6.2.2012 | 12:14
Höfðu lyf Addisons áhrif ?
Framhjáhald Kennedyanna á sinni tíð þykir ekki lengur sérlega fréttnæmt. Joseph, faðir þeirra bræðra, var víst fjölþreifinn og John F. Kennedy sömuleiðis alla tíð.
Einnig komst Robert bróðir hans ekki hjá því að vera á milli tannanna á fólki og sama átti líka við um fræga stjórnmálamenn þessara tíma eins og Martin Luther King og Willy Brandt.
Brandt hafði þá sérstöðu að ein kjaftasagan um hann fjallaði um meint atvik þegar hann dvalldi á Hótel Sögu á NATO-fundi.
Johen F. Kennedy var raunar orðaður við sex frægar leikkonur, þeirra á meðal Marilyn Monroe og Marlene Dietrich.
Þær Marylin og Marlene kölluðu raunar ekki allt ömmu sína í þessum efnum og þess vegna upplagt að spyrða þær við Kennedy þótt heimildir fyrir því væru sennilega ekki beysnar.
Í þáttum Stöðvar 2 um Kennedyana er kvensemi hans haldið vel til haga, allt frá fyrstu dögum hans í Hvíta húsinu og einnig fyrir þann tíma.
Sagnfræðingar hafa velt vöngum yfir hlut Addisons "aukalæknis" Kennedyhjónanna í þessu, hvort örvandi lyfjagjafir hans hafi aukið óþol Kennedys á þessu sviði.
Mér finnst ólíklegt að það hafi skipt neinum sköpum, því að Kennedy var víst að eins og rófulaus hundur áður en Addison kom til.
Sérfræðingar hafa sett fram þá kenningu að velgengni, afl, áhrif og útgeislun karlmanna eigi stóran þátt í því að þeir verði djarftækir til kvenna. Sé það ráðstöfun náttúrunnar til að stuðla að því að slíkir menn auki frekar kyn sitt en meðaljónar.
Þess vegna séu valdamiklir menn, fjármálamenn, stjórnmálamenn, afreksmenn og kvikmynda- og tónlistarstjörnur svona ágengir á þessu sviði.
Þegar þetta er rætt á svona nótum vill gleymast að það þarf tvo til og að fyrrgreindir menn höfða mjög til kvenna sem ekki leiðist að "vera með dáta".
Ekki þarf annað en að fylgjast með hinu sígilda fyrirbæri, konum sem elta poppstjörnur og hermenn, til að sjá að fyrirbærið hefur tvær hliðar.
Annars breyta þessar sögur af Kennedyunum, nýjar og gamlar, sannar og lognar, litlu um það hve mikið dálæti ég hef á þeim Jack og Bobby, einkum frábærum ræðum þeirra sem eru minnisstæðar og sígildar, hvernig þeir tóku saman á erfiðum málum, einkum í Kúbudeilunni, þar sem í ljós kom að Bobby var efni í jafnvel enn merkari stjórnmálamann en eldri bróðir hans var.
Fræg ræða Bobbys um þjóðarframleiðslu Bandaríkjanna hefur til dæmis aldrei átt meira erindi við alla en nú, næstum hálfri öld síðar.
Ég tel að fráfall hans hafi jafnvel verið meira áfall en fráfall bróður hans.
Bókin "Profiles in courage", Pulitzer-verðlaunabók Johns, hafði gríðarleg á mig sem ungan mann. Raunar er talið að vinur hans, Ted Sörensen, hafi átt stóran þátt í ritun bókarinnar og að ræður Kennedys hafi líka verið ekki verið verk hans eins.
Svipað má reyndar segja um fleiri stjórnmálamenn og finnst mér ekki ástæða til að gera minna úr þeim Kennedybræðrum en öðrum stjórnmálamönnum, þótt þeir hafi átt vini til ráðgjafar eða aðstoðar í þessum efnum.
Raunar gat Edward verið sleipur ræðumaður líka og það alveg óstuddur, eins og til dæmis þegar hann hélt óundurbúinn eina af frægari ræðum sínum og gat vegna sjóndepru ekki notað "telepromter" heldur varð að túlka hugsanir sínar beint af munni fram.
Fyrrverandi hjákona Kennedys segir frá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ótrúir og ístöðulitlir í einkamálum en eiginlega samt ekki,góðir ræðumenn en sömdu þó kanski ekki ræðurnar. Mikil er trú þín Ómar. Það er gott að hafa sín "idol".
Við eigum mörg hér á Íslandi "idolið" Ómar Ragnarsson,en fjarlægðin (og kanski sjónvarpið)gerir fjöllin blá og mennina mikla. Kanski hefði fallið aðeins á silfrið ef hægt hefði verið að þrasa við Kennedyana í bloggi!
Öll hafa og höfðu þessi "idol" þó sjálfsagt sér til ágætis nokkuð!
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 6.2.2012 kl. 12:51
Var ekki bara málið að á þessum tímum (og þar til í run nýlega) þótti sjálfsagt eða allavega í lagi að valdamiklir menn hefðu svo og svo margar konur? þ.e.a.s. að þetta var bara samfélagslega viðurkennt.
það var eins og á miðöldum, að þá þótti sjálfsagt að aðalsmenn hefðu margar konur.
En með þessa konu núna, að þá í dag virkar þetta stórundarlega. Hún er nánast barn þarna samkvæmt nutímaskilgreiningu og í engri stöðu til að verja sig í raun. En þetta er gömul frétt sko. Kom fram þegar einhver Kennedyskjöl voru ger opinber 2003. þá hafði umrædd kona aldrei sagt neinum frá þessu og heldur ekki foreldrum sínum. Hún var þá, 2003, gift og fráskilin og hafði annað nafn en á Kennedy tímanum. Fjölmiðlar leituðu hana uppi.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 6.2.2012 kl. 13:15
Það er ekki ólíklegt að örvandi lyf fái menn til að rísa hærra, fara lengra.. perrast með ýmislegt sem þeir myndu ekki gera ella.
DoctorE (IP-tala skráð) 6.2.2012 kl. 15:18
John F var nú enginn veifiskati, sbr. feril hans í seinna stríði.
Varðandi lyfja-dæmið á honum var því fleygt á sínum tíma að hann kvaldist mikið af hryggverkjum.
Og svo varð hann að forseta, og það er nú bara svona að menn (og konur) sem öðlast mikil völd eiga það til að (mis)nota stöðu sína.
Það er til flott orð á þýsku. "Schreibtischingst". Skrifborðsgraðhestur.
Jón Logi (IP-tala skráð) 6.2.2012 kl. 16:21
Jón Kennedy var mikið upp á kvenhöndina og hafði mikla náttúru. Kannski það varð honum að falli. Var hann kannski að færa sig upp á skaftið við einhverja sem eiginmaðurinn gat ekki sinnt betur en hann og sá kokkálaði vildi hefna harma sinna?
Varðandi morðið á Kennedy var mikill samsærisvefur spunninn upp á vegum Warren nefndarinnar þar sem einhverjir vondir kommar áttu að eiga hlut að máli. Þessu var öllu kollvarpað enda kenning Warren nefndarinnar ekki sérlega sannfærandi, alla vega ekki ein og sér. En ekki er ósennilegt að þar hafi fleiri mikilvægir þættir komið við sögu. Mér skilst t.d. að Kennedy hafi ekki verið sérlega áhugasamur um stríð og hernaðartól en vissir aðilar í BNA höfðu mikla hagsmuni að til tíðinda drægi í Víetnam sem varð Bandaríkjunum ekki til frægðar nema öðru nær.
Bandaríkjaforseta voru önnur tól mun hugfangari en hernaðartólin enda mikið um fagrar konur á sveimi kringum forsetann sem einnig hafa væntanlega haft áhuga. Hins vegar var Jónsson varaforseti mjög mikill áhugamaður um aukin tengsl og samvinnu við hergagnaframleiðendur og stríðsmenn. Ekki er ólíklegt asð hann hafi verið lykilmaður í samsæri að ryðja þessum graðfola úr vegi.
Annars verður sannleikurinn sennilega seint fundinn í þessu máli enda var e.t.v. upphaflega ætlunin að glutra niður rannsókninni strax í byrjun.
Góðar stundir!
Guðjón Sigþór Jensson, 6.2.2012 kl. 16:55
Verkin sýna merkin, Bjarni Gunnlaugur og ekki er hægt að hafa bókina Profiles in courage af JFK, þótt Ted Sörensen hjálpaði eitthvað til.
JFK var aðeins forseti í 2 ár og 10 mánuði og ef það er skoðað, hvað eftir hann liggur frá þeim tíma, hlýtur niðurstaðan, debet-kredit, að vera jákvæðari en hjá flestum öðrum Bandaríkjaforsetum, miðað við lengd valdatímans.
Enda telja flestir þar vestra JFK vera í hópi merkari Bandaríkjaforseta.
Ómar Ragnarsson, 6.2.2012 kl. 21:06
Sé saga Kennedyanna skoðuð þá gæti maður helst haldið að bölvun hvíli á þeim. Örlagasaga þeirra er afar hörmuleg. Ég hef talið JFK merkan forseta, hef ekki kynnt mér nægilega pólitísk verk Roberts.
Ég er hinsvegar svo nísk að ég tími ekki áskriftinni og sit því hér í hliðarsal á þínu bloggi og les um sjónvarpsþætti. Það er heldur aumt.
Ragnheiður , 7.2.2012 kl. 06:57
Langar bara að gera eina athugasemd en Addisons var ekki læknir JFK heldur sjúkdómur sem hann var með. Þetta er sjaldgæfur alvarlegur sjúkdómur, sjálfsónæmissjúkdómur, þar sem nýrhetturnar virka ekki. Nýrnahetturnar framleiða lífsnausynleg hormón.
Elísa (IP-tala skráð) 7.2.2012 kl. 11:23
Þetta er auðvitað hárrétt hjá Elísu, þegar hún segir það :)
Ragnheiður , 7.2.2012 kl. 14:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.