, ekki margar.
Þess vegna er valið í raun einfalt: Viljum eina nýja stjórnarskrá í stað þeirrar gömlu eða viljum við áfram þá gömlu?
Að sjálfsögðu er frumvarp okkar ekki fullkomið frekar en önnur mannanna verk og líkast til er engin stjórnarskrá í heiminum fullkomin.
Stjórnarskráin var yfirfarin af mörgum af okkar færustu fræðimönnum og fékk ítarlegri og opnari umfjöllun en dæmi eru um úr íslensku stjórnarfari.
Hún á að vera sáttmáli, ekki tilefni til enn meiri sundrungar og illinda en eru í okkar þjóðfélagi.
Þeir sem ganga vilja lengst eða skemmst í ýmsar áttir hafa að sjálfsögðu fullan rétt til að halda þeim skoðunum sínum fram.
Ef finnast í henni atriði sem má gera betri, er sjálfagt að vinna í því að betrumbæta það.
En í næstum árslangri vinnu, sem lá samtals að baki frumvarpinu, hjá þjóðfundunum, stjórnlaganefnd og síðan stjórnlagaráði, var unnið hörðum höndum við slíka vinnu.
Verði þessi tilraun til að vinna það verk, sem lofað var hátíðlega 1944, eyðilögð vegna harðrar andstöðu úr tveimur áttum, er þó hægt að hugga sig við það, að eftir sem áður stendur frumvarpstextinn skráður í sögu þjóðarinnar og mun hljóta og hlíta dómi sögunnar eins og önnur verk.
Rétt að hanga á völdunum? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Áfram Ómar!
Björn J. Guðjohnsen (IP-tala skráð) 5.1.2012 kl. 08:07
Gott innlegg Ómar.
Ég vil eins mikið lýðræði og hægt er að fá en þegar við búum við einræðisráðherrrastjórn þá verðum við að hafa meiri völd. það eru þeir sem rífast og þrátta en ekki við. Efþú lest sögu okkar þé eru flest málaferli milli opinbera starfsmanna svo sem sýslumanna presta og annarra sem unnu fyrir þjóðina. það voru þeir eins og núna sem koma illindum af stað. í svona litri þjóð er alveg í lagi að hafa hundrað prósent lýðræði.
Valdimar Samúelsson, 5.1.2012 kl. 11:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.