Nú reynir fyrst verulega á !

Það hefur heldur betur komið mönnum í koll að ekki var mokað nógu duglega strax í upphafi þess langa snjóakafla sem nú hefur staðið í tvo mánuði.

Venjan hefur verið sú í okkar ágætu höfuðborg að treysta á það að næsti hlákukafli eyði snjóum sjálfkrafa og ókeypis.

En landið okkar heitir nú einu sinni Ísland og sjaldan hefur gælunafnið "Klakinn" átt betur við en í vetur.

Í upphafi snjóakaflans þjappaðist snjór víðast saman af umferðinni þar sem ekki var mokað og varð að klaka þannig að mokstur síðar var um seinan, - tækin réðu ekki við klakann.  

Þetta hefur valdið miklum vandræðum víða allan tímann, líka þegar verið hafa frost og snjókoma.

Ástæðan er sú að víðast hvar er enn þetta sama glærasvell undir snjónum sem gerir það að verkum að ef bíla spóla sig niður á það í gegnum snjóhuluna, komast þeir ekkert áleiðis.

Þegar snjó fer að leysa og varða að krapa annað kvöld verður þessi laumuhálka undir enn hættulegri.

Hlákur hafa verið það stuttar að flughálir svellbunkarnir hafa haldið velli og verða hugsanlega enn þykkari og viðsjárverðari en nokkru sinni fyrr á laugardag og fram á miðjan sunnudag.

Vonandi er að nú sýni allir meiri aðgæslu en nokkru sinni fyrr, minnugir alls þess heilsu- og fjárhagstjóns sem hálkuslysin ollu um daginn.

Borin von er til þess að tæki vinni á þykkum svellbunkunum og síðan mun sækja í svipað far aftur þegar hitinn minnkar síðdegis á sunnudag.

Segja má að niðurföll eigi eftir að vera aðalorð næstu dægra í tvennum skilningi, - annars vegar niðurföll fyrir vatn, sem stífluð eru af klaka sem þarf að brjóta upp, - og hins vegar niðurföll mannfólksins, orðmynd sem ég minnist frá barnæsku í sjúkdómsheitinu niðurfallssýki.

Beinbrotin sem hálkuslysins hafa valdið hafa verið býsna fjölbreytileg, úlnliðsbrot, handleggsbrot, axlarbrot, mjaðmarbrot, lærbrot, fótbrot, ökklabrot o. s. frv.

Samheiti yfir þau gæti verið orðið hálkubrot eða jafnvel Gnarrbrot ef menn vilja endilega tengja borgaryfirvöld við þau, en það er nú kannski full langt gengið, jafnvel þótt menn vildu kalla það "bara djók" upp á Gnarrísku.


mbl.is Allt að 11 stiga hiti um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú reynir einnig á nýjustu hönnun Vegagerðarinnar á Suðurlandsvegi. Í ljós er komið að hin undarlegu vegamót á svokölluðum tvíbreiðum kafla milli Lækarbotna og Litlu-kaffistofuna eru verstu snjógildrur. Sennilega verða þetta slysagildrur jafnframt. Ekki þurfti nema ein gatnamót á þessum kafla þ.e. við Bláfjallaafleggjara og hefðu að sjálfsögðu átt að vera mislæg. Malarflutningabílar geta notað gamla veginn niður á Bláfjallaafleggjara og Litlu-kaffistofuna hefði átt að flytja upp að Þrengslavegamótum og mátti styrkja staðarhaldara til þess.

Sverrir Hjaltason (IP-tala skráð) 27.1.2012 kl. 14:11

2 identicon

Ég hef fulla trú á vinum mínum hjá yr.no en þeir spá hita yfir frostmarki alla næstu viku og eitthvað fram á helgi.

Karl J. (IP-tala skráð) 27.1.2012 kl. 20:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband