6.3.2012 | 16:06
Hrunið íslenska 2008 - hrapið í Alaska 1994.
Fróðlegt væri að rannsaka hverjar hefðu orðið afleiðingar bankahruns sumarið 2006 og bera það saman við bankahrunið 2008. Ljóst er að Icesave-skrímslið hefði ekki skekið okkur og að erlendir aðilar hefði varla tapað 7000 milljörðum.
Á hinn bóginn hefðu peningarnir ekki verið komnir í Hörpu, Hálfvitann (Höfðatorg) og öll hin byggingarkranaverkefnin að ekki sé minnst á ofurbílana og allt annað bruðl, sem hér viðgekkst með vaxandi hraða síðustu tvö árin fyrir Hrun.
Kannski yrði niðurstaðan sú að bankahrun hefði orðið skárra 2006 en 2008.
Stundum er það líka verra að menn sleppi með skrekkinn ef þeir breyta hegðun sinni ekkert í neinum grundvallaratriðum.
Að þessu leyti minnir Hrunið á flugslys á Fairchild flugvelli í Alaska 24. júní 1994 þegar Boeing B-52 hrapaði til jarðar á flugsýningu og allir um borð fórust.
Rannsókn leiddi í ljós að flugstjórinn flaug þotunni umfram getumörk hennar, tók of krappa beygju á of miklum hraða þannig að hún missti flugið.
En það var ekki það alvarlegasta. Hann hafði gert það í nokkur skipti áður á flugsýningum og fengið aðvörun fyrir án þess að neitt væri frekar gert í málinu.
Á endanum var hann orðinn haldinn sama einkenni og íslenskir útrásarvíkingar, að vera ofurmenni, með nýja, ferska hugsun (Kaupthinking) sem yfirspilaði þau lögmál sem áður hefðu verið talin gilda í fjármálaheiminum.
Á þessum tíma mærðu íslenskir ráðamenn útrásarvíkinga með því að benda á að að þessu leyti væru þeir eðlilegt afsprengi íslenska yfirburðakynstofnsins sem hefði staðið fyrir landafundunum fyrir þúsund árum og sköpun einstæðra bókmenntaverka.
Síðan kom í ljós, rétt eins og Alaska 1994 að fífldirfskan þar sem menn brutu lögmálin og komust upp með það gat ekki endað nema á einn veg, með hrapi, - hruni.
Halldór ræddi um bankahrun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Einkavæðing bankanna 2002 var einkavæðing sem fór fram árið 2002 með sölu á ríkisreknum bönkum, Landsbankanum og Búnaðarbankanum, í hendur einkaaðila.
Einkavæðingin var alla tíð nokkuð umdeild og varð enn umdeildari eftir bankahrunið 2008.
Bent hefur verið á að ef öðruvísi hefði verið farið að hefði þenslan í hagkerfinu ekki orðið jafn mikil á jafn skömmum tíma.
Einnig hefur verið gagnrýnt að ekki var fylgt upprunalegri settri stefnu um að bankarnir skyldu verða í dreifðri eignaraðild.
Steingrímur Ari Arason sagði sig úr einkavæðinganefnd Landsbankans í september 2002 og viðhafði þau orð að hann hefði aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum."
Geir H. Haarde, þáverandi fjármálaráðherra, 12.9.2002:
"Við erum ekki sammála Steingrími [Ara Arasyni] þegar hann segir önnur tilboð vera hagstæðari á alla hefðbundna mælikvarða.
Þessu erum við einfaldlega ósammála og það er um þennan ágreining sem málið snýst.
Við byggjum afstöðu okkar á mati HSBC-bankans og einkavæðingarnefnd sendir málið áfram til ráðherranefndar sem tekur þessa ákvörðun eins og henni ber.
Hún er hinn pólitískt ábyrgi aðili í málinu."
Þorsteinn Briem, 6.3.2012 kl. 16:35
Davíð Oddsson hrósar bönkunum fyrir lærdóminn af míníkrísuni 2006 ?! Er hann búinn að ná sáttum og fyrirgefa banakstjórunum?
Jonsi (IP-tala skráð) 6.3.2012 kl. 20:32
Geir og allir í stjórn sem hafa borið vitni nema Davíð Oddsson hafa núna haldið því famm að ekkert var hægt að gera eftir árið 2007.
Eina lógíska úrræðið fyrir þessa stjórnmálamenn hafi verið að halda ótrauðir áfram með fyrirkomulag FME, leyfa bönkunum að redda þessu, eða gera þetta fall bara svona hevíti almennilegt eins og kom á daginn.
J.
Jonsi (IP-tala skráð) 6.3.2012 kl. 20:36
Reyndar einn heldur því famm að ekker var hægt að gera eftir árið 2005. Einmitt, ekkert hægt að gera... bara ekkert.
Jonsi (IP-tala skráð) 6.3.2012 kl. 20:37
Það sérkennilegasta við þetta allt saman að sá banki sem féll fyrstur haustið 2008 var EKKI einkavæddur árið 2002.
Þessi banki (Glitnir) var aftur á móti einkavæddur árið 1990 af þeirri ríkisstjórn sem sat þá að völdum en í henni sátu meðal annars..................................ta-da-da-da:
Steingrímur og Jóhanna !
Og það vor þau sömu sem komu á núverandi kvótakerfi sem margir virðast hata svo mikið. Munið þetta!
Og hverjir áttu Glitni voru gulldrengirnar og sérstakir skjólstæðingar Samfylkingarinnar þeir Jón Ásgeir og félagar sem dygglega höfðu tæmt bankann innanfrá með því og lána sjálfum sér óheyrilega summur sem þeir fluttu svo úr landi.
Því fór sem fór og bankinn féll með glans haustið 2008 og dróg hina bankana með sér í fallinu sem og allt Íslenska fjármálakerfið.
Munið þetta, fólk, og látið ekki Sannfylkinguna segja ykkur eitthvað annað.Helgi Haukur (IP-tala skráð) 6.3.2012 kl. 22:21
"Samkvæmt OECD er beinn kostnaður íslenska ríkisins vegna bankahrunsins 2008 sá mesti sem nokkurt ríki tók á sig í bankahruninu, að írska ríkinu undanskildu.
Stofnunin segir að þyngsta höggið hafi átt sér stað nokkuð fyrir hrun þegar Seðlabanki Íslands lánaði gömlu bönkunum gegn veði af vafasömum gæðum, ástarbréfin svokölluðu, sem aðallega voru kröfur á aðra íslenska banka."
Ástarbréf Seðlabanka Íslands voru þyngsta höggið í hruninu
Þorsteinn Briem, 6.3.2012 kl. 22:30
"Jöklabréf eða krónubréf (e. Glacier bonds) eru skuldabréf sem gefin voru út í íslenskum krónum af erlendum aðilum frá ágúst 2005.
Áætlað er að erlendir fjárfestar eigi krónubréf að andvirði 300-400 milljarðar króna, sem er um fjórðungur af landsframleiðslu Íslands.
Forsendur viðskipta sem þessara er mikill munur á vöxtum í hagkerfum viðkomandi landa, hátt sögulegt gengi þess gjaldmiðils sem bréfin eru gefin út í og mikil eftirspurn í því landi eftir lánsfé.
Stýrivextir Seðlabanka Íslands voru komnir í 13,3% í júní 2007, 15,5% í maí 2008 og 18% í október 2008."
Jöklabréf
Þorsteinn Briem, 6.3.2012 kl. 22:36
Katrín Ólafsdóttir lektor í hagfræði - Viðskiptablaðið 26. apríl 2007:
"Á árunum 2004 og 2005 var hagvöxtur hér á landi yfir 7% tvö ár í röð. Samkvæmt mati Seðlabankans var slaki í þjóðarbúskapnum á árinu 2003 og framleiðsla því undir framleiðslugetu.
Uppbygging á þessum árum var mikil og aukning fólksfjölda hröð. Því er ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir að hagkerfið myndi þola hagvöxt umfram 3%, allavega um tíma.
Þróunin var hins vegar sú að strax á árinu 2004 var slakinn horfinn og gott betur. Því leiddi megnið af 7% hagvextinum á árinu 2005 til aukningar á þenslu.
Þarna var því um að ræða hagvöxt umfram framleiðslugetu, sem er því ekki vöxtur til frambúðar.
Afleiðingin af þessu hagvaxtartímabili blasir við í dag þar sem viðskiptahalli hefur aldrei í sögu þjóðarinnar verið hærri og mælist fjórðungur af landsframleiðslu og verðbólga nálgast 8%, að undanskilinni skattalækkun.
Atvinnuleysi mælist varla. Þvert á móti hefur innflutningur vinnuafls aldrei verið meiri. Með öðrum orðum, ójafnvægið í þjóðarbúskapnum er gífurlegt. Öllum ætti að vera ljóst að þetta ástand stenst ekki til frambúðar."
Þorsteinn Briem, 6.3.2012 kl. 22:40
Neikvæður útflutningsjöfnuður á sama tíma og krónan er ofurhá þýðir ekkert annað en að um tímabundið ástand er að ræða. Getur aldrei gengið.
Jón Logi (IP-tala skráð) 7.3.2012 kl. 07:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.