Fullur lögregluþjónn, timbraður maður og óður hundur.

Látum vera þótt jólasveinn sé drukkinn á jörðu niðri. Öðru máli gegnir um drukkinn lögreglumann um borð í lítilli flugvél eða óðan hund. 

Hvort tveggja rak á fjörur mínar hér á árum áður. Haustið 1967 var ég beðinn að koma að skemmta á Höfn í Hornafirði. 

Með mér í för var undirleikari minn, Haukur Heiðar Ingólsson, og var ég beðinn taka með okkur lögregluþjón úr Reykjavík því að búist var við miklu fylleríi á fjölmennu ballinu og að mikill fjöldi aðkomumanna myndi koma. 

Flugvélin, sem ég flaug, einshreyfils skutla, TF-REA, var afar þröng og einkum var þröngt í aftursætinu. En hún var einstaklega hraðfleyg í ég reiknaði með að í meðvindinum sem við myndum hafa,  ferðin til Hornafjarðar aðeins taka klukkustund og 15 mínútur.

Þegar ég kom út á flugvöll brá svo við að lögregluþjónninn krafðist þess að fá að sitja í framsætinu, af því að aftursætið væri svo þröngt. 

Ég hafnaði því, einkum á þeim forsendum að Haukur Heiðar er með hærri mönnum og einnig var mér ekki vel við að hafa alveg ókunnan mann, sem kom fram af talsverðri frekju, við hliðina á mér þar sem hann gæti gripið í stýrin og farið að skipta sér af flugi vélarinnar og grípa í stýrin. 

Hann espaðist við þetta og kom upp að mér með ógnandi svip og spurði hvort ég vissi hverja þýðingu það hefði fyrir samkomu kvöldins ef ekki kæmi lögregluþjónn þangað sem þyrfti að kúldrast í þröngu aftursæti. 

Ég sá þá að maðurinn var sauðdrukkinn og svaraði honum með því að ég tæki ekki fulla menn með í flug. 

Hann æstist þá enn meira og fullyrti, að ef ég tæki hann ekki með, yrði skemmtuninni aflýst, - löggæsla væri þýðingarmeiri en fíflagangur á sviðinu. 

Ég sat við minn keip og að svona drukkinn tæki ég hann hvork með mér sitjandi í framsæti eða í aftursæti, - vissi að hann gæti tekið mig hálstaki ef hann sæti fyri aftan mig. 

Hornfirðingar voru ekki ánægðir þegar ég kom austur, enda fór svo að allt varð vitlaust undir lok dansleiksins, slagsmál út um allt, og meira að segja hent stórum grjóthnullungum í gegnum rúðuna í anddyrinu.  Kenbndu margir mér um það þótt mér fyndist reyndar að það hefði verið fulla lögregluþjóninum að kenna.

Reynslan hefur kennt mér að þessi ákvörðun var rétt þótt ég væri ekki alveg viss þegar ég tók hana.

Tvisvar eftir þetta dróst ég inn á það að taka með mér vafasama farþega og fékk að kenna í því 

Í annað skiptið var það deyfður hundur, sem dýralæknir og eigandi fullyrtu að myndi ekki hreyfa sig, vandlega reyrður niður í aftursætið. 

Strax í flugtakinu rauk hann hins vegar upp gersamlega trylltur og ljóst var að hann gæti brotist úr böndunum og valdið slysi, því að þetta var stór hlunkur, sem eigandinn, kona, réði ekkert við.

Ég tók snarpa beygju og hring og lenti umsvifalaust. 

Í annað skipti dróst ég inn á að taka mjög timbraðan mann með mér í flug og fékk hann að sitja í framsætinu af því að hann hafði gutlað svolítið við flug og var með einhverja tugi flugtíma. 

Við vorum fjórir í vélinni og lengi vel gekk allt að óskum. Hann fékk að taka aðeins í og flaug bara bærilega. 

Allt í einum ýtti hann stýrinu snöggt fram, alveg í botn svo að flugvélin steyptist fram yfir sig. 

Þetta var svo snöggt og ákaft að allur sandur og óhreinindi, sem voru á gólfi vélarinnar, þeyttust upp í þakið og sáldraðist yfir okkur.

Annar farþeginn í aftursætinu, sem var hár vexti, skall hart með höfuðið upp í þak flugvélarinnar, þótt hann væri bundinn í belti.

Á flughraðanum, sem við vorum, var þetta mun meira álag en flugvélin var gerð fyrir, því að vélar af þessari gerð eiga að þola hátt í 3 g í dýfu en hins vegar innan við 2g í öfugu álagi. 

Sem betur fer þoldi vélin þetta í þetta skipti en þarna hefði getað farið illa og fjórir menn farist. 

Ég sá að ég hefði ekki átt að taka þennan mann með fremur en fulla lögregluþjóninn á sínum tíma.

Mér var kunnugt um það að hann var auk áfengisneyslu í fíkniefnaneyslu, sem er miklu lúmskari, og hafði líklega neytt LSD daginn áður miðað við þetta uppátæki, því að hann sá sjálfur ekkert athugavert við þetta og útskýrði það kæruleysislega: "Bara djók!"

Ég kynntist ýmsum á þessum tíma sem voru í blandaðri neyslu og gátu fengið köst daginn eftir, til dæmis óstöðvandi hlátursköst eða grátköst þótt ekki sæi á þeim að þeir væru undir áhrifum. 

Þriðju söguna gæti ég látið fylgja með, flug með hreindýr, en hún bíður síns tíma. 

 


mbl.is Fullur jólasveinnn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fróðlegar og skemmtilegar frásagnir.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 15.1.2012 kl. 13:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband