Ekki spurning um hvort, heldur hvenær.

Heimsbyggðin er nú að upplifa það að hinn grimmi veruleiki tveggja fyrirbæra verði ekki umflúin. 

Þau eru: 

Eyðist, sem af er tekið. 

Það kemur að skuldadögunum. 

Svo óskaplega einfalt að maður undrast hvernig það geti vafist fyrir mönnum, hvað þá þjóðum, stórveldum og heimsálfum. 

Fyrir áratug var Ítalía við dyr gjaldþrots vegna afar slæmrar stöðu stærstu fyrirtækja landsins svo sem FIAT (sem Impreglio tengdist).

Glöggir menn þóttust sjá að með sama áframhaldi blasti ekkert annað en gjaldþrot ríksins við.

Impregilo er verktakafyrirtæki og í þeim bransa er þekkt hugtak, verktakaheilkennið. 

Það felst í því að til þess að forðast gjaldþrot býður fyrirtækið nógu lágt í verkefni til þess að fá þau og þar með lánsfjármagn til að borga skuldir og tap af síðustu verkum og fleyta sér þannig áfram þótt í raun blasi við að slíkt geti ekki haldið áfram endanlaust. 

Raunar er magnað hve lengi er hægt að halda áfram á slíkri óheillabraut með því að verkefnin og umsvifin aukist sífellt og kalli á stærri og stærri verk og lántökur, sem nefndar eru því huggulega orði: "endurfjármögnun" sem þýðir oftast ekki annað en vaxandi skuldasúpa. 

"Uppgangur, þensla og aukinn hagvöxtur", þessi eftirsóttu hugtök sem allt virðist byggjast á, hafa haldið efnahagskerfi Evrópu á floti í skjóli halla á fjárlögum og síaukinna skulda, og evrusamstarfið skapaði raunar ný og aukin tækifæri til slíkrar fjármálastjórnar hjá þeim þjóðum sem ekki hafa tamið sér það aðhald og festu sem til dæmis ríkir í Þýskalandi. 

Nú er komið að því óhjákvæmilega, skuldadögunum. 

Ég hygg að það sé mikill misskilningur að hagkerfi Evrópu einnar riði til falls. 

Ástæðan er sú að hvað Evrópu varðar er komið að því sem óhjákvæmilega mun einnig verða hlutskipti Bandaríkjanna og fleiri stórra og smárra ríkja, að þar komi líka að skuldadögunum og endimörkum hagvaxtarins sem átti að verða ótakmarkaður um alla framtíð. 

Stórfelldur fjárlagahalli Bandaríkjanna og skuldsetning þeirra mun á endanum leiða til þess að hagkerfi þeirra riði lika, - ekki spurning um hvort, heldur hvenær. 

Og það mun hafa áhrif á Kína, Indland, Brasilíu og önnur helstu efnahagsveldi heims. Raunar eru áhrifin þegar farin sjást á þeim bæjum. 

Því að varðandi auðlindir jarðar og fjármálasukk gilda lögmálin: 

Eyðist það sem af er tekið. 

Það kemur að skuldadögunum. 


mbl.is Lánshæfismat evruríkja lækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er líklega málið í hnotskurn. Viðförull heimsmaður sagði við mig fyrir sautján árum, að lífskjör Vesturlanda svokallaðra, væru annarsvegar tekin að láni og hinsvegar fengin með því að níðast á svokölluðum þriðja heims ríkjum. Að því kæmi að menn yrðu að láta af þessum lífsstíl. Eins myndi þrýstingur á jöfnun lífskjara þjóða í milli aukast og verða óbærilegur og lífskjarajöfnunin yrði fyrst og fremst ofan frá og niður, ekki öfugt. Jörðin þyldi það ekki. Það er æ betur að koma í ljós að þessi ágæti maður (sem var reyndar Breti) hafði óþægilega rétt fyrir sér. Ein birtingarmynd framtíðarinnar er gríðarlegt atvinnuleysi meðal almennings í okkar heimshluta, sem stafar m.a. af því að það er einfaldlega orðið of dýrt að hafa okkur í vinnu, okkar framleiðsluvörur stæðust ekki verðsamkeppni og sennilega ekki framleiðslugæði heldur nema að litlu leyti.

Quinteiras (IP-tala skráð) 14.1.2012 kl. 13:10

2 identicon

Sammála. Hagkerfin munu að vísu ekki riða til falls, en við verðum að láta minna. Ekkert vestrænt land mun geta haldið gangandi því velferðarkerfi, sem við höfum vanist og gerum kröfur til. Móðir jörð leyfir það ekki, eða eins og Ómar segir; eyðist það sem af er tekið. Við verðum að láta minna; minni farartæki, minna húsnæði, færri útanlandsferðir, minni orkuneysla, minna sorp, minni innflutningur á drasli, t.d. frá Kína, meiri neysla á matvælum framleidd í okkar nágrenni, færri silicon brjóst.   

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 14.1.2012 kl. 17:32

3 Smámynd: Júlíus Valsson

Það er ótrúlegt hve íslenskir fjölmiðlar hafa lítið fjallað um þennan mikla vanda í Evrópu. Nýlega lækkaði Standard & Poor lánshæfismat níu evrópuríkja, Frakklands, Austurríkis, Möltu, Slovakíu, Slóveníu, Kýpur, Ítalíu, Portúgals og Spánar en fjölmiðlar fjölluðu nær einungis um vanda Frakklands. Það er eins og það sé meðvituð þöggun í gangi?

Skyldu annars fjölmiðlar veita iðnaðarsaltinu eins mikla athygli og þeir hafa veitt iðnaðarsílikoninu?

Júlíus Valsson, 14.1.2012 kl. 17:33

4 Smámynd: Júlíus Valsson

http://www.guardian.co.uk/business/2012/jan/13/eurozone-crisis-france-credit-rating-aaa

Júlíus Valsson, 14.1.2012 kl. 17:36

5 identicon

Þú gleymir einni breytu í þessu og það er mannauðurinn. Ég sest núna níður þennan sunnudag og búið til afurð - t.d. mob app fyrir krakka sem hjalpar þeim að leggja saman - og það verður til verðmætasköpun. Þetta er "resource" sem ekki minnkar þegar af er tekið og þetta heldur uppi "hagvexti". Þetta snýst því ekki bara um tré, olíu etc - þetta snýst líka um mannauð og hann getur á ákveðinn hátt verið sustainable því ekki fækkar þeim. Þetta fer meira að snúast um plás til lengri tíma og allt það - en við erum enn ansi langt frá því að það verði vandamál.

bingoman (IP-tala skráð) 15.1.2012 kl. 10:42

6 identicon

Ég vil taka undir með Júlíusi Valssyni hér að ofan að það virðist vera undarleg þöggun í gangi hjá íslenskum fjölmiðlum og vandræðalegt hvað íslenskir fjölmiðlar fjalla lítið og þröngt um þessa lækkun S&P á lánshæfiseinkunn hjá alls 9 EVRU ríkjum.

Tala aðeins um vanda Frakka og Sarkosys, en minnast ekkert á að t.d. stórríki á EVRU svæðinu eins og Spánn og Ítalía voru "downgraduð" um 2 flokka og verða samt enn með neikvæðum horfum. Þetta er í raun miklu alvarlegra fyrir þau og allt EVRU svæðið því að þau nálgast nú óðfluga botninn eða að verða sett í svokallaðan ruslflokk.

Flestir íslensku fjölmiðlana hafa heldur ekkert, eða mjög lítið nefnt að Kýpur og Portúgal í þesu sambandi, þau voru einnig lækkuð og eru nú komin á botninn, eða eru nú komin í þennan hroðalega ruslflokk og horfurnar meira að segja enn neikvæðar.

Fara kannski næst í það erfiða hlutverk að verða neydd til þess að skoða undir botninn eins og vesalings Grikkir hafa þegar gert.

Gunnlaugur Ingvaarsson (IP-tala skráð) 15.1.2012 kl. 10:55

7 identicon

Mannauður er að sönnu góður og blessaður, en hann fær enginn étið né byggt úr honum hús og þaðan af síður kynt raforkuver.  Til að halda uppi hagvexti til lengdar verður að auka framleiðslu í áþreifanlegum verðmætum, og munum að tölur á blaði eða tölvuskjá eru ekki verðmæti heldur ávísun á verðmæti (og getur, eins og dæmin sanna, verið innistæðulaus).  Af því leiðir að ef allar þjóðir eiga að njóta sömu lífsgæða og Vesturlandabúar er það ekki hægt.  Jörðin er ekki nógu stór.  Og munu þeir sem minna njóta sætta sig við það til lengdar?

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 15.1.2012 kl. 11:30

8 identicon

Ég hef nefnt reikniregluna með tölunni 70 áður, en góð vísa er ekki of oft kveðin. Fyrr eða síðar heyrir vöxtur sögunni til, það er óhjákvæmilegt, og reyndar ekkert langt í það. Hérna:

Hérna kemur útskýringin á galdratölunni 70.
Með vöxt á tímaeiningu sem staðalvöxt þarf bara að deila 70 með vaxtatölunni (%) og út kemur tvöföldunartíminn.
Þetta er bara stærðfræðiregla, og ég veit ekki af hverju þetta er 70 frekar en pí er 3.1415962535 o.s.frv. Tvöföldun endar svo í fjórföldun á sama tíma, og svo 8, 16, 32, 64, 128, 256, 512, 1024, 2048 o.s.frv. Tvöföldunartími á 10 árum gefur t.a.m. 2048 földun á einungis 110 árum.


En, - þetta virkar og það hressilega. Á hvaða vöxt sem er, sem tvöföldun.
Tökum dæmi.

- Yfirdráttarvextir á malli eru ca 17%. Heimildin er sveigjanleg. Það tekur 70/17, sem sagt ca 4 ár þar til upphæðin er tvöföld.
- Eitthvað hófsamara. Hagkerfi í þenslu. Gefum okkur 7%. Það þýðir 70/7 sem gerir tvöföldun á 10 árum.
- Ennþá neðar. Neysla. Neysluaukning upp á hófsama væntingu á 3.5% þýðir 70/3.5 sem er 20. Tvöföldun neyslu á 20 árum.
- Tökum þá hálfgerða kyrrstöðu. Mannfjöldaþróun í því sem teldist geldstöðuríki m.v. Ísland hvað frjósemi varðar s.l. áratugi. 1%. Jæja, 70 ár í tvöföldun, það er allt og sumt. Það þýðir á mannamáli að ef heildarfjölgun mannkyns heldur konstant upp á vesæl 1%, þá erum við búin að sprengja þakið af hnattkúlunni og auðlindum hennar eftir vesæl 70 ár, og það miðast við að misskipting auðæva haldi sér og hinir konstantarnir séu til friðs.

Enginn vöxtur þarf þó hvorki að þýða geldstöðu né kyrrstöðu, þar sem til að halda mannfjölda í 0% vexti þarf hver kona að jafnaði að eignast 2 börn, neysla er alltaf til staðar, fólk þarf að greiða sitt, og jafnvel vexti (kostnað) á það, og þar fram eftir götunum. En ef við förum ekki að fatta þessa einföldu reglu (og þetta er bara stærðfræðiregla), þá verður skellurinn stór þegar að kemur.


Pælið nú aðeins. Gaman að geta rekið hagfrótt fólk á gat með einföldum hugarreikningi... 

Jón Logi (IP-tala skráð) 16.1.2012 kl. 09:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband