"Saltóðir" starfsmenn ?

Jón Gnarr kynnti sér sorphirðu borgarinnar í morgun og var það hið besta mál.

Mikið hefði ég viljað óska þess að hann hefði líka verið á ferð með þeim að því er virtist meðvitundarlausu starfsmönnum borgarinnar sem voru í óða önn að úða auðar og þurrar aðalgötur borgarinnar í kvöld.   

Stundum er sagt að menn séu saltvondir. Orðið "saltóður" kemur þó stundum upp í huga mér þegar ég sé dæmi þess að starfsmenn Vegagerðarinnar og borgarinnar og bæja út um landið úða salti algerlega út í bláinn á vegi og götur eins og búið sé að skipa þeim að láta dómgreind og mat fara veg allrar veraldar.

Ótal dæmi er hægt að nefna um þetta. Það síðasta getur að líta á myndum, sem ég ætla að setja inn með þessum pistli og ég tók á Háaleitisbrautinni á níunda tímanum í kvöld.

Þannig háttaði til í borginni síðdegis í dag að hitinn var að nálgast frostmark og raki, sem sat á ýmsum götum, breyttist í hrím, sem gat verið varasamt en þó enginn farartálmi vestan Elliðaáa.

Núna á níunda tímanum mátti sjá saltúðunarbíla bruna um göturnar og úða salti á þær algerlega án tillits til þess í hvaða ástandi þær voru, helst á þær götur sem voru auðar og skraufþurrar en ekki á þær götur sem voru hrímaðar að einhverju leyti.

Á efstu myndinni er einmitt horft af þurru götunni inn á hliðargötu, sem liggur til nokkur hundruð manna og þar var hrím vegna þess að sú gata var það lengi rök í dag af því að umferðin er ekki eins mikil og á Háaleitisbrautin. Neðsta myndin er tekin í þessari hliðargötu, en auðvitað var engu salti úðað þar

Já, helstu götur eins og Miklabraut og Háaleitisbraut voru orðnar alveg auðar og þurrar síðdegis í dag eins og á sumardegi.

Þær voru það líka nú á níunda tímanum og það er spáð rigningu og allt að fimm stiga hita  í fyrramálið.

En viti menn: Kemur ekki saltúðunarbíll og úðar Háaleitisbrautina niðureftir og uppeftir algerlega að tilefnislausu, rétt eins og rænulaus stjórnandi hafi verið við stýrið.

Myndirnar hér á síðunni eru teknar um 20 mínútum eftir þessa úðunarherferð og sést að á milli hjólfaranna er sést enn í gráa þurra götuna, en yfir hana liggja bogadregnar saltslummur, sem eru hins vegar að fletjast út í dökkan saltpækil undan hjólum bílanna í hjólförum þeirra. IMG_2810

Eins og áður sagði er spáð rigningu og allt að fimm stiga hita í fyrramálið. Þá verður það gulltryggt að saltblandað regnvatnið mun úðast um undirvegna bílanna sem aka um göturnar í stað þess að það hefði verið hreint rigningarvatn, sem hafði þá getað hreinsað salt af undirvögnum bílanna. IMG_2809

Hér er verið að sóa verðmætum í formi salts, vinnu á kauphærri vinnutíma og enn meiri verðmætum í formi ryðgaðra undirvagna og salt-tjöruúða á bílum á morgun.

Ég get nefnt annað skondið dæmi utan af landsbyggðinni fyrir nokkrum árum. IMG_2807

Nótt eina lagðist köld hrímþoka frá sjónum inn yfir Fljótsdalshérað og náði hún upp í um það bil hundrað metra hæð.

Á Fagradal var hins vegar um fimm stiga hiti og skraufþurr vegur yfir til Reyðarfjarðar.

Á leið þangað yfir ók ég á eftir bíl vegagerðarinnar sem úðaði salti yfir alla leiðina, sem auð var og án þess að vera með vott af hálku, um það bil 30 kílómetra leið.

Um tíuleytið hafði þokunni létt í heitu sólskini sem hitaði saltpækilinn milli Egilsstaða og Reyðarfjarðar fljótlega upp fyrir tíu stig.

Enga leið var að finna skýringu á þessu rugli aðra en þá að yfirmaður niðri í lágþokunni á Egilsstöðum hefði skipað undirmanni sínum að salta leiðina til Reyðarfjarðar án þess að bera minnsta skynbragð á algengt veðurfyrirbæri á þessum slóðum.

Þetta kalla ég að vera saltóður. Og stundum eru það sömu mennirnir og leyfa ástand á borð við það sem ríkti hér dögum saman að ekki var hreyft við því að halda opnum leiðum til þúsunda manna, sem voru ófærar venjulegum bílum dögum saman.   IMG_2810


mbl.is Jón Gnarr í rusli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta með salt austurinn verður alltaf skrítnara og skrítnara.

Þegar allir eru kimnir af nagladekkjum, hverju verður þá kennt um malbiksskemmdir á götum borgarinnar ?

Allir þeir sem vinna með salt vita hvernig saltpækillinn eyðileggur allt sem hann kemur nærri !

Málmar hverfa vegna salts !!!

Aðalvandamál í útflutningi á saltfiski er eyðileggingar máttur  saltsins á málmum í gámum !!!

Bæði götur og bílar eru eyðilagðir með þessum saltaustri !!!

JR (IP-tala skráð) 20.2.2012 kl. 21:41

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ómar. Verktaka-spillingar-klíkunni er að mistakast eineltið á Jón Gnarr, sem betur fer. Það er eins og þeir haldi að það þurfi ekki eina einustu sjálfstæða hugsun, og samstarf við sitjandi borgarstjórn, sem vinna hjá borginni. Ætli þeir haldi að Jón Gnarr eigi að vera verkstjóri út um alla borg, samhliða borgarstjóra-starfinu? Mér þykja þessi gervi-gullaldar-vinnubrögð hjá borgarstarfsmönnum segja mest um verktaka-yfirklíkuna, sem stjórnar störfum á þessu Íslands-skeri.

Svona sé ég nú eineltið sem viðgengst gegn Jóni Gnarr. Þeir "gylltu" klikkuðu á því, að Jón Gnarr er vanur íslenska klíku-kerfiseineltinu, og stendur þetta af sér

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 20.2.2012 kl. 23:48

3 Smámynd: Jón V Viðarsson

Oliufélögin græða á þessu, selja meira af tjöruhreynsi og sápum og einnig græða þeir á bónstöðvunum. Við Íslendingar borgum himinhátt benzin verð, þurfum að eiga vetrar og sumardekk og svo allur þrifnaðurinn á ökutækjunum. Svo græða Olíufélögin líka meira ef saltararnir eru nógu mikið á ferðinni að eyða Olíu. Er þetta ekki bara hluti af samráðinu ?

Jón V Viðarsson, 20.2.2012 kl. 23:52

4 identicon

Mér finnst þú svolítið ósanngjarn gegn vegagerðinni. Það er allt í lagi að salta götur áður en hrímið kemur, þá hrímast þær ekki! Stóru göturnar eru þurrar, ekki bara af því að umferðin er meiri, heldur líka af því að þær voru saltaðar. Varasamar götur valda slysum. Auðvitað er stundum saltað að óþörfu, þegar veðurspáin er röng.

SB (IP-tala skráð) 21.2.2012 kl. 00:54

5 identicon

þetta er hreinlega f. alla vikuna ómar, það er spáð 2-3 stiga hita út vikuna og það rignir af og til. Þegar svo skýjin fara burtu missir landið hita með útgeislun í háloftin, þá kólnar og verður hálka. Saltið lækkar bræðslustigið og því verður minni hálka, þetta er gott mál!

ari (IP-tala skráð) 21.2.2012 kl. 12:12

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Dæmið, sem ég nefndi varðandi Fagradalinn, var þess eðlis að ekki var vegur á þessum tíma, í byrjun september, að sá glóru í því að salta auðan og þurran veg í 4-5 stiga hita að morgni dags, þegar sólin skein í heiði og hitinn stefndi rakleiðis yfir tíu stig í samræmi við gildandi veðurspá.

Spáin um regnvotar götur í nokkurra stiga hita gekk eftir nú í morgun og saltúðunin á auðar og þurrar götur í gærkvöldi var fráleit.

Ómar Ragnarsson, 21.2.2012 kl. 13:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband