23.2.2012 | 22:57
Er það virkilega að "eitthvað annað" skili svona miklu?
Þjóðhagsleg áhrif flugtengdri starfsemi er meira en þrisvar sinnum meiri en af stóriðju. Samt mun flugtengd starfsemi flokkast undir "eitthvað annað" þegar rætt er um helstu úrræði í atvinnumálum og margir láta sér fátt um finnast þegar flugið er annars vegar.
Flugtengd starfsemi byggist á vel menntuðu fólki, einkum í fluginu sjálfu. Virðisaukinn er mikill og arðurinn rennur til landsmanna sjálfra að mestu leyti en ekki til erlendra fyrirtækja.
Gildi flugsins flugsins fyrir þjóðina, þjóðlíf og þjóðarhag, hefur verið stórlega vanmetið hin síðari ár og fallið í skuggan fyrir landssamgöngum, sem vissulega eru líka afar mikilvægar.
Miklar tekjur fást frá útlöndum vegna flugumferðarstjórnunar á Norður-Atlantshafi sem Íslendingar annast, en samt eru framlög til flugmála innanlands svo lág að verið er að leggja niður flugvelli innanlands, meira að segja Patreksfjarðarflugvöll.
Mér skilst að það hafi kostað hátt á aðra milljón að rífa upp tæki og merkingar á þeim flugvelli til þess að geta lagt hann niður.
Ég er að basla við að halda úti öryggisflugvelli suðvestur af Kárahnjúkum fyrir allar flugvélar sem notaðar eru ínnanlandsflugi og hafði vonast til að ná til mín merkjahöttum af þeim flugvöllum sem lagðir hafa verið niður.
En fjárskorturinn er það mikill hjá Flugmálastjórn að þeir verða nota hattana til að endurnýja hatta sem eyðileggjast á öðrum flugvöllum þeirra og þurftu að nota hluta þeirra til að að koma Hólmavíkurflugvelli í löglegt horf, því að þar höfðu aldrei verið nóg margir hattar.
Sauðárflugvöllur er með fjórar flugbrautir, alls 3,7 kílómetra langar, og sá eini á öllu hálendinu af þessari stærð.
Svo mikill er fjárskortur Flugmálastjórnar að völlurinn verður að vera skráður einkaflugvöllur þótt hann sé opinn endurgjaldslaust fyrir hvern þann sem þarf á honum að halda, og ég verð að borga Flugmálastjórn fyrir það að halda þessu öryggisatriði úti, en það kostar bæði fé og fyrirhöfn, einkum vegna þess hvað flugvöllurinn er langt í burtu frá Reykjavík.
Fjárskorturinn er bagalegur. Þannig eru ekki allir vellirnir valtaðir sem skyldi og í fyrrasumar lenti ég í vandræðum á flugvelli við Hreysiskvísl syðst á Sprengisandi, vegna þess að ekki hefur verið fé til að valta hann.
Agnar Koefoed Hansen var forgöngumaður á öllum sviðum flugsins. Ég átti þess kost að fylgjast með því erlendis hvernig hann heillaði þar alla með glæsilegri og áhrifamikilli framgöngu.
Það skilaði sér í að fá til Íslands flugumferðarstjórnina á Norður-Atlantshafi.
Þótt ekki séu til bein gögn um það hlaut flugvallarstæðið við Sauðá nafnið "flugvöllur" í munni Jökuldælinga eftir að Agnar hafði verið á ferð austanlands í brautryðjendaferð sinni á fyrstu landflugvélinni, sem notuð var til þess að finna flugvallarstæði, meðal annars á hálendinu.
Agnar skildi gildi flugsins, meðal annars gildi Reykjavíkurflugvallar, og orðaði það þegar í blaðaviðtali 1956 að bæta flugvöllinn á einfaldan hátt án þess að það stækkaði heildarlandssvæði hans með því að lengja austur-vestur-braut hans og gera að aðalbraut vallarins.
Flugið er "þráðurinn að ofan" sem eins og í ævintýrinu um köngulóna forðum, vill oft gleymast.
Skapar 20.600 störf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Flug með ferðamenn er auðlind setjum skatt á það eins og aðra sem nota aulindir.
Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 24.2.2012 kl. 08:48
Ómar minn, flugstarfssemi er ekki "eitthvað annað", hún ER.
Það sem er "eitthvað annað", er óskilgreind viðskiptatækifæri í ímyndaðri veröld þeirra sem vilja ekki virkja. Þeir segja að við þurfum þess ekki, vegna þess að "eitthvað annað" er svo miklu betra.
Gunnar Th. Gunnarsson, 24.2.2012 kl. 08:59
Ég hef alltaf skilið þetta "eitthvað annað" sem eiginlega ALLT annað.
En helv. er pyngjan aum hjá flugmó. Geta þeir ekki fækkað um nokkra skrif-finna til að rétta sig af ?
Jón Logi (IP-tala skráð) 24.2.2012 kl. 09:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.