Skortir víðsýni ?

Til er alþjóðlegt fyrirbæri sem ber fræðiheitið FUA, sem er skammstöfun á "Functional Urban Area" og ég myndi þýða sem VBS, eða "virkt borgarsamfélag.

Skilyrðin fyrir því að svæði falli undir þessa skilgreiningu er að þar búi ekki færr en 15 þúsund manns og fjarlægðin frá miðju út að jaðrinum sé ekki meiri en svo að það taki 45 mínútur eða minna að komast þar á milli.

Eyjafjarðarsvæðið vestan frá Öxnadalsheiði austur til Skjálfandafljóts og norðan frá Ólafsfirði suður í Eyjafjarðarbotn fellur undir þessa skilgreiningu með Akureyri sem miðju.

Þessi sérstaða Akureyrar gerir það sjálfsagt mál að þar fari fram viðburðir og starfsemi sem sjálfsagt þykir að séu á Reykjavíkursvæðinu, þar sem margt af slíku á sér stað í Kópavogi og Hafnarfirði.

Þar að auki er það svo, að meðan Reykjavíkurflugvöllur er þar sem hann er nú, tekur aðeins 45 mínútur að fara á milli Reykjavíkur og Akureyrar, þannig að það viðmið VBS á við um þetta atriði.

Þess vegna finnst mér það vera skortur á viðsýni, öðru nafni þröngsýni, þegar menn láta sér detta það í hug að flytja Söngkeppni framhaldsskólanna frá Akureyri til Reykjavíkur.


mbl.is Vilja söngkeppnina á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar, ég las þetta blogg þitt og gat vart orða bundist. Að þú skulir spyrja hvort fólk skorti víðsýni og sé þar af leiðandi þröngsýnt? Það kalla ég þröngsýni að horfa ekki á málið frá öllum hliðum. Keppnin stendur ekki undir sér á Akureyri vegna kostnaðar við flutning á tækjum og tólum. Ég kalla þetta víðsýni hjá þeim sem standa að keppninni, því þeir leita nýrra leiða til að halda keppnina.

Ragnar (IP-tala skráð) 20.2.2012 kl. 19:50

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Víðsýnin má greinilega ekki ná út fyrir mörk höfuðborgarsvæðisins. Ef setja á mælikvarðann á það hvað beri sig og hvað beri sig ekki skulum við þá bara loka Þjóðleikhúsinu, Hörpu, Borgarleikhúsinu og öllum þeim tugum svipaðra menningarstofnana og menningarfyrirbæra sem "ekki bera sig" hér í höfuðborg allra landsmanna.

Ómar Ragnarsson, 20.2.2012 kl. 21:44

3 identicon

Ragnar, stór þáttur í því hve keppnin hefur verið kostnaðarsöm er sá að stærstur hluti þeirra sem vinna að henni koma frá Reykjavík, með tilheyrandi kostnaði við uppihald og gistingu. Ég þekki þetta mál vel því ég var í hóp framhaldsskólanema sem stóð að því fá keppnina til Akureyrar árið 2003 þegar hún var þar fyrst og var síðan framkvæmdastjóri keppninnar. Þá voru tæknimenn og skipuleggjendur að lang stærstum hluta heimamenn og gekk vel. Við nýttum ýmsa þekkingu og sambönd sem heimafólk hefur til að spara við framkvæmdina, fá hluti lánaða og þess háttar. Þannig var keppnin haldin í tvö skipti með góðum árangri, eða þar til Félags Framhaldsskólanema lagðist af.

Síðar tók fyrirtæki frá Reykjavík við rekstri keppninnar og eftir það hafa lang flestir sem að henni vinna verið fluttir norður og þekkingu vantar á því sem fyrir hendi er í bænum til að gera framkvæmd keppninnar með hagstæðari hætti.

Örlygur Hnefill Örlygsson (IP-tala skráð) 5.3.2012 kl. 01:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband