Eins og Chris Eubank.

Sú var tíðin að Chris Eubank var einhver vinsælasta en jafnframt umdeildasta og umtalaðasta persóna Bretlands.

Ástæðurnar voru margar.

Hann komst í efstu röð hnefaleikara heimsins með aldeilis mögnuðum tilþrifum í hringnum, einstökum stíl sem byggðist á frábærri fótavinnu þar sem hann stökk um fjaðurmagnaður eins og köttur og gerði heillandi leifturárásir og sló oft mótherjana niður með einu "ljónshöggi".

Þessi brúnglansandi blökkumaður skartaði þrautþjálfuðum og fögrum líkama á borð við bestu vaxtarræktarmenn en til mótvægis var hann með ófríðari mönnum. 

Eubank lét það ekki á sig fá þótt hann hefði svo sannarlega andlitið á móti sér, heldur vó það margfaldlega upp með óvenjulegri framkomu og persónutöfrum sem gerði mig einn af aðdáendum hans. 

En framkoma hans skapaði honum jafnframt harðsnúinn hóp þeirra sem þoldu ekki ögrandi framkomuna og ákveðinn "hroka" sem birtist meðal annars í því að hann varð fyrstu hnefaleikara til að stökkva yfir kaðlana, lipur eins og köttur og dansa um og "pósa" með því að taka um magann og þenja "fagurskorna" maga- og brjóstvöðvana framan í áhorfendur með ögrandi svip. 

Eubank fetaði engan milliveg, - annað hvort elskuðu menn hann eða hötuðu. En oft er það einmitt það sem skapar mönnum mesta frægð samanber Ali og Michael Shumacher, - annað hvort voru þeir elskaðir eða hataðir, - það var engum sama um þá. 

Eubank var ófeiminn við að sýna af sér hluti sem oft eru nefndir kynþætti hans til háðungar, svo sem glysgirni. 

Árum saman hlaut hann titilinn "best klæddi karlmaður Bretlands" og það verður að segjast, að hann var vel að þeim titli kominn, - smekkurinn var í hæsta gæðaflokki. 

"Fötin skapa manninn" segir máltækið og klæddur í sitt besta skart þótti Eubank hafa ómótstæðilegan kynþokka gagnvart hinu fagra kyni. 

Stökkið fræga inn í hringinn, ögrandi "pósurnar", kattardansinn inni í hringnum, - allt varð þetta vafalaust fyrirmynd fyrir Prins Naseem-Hamed, sem bætti um betur og fór flikk-flakk og heljarstökk yfir kaðlana og inni í hringnum þegar kom til leiks.

Nú er Eiður Smári að sjálfsögðu allt öðruvísi en hinn blakki Eubank, en eftir að hafa verið atvinnumaður í dáðri íþrótt í Bretlandi og víðar hefur hann kynnst fatarsmekk frægra íþróttastjarna.

Ég var alinn upp hjá foreldrum sem höfðu mikinn áhuga á og fötum og því að klæða sig smekklega. 

Þetta erfðist hins vegar ekki til mín og ég hef aldrei á ævinni keypt á mig föt, - fyrst gerði mamma það en síðan konan mín. 

Fyrir síðustu jól keypti ég loks fyrstu fötin af eigin rammleik, jólasveinabúning handa Gáttaþefi fyrir skemmtun hans og Stórsveitar Reykjavíkur í Háskólabíói !

En þrátt fyrir að vera svona mikill lúði sjálfur hvað snertir eigin föt sá maður muninn á klæðaburði Chris Eubank og hinna karlmannanna sem voru mest áberandi í Bretlandi á sínum tíma og ég reikna með því að hafa hrifist af klæðaburði Eiðs Smára Guðjohnsen síðasta nýjárskvöld ef ég hefði verið þar.   

 

 

 


mbl.is Eiður Smári valinn best klæddi herrann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband