"Við bíðum. Fiskarnir líka."

Ofangreind orð mælti Winston Churchill í októberbyrjun 1940 þegar daglega í þrjá mánuði hafði sú frétt verið efst í heimsfréttunum að Þjóðverjar væru í óða önn að búast til innrásar í Bretland á sjó yfir Ermasund og að með hverjum deginum ykjust líkurnar á því að látið yrði til skarar skríða.

Sjö mánuðir eru síðan stjórnlagaráð skilaði einróma af sér frumvarpi að nýrri stjórnarskrá í 115 greinum.

Síðan þá hafa verið á sveimi álit og umsagnir ýmissa aðila, sérfræðinga og annarra, sem hafa verið svo almenns eðlis að erfitt hefur verið að henda reiður á því hvað nákvæmlega væri átt við og hvernig skyldi breyta því sem breyta þyrfti.  

Stjórnlagaráð var skipað fólki úr öllu litrófi þjóðmálaskoðana, aðstöðu, aldurs, stétta og menntunar í þjóðfélaginu. 

Skoðanir á efni stjórnarskrárinnar voru því í öllum regnbogans litum. 13 fulltrúar höfðu áður starfað, verið á framboðslistum eða á Alþingi fyrir stjórnmálaflokka og skiptust í sömu hlutföllum á milli stjórnmálaflokka og hafa verið síðasta áratug.

Hinir tólf komu alls staðar að. Þess vegna er fráleitt að stimpla afurð stjórnlagaráðs sem eitthvert vinstra plagg og enn fráleitara að líkja því við einræðisstjórnarskrár Austur-Evrópuríkjanna eins og einn þingmaður gerði í gærkvöldi með þeirri dómsdagsspá, að ef hún yrði samþykkt, myndi hægristjórn Sjálfstæðisflokksins breyta henni eftir næstu kosningar og síðan stjórnir eftir það breyta henni til hægri og vinstri á nokkurra ára fresti.

Þetta lýsir ákveðnum hugsunarhætti flokkspólitískra átaka sem hefur orðið til þess að virðing Alþingis er í sögulegu lágmarki.

Með slíkum sleggjudómi er málið dregið niður í gamalkunnar flokkspólitískar skotgrafir þingsins og niður á það plan sem hefur komið í veg fyrir það í 67 ár að efnt hafi verið loforð Þjóðfundarins 1851, sem var stjórnlagaþing þess tíma, og síðar einni komið í veg fyrir það að efndar yrðu yfirlýsingar ráðamanna þjóðarinnar 1944 um það sama, að semja alíslenska nýja stjórnarskrá.  

Nú er hent á lofti að umsagnir allra sérfræðinga séu á þá lund að frumvarpið sé ótækt og þurfi uppstokkunar við. "Einróma álit" er sagt.  

Sumir þessara sérfræðinga unnu í og með stjórnlaganefnd að því að leggja fyrir stjórnlagaráð 700 blaðsíðna greinargerð með hugmyndum að texta í einstökum málum og voru iðulega settir fram valkostir.

Sumir valkostanna voru þannig til komnir að sérfræðingarnir voru ekki alveg sammála og lögðu því fram mismunandi útfærslur.

Það var útlátalaust fyrir sérfræðingana að gera þetta því að þeir þurftu ekki að bera ábyrgð á því að velja og setja fram eina lausn.

Ljóst er að eftir á hafa sérfræðingarnir eðlilega verið óánægðir með það að þeirra tillögur voru ekki teknar upp og það hefur vafalaust verið sitt á hvað og þar með komin upp sú staða að þeir séu meira og minna með hundshaus.

Allir stjórnlagaráðsmenn voru með sínar mismunandi hugmyndir eins og sérfræðingarnir og lögðu í byrjun fram sína ítrustu óskalista.

Ef farið væri ofan í þær skiptu skoðanir, sem ráðsliðar settu fram í umræðum og starfi og liggja fyrir af gögnum vinnunnar,  væri hægt að segja eftir á að allir ráðsmenn hafi verið ónánægðir og "einróma" um það að frumvarpið væri ótækt.

En með slíkum vinnubrögðum hefði verið gulltryggt að enginn árangur hefði náðst.

Árangur næst aðeins með því að tefla fram mismunandi skoðunum og sjónarmiðum og vinna að málamiðlun sem næst með því að ræða málin til einnar niðurstöðu, ekki margra.

Því að um stjórnarskrána gildir: Ein þjóð - ein stjórnarskrá. Ekki tvær eða fleiri.

Það er hægt að hafa mismunandi skoðanir á frumvarpi ráðsins eins og gildir um önnur mannanna verk.

En eftir sjö mánaða bið erum við enn ekki farin að sjá hvað verður borið á borð 8. mars.

Kvartað er yfir því að ákvæðið um þjóðareign sé óljóst. Það er einfaldlega rangt og skilgreiningin kemur fram bæði í texta frumvarpsins og eins í greinargerð, umræðum og öðrum gögnum.

Lög um þjóðareign á Þingvöllum eru fyrirmyndin og hafa verið í gildi í 81 ár. Þingvellir eru skilgreindir sem ævarandi þjóðareign sem aldrei megi selja né veðsetja, gagnstætt því sem gildir um byggingar og mannvirki í ríkiseign.  Stjórnarskrárnefnd Gunnars Thoroddsen 1983 bryddaði upp á hinu sama.

Framsóknarmenn reyndu 2007 að koma slíku ákvæði inn í stjórnarskrá en mistókst.

Kvartað er yfir því að sum atriði, sem eru nýmæli, þurfi að álagsprófa. Mörg af þeim eru sóttar í fyrirmyndir í erlendum stjórnarskrám, svo sem kaflinn um stjórnarmyndanir, en hliðstæð ákvæði um þær hafa verið álagsprófuð hjá nokkrum þjóðum í árarugi.

Kvartað er yfir því að sérfræðinga þurfi til að álagsprófa ýmsa kafla og sagt að kosningakaflinn sé hæpinn og of niðurnjörvaður og víðtækur.

Hvað kosningakaflann varðar hafði stjórnlagaráð fengin ákveðin tilmæli Þjóðfundar um að lögleiða jafnt vægi atkvæða og persónukjör.

Þjóðfundur var 1000 mann slembiúrtak úr þjóðskrá og vart hægt að ímynda sér betri þverskurð af þjóðinni.

Í C-nefnd, sem fjallaði um kosningakaflann, sátu meðal annarra áhugamanna um kosningalög tveir reyndustu sérfræðingar þjóðarinnar sem álagsprófuðu kerfið sem upp kom og hefur fengið heitið "kjördæmavarið landskjör."

Grunnur þess er fenginn frá Hollandi og hefur ekki fallið þar á álagsprófi svo að vitað sé.

Reynt var að gefa Alþingi sem fríast spil um útfærslu með því að heimila allt frá einu kjördæmi upp í átta og heimila að kjósendum verði ekki leyft að skipta atkvæðum sínum á milli framboðslista.

Stjórnlagaráð kom af fjöllum þegar forsetinn las það út úr frumvarpinu við setningu Alþingis að hann fengi stóraukin völd.

Í frumvarpinu er forsetinn sviptur því mikla valdi sem hann hefur haft við stjórnarmyndanir og byggðist á fordæmi frá 1942 þegar ríkisstjóri skipaði utanþingsstjórn og forsetar eftir það nýttu sér þetta vald til að þrýsta á um stjórnarmyndanir með beinum eða óbeinum hótunum um að taka ráðin af þinginu.

Það gerðist 1947, 1950, 1978 og einkum 1979-80 þegar Kristján Eldjárn hafði falið Jóhannesi Nordal að hafa utanþingsstjórn til taks, ef þingið brygðist.

Ásgeir Ásgeirsson forseti beitti sér fyrir myndun minnihlutastjórnar Alþýðuflokksins 1959.

Ákvæði í nýju stjórnarskránni um þjóðarfrumkvæði um löggjöf og að vísa málum í þjóðaratkvæði draga mjög mikið úr nauðsyn þess að forsetinn noti málskotsréttinn og lausleg aðkoma hans að ráðningu hæstaréttardómara og yfirmanna nokkurra mikilvægra stofnana er aðeins öryggisventill og þáttur í valdtemprun og valddreifingu sem er eitt af meginstefjum nýju stjórnarskrárinnar.

Þar getur hann auk þess ekki gengið gegn auknum meirihluta Alþingis ef svo ber undir.

Fleiri mál mætti nefna þar sem vantar ýmist haldbær rök eða nánari útlistanir á því sem menn vilja breyta.

Stjórnlagaáð telur það að sjálfsögðu ekkert eftir sér að líta á þær tillögur sem kunna að líta dagsins ljós 8. mars og lítur á rökstuddar og vel framsettar ábendinga og athugasemdir með jákvæðum huga.

En þangað til að þær birtast gildir það sama og hjá Churchill 1940: "Við bíðum. Það gera fiskarnir líka."


mbl.is Þingið brást stjórnlagaráði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Óli Helgason

Ég veit að þér finnst ég ábyggilega orðinn hundleiðinlegur með þetta... En ég verð, og þú ert langlíklegast sá eini af öllum fulltrúum stjórnlagaráðsins sem gætir staðið af þér ágjöfina og staðið keikur á eftir... Því þú ert jú "bara" Ómar Ragnarsson...

-

En værir þú sem fulltrúi stjórnlagaráðs, og þjóðarinnar, ekki til í að bjóða þig fram til forseta...? Og næðir þú kjöri þá verða síðasti forseti lýðveldisins sem beitir Alþingi þessum hótunum og valdboði sem þú ert einmitt að minnast á að aðrir hafi gert...?

Krefja svo stjórnvaldssinnanna á Alþingi til að leggja þessa tillögu ykkar í stjórnlagaráði, að nýrri stjórnarskrá, í óbreyttri mynd fyrir þjóðina...?

Því það er að sanna sig... Framkvæmdar- og löggjafarvaldinu er ekki treystandi til að gera slíkt... Þau eru í hlutverkaleiknum... "Við...! Og svo þjóðin..." Sem er ömurlegt vegna þess fasisma sem sá hlutverkaleikur býður uppá og það má EKKI GERAST...!

Hvað þú vilt svo gera eftir það... Er svo þitt mál, Ómar minn... En þú mátt vera forseti endalaust fyrir mér...

-

Það verður einhver að taka slaginn fyrir hina nýju stjórnarskrá, fyrir þjóðina og framtíð lýðveldisins... Annars verður hún skrumskæld og eyðilögð af "sérfræðingum" stjórnvaldssinna... Og hvað verður um lýðveldið þá...?

-

P.s...

Svo vil ég endilega að sem flestir sem þetta lesa, láti í sér heyra og skorið á Ómar Ragnarsson til að bjóða sig fram til forseta lýðveldisins...

Takk...!

Kv. Sævar Óli Helgason

Sævar Óli Helgason, 23.2.2012 kl. 03:46

2 identicon

Spurning til Ómars.Hvað um fullveldisafsal? Er stjórnmálamönnum t.d gert auðveldara að selja fullveldi þjóðarinnar til Evrópusambandsins í tillögum að nýrri stjórnarskrá? Eins og ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna er að gera núna með öllum ráðum. Stjórnmálamönnum er alls ekki treystandi fyrir því valdi, því þeim er hægt að múta og líklega hefur það verið gert!kv Örn

Örn Ægir (IP-tala skráð) 23.2.2012 kl. 05:23

3 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Ómar það fer eftir því hvar fiskarnir eru í sjónum eða á þurru landi! Ef þeir eru ekki þar sem þeir eiga að vera fara þeir að tína töluni og lykta ílla á endanum!

Sigurður Haraldsson, 23.2.2012 kl. 08:18

4 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Það fyrsta sem þú þarft að athuga Ómar Ragnarsson, er að þetta svo nefnda stjórnlagaráð var ekki kosið af þjóðinni.  Þetta Stjórnlaga ráð er ekki að vinna fyrir þjóðina.  Þetta stjórnlagaráð er ekki að vinna í umboði þjóðarinnar.  Þetta stjórnlaga ráð er að vinna fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur og hennar hjörð og að baki hennar stendur eingin þjóð. 

En Jóhönnu liggur mikið á með sín gæluverk og hana hefur aldrei langað að vita hvað þjóðin vill.  Það hefur þig heldur aldrei langað að vita, frekar en hin hænsnin í þessu dæmalausa nauðungar og þvaðurmaskínu Jóhönnu Sigurðardóttur, sem nefnt er stjórnlagaráð. 

Þar kemur að þið sem ekki eruð siðblind í þessu svonefnda stjórnlagaráði hljótið að skammist ykkar á svipaðan hátt og einfeldningarnir sem ánetjuðust Kommunistum  Stalíns og Nasistum Hitlers á sínum tíma.

 

  

 

Hrólfur Þ Hraundal, 23.2.2012 kl. 09:30

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hæstiréttur véfengdi ekki úrslit Stjórnlagaþingkosninganna heldur aðeins atriði við framkvæmdina sem hvergi í öðru landi hefðu verið talin ámælisverð.

Sífellt er sífrað um um umboðsleysi. Hvað mig snertir settu um 24 þúsund kjósendur nafn mitt á sína kjörseðla til merkis um það að þeir teldu að ég ætti að setjast á þetta þing.

Þessa tölu véfengdi Hæstiréttur ekki og hafnaði því að atkvæðin yrðu talin aftur.

Ómar Ragnarsson, 23.2.2012 kl. 10:32

6 identicon

Miklir menn erum vér Ómar minn: "Stjórnlagaráð telur það að sjálfsögðu ekkert eftir sér að líta á þær tillögur sem kunna að líta dagsins ljós 8. mars og lítur á rökstuddar og vel framsettar ábendinga og athugasemdir með jákvæðum huga."(!)

Félagi þinn, Pawel Bartoszek, virðist ekki deila sömu skoðun og þú...

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 23.2.2012 kl. 12:02

7 Smámynd: Sævar Óli Helgason

Og andstæðingar lýðræðisins gelta... Úff...!

Sævar Óli Helgason, 23.2.2012 kl. 12:10

8 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Já Ómar þú hefur umboð 24 þúsund vinstrisinnaðra Evrópuafglapa, en það er ekki þjóðin.  Við andstæðingar inngöngu í Evrópusambandið erum ekkert að skæla, við erum aðeins að krefjast réttar okkar til að fá að segja okkar álit í kosningum.   Við ætlumst til að það sé farið að lögum og reglum þessa lands og þar með þeirri stjórnarskrá sem enn er í gildi. 

Það á ekki að hræra stjórnarskránni á óróa tímum.  Það á ekki að breyta stjórnarskrá í tíma hraki á stríðstímum.  Hér ríkir í raun borgara styrjöld en það hefur en ekki verið ráðist á uppreisnarmennina sem hafa búið um sig í stjórnarráðinu og róa að því öllum árum að losa okkur við ráðin yfir Íslandi og gæðum þess. 

Ég var ekkert að tala um Hæstarétt Ómar Ragnarsson ég var að segja að þetta stjórnlagaráð væri ekki að vinna í umboði þjóðarinnar, heldur fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur og þig, en ekki mig.  Það ert þú sem ferð að væla og reynir að bera fyrir þig Hæstarétt þegar þú getur ekki svarað einföldum staðreyndum.

 

    

Hrólfur Þ Hraundal, 23.2.2012 kl. 17:51

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Stjórnarskránni íslensku var síðast breytt "í tímahraki á stríðstímum." Bandaríska stjórnarskráin var samin í kjölfar frelsisstríð Bandaríkjamanna.

Stjórnarskrá Dana 1849, sem er enn hluti af grunni þeirrar íslensku, var samin í kjölfar mikilla órótatíma í Evrópu. Nú er verið að semja nýjar stjórnarskrár í þeim löndum í kjölfar stríðstíma arabíska vorsins.

Tugir stjórnarskráa voru gerðar í kjölfar Heimsstyrjaldinnar fyrri og íslensku Sambandslögin samþykkt við lok stríðsins, sem hafði heilmikil áhrif á þann gerning.

Tugir stjórnarskráa voru líka samdar í lok Seinni heimsstyrjaldarinnar og í lok hruns kommúnismans í Austur-Evrópu og í Suður-Afríku eftir hrun aðskilnaðarstefnunnar þar.  

Ég vil svo andmæla staðhæfingu þinni og alhæfingu um "24 þúsund vinstrisinnaðra Evrópuafglapa" og þú ættir að biðja þetta fólk afsökunar á henni.  

Ómar Ragnarsson, 23.2.2012 kl. 19:27

10 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Það er gott að þú hefur náð vopnum þínum Ómar og ert hættur að sífra.  En þú veist eins vel og ég hvernig þetta svonefnda stjórnlagaráð varð til. 

Þjóðin hafði skömm á aðdraganda og framkvæmd kosninga til Stjórnlagaþings og hunsaði þær. 

Það sætti Jóhanna sig ekki við og notaði það fólk sem andstæðingar meirihluta þjóðarinnar höfðu valið sér til að hunsa augljósan vilja meirihlutans.  Ég hef því enga ástæðu til að biðja andstæðinga Landans afsökunar á einu eða neinu.

  En hafið endilega nægju á launum frá Landanum í stjórnlagabrallinu ykkar.

Hrólfur Þ Hraundal, 23.2.2012 kl. 22:33

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þú veist eitthvað meira en ég um "laun frá Landanum" varðandi það starf sem við Stjórnlagaráðsfólkið höfum verið að vinna undanfarna mánuði með greinaskrifum, fyrirlestrum, fundum okkar sjálfra og einn fund með stjórnlaga- og eftirlitsnefnd Alþingis.

Ekki hefur króna runnið til mín svo ég viti, en auðvitað veist þú þetta miklu betur en ég.

Ómar Ragnarsson, 23.2.2012 kl. 23:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband