16.3.2012 | 12:58
Ég var yfirleitt á meira en 25 kílómetra hraða.
Þegar ég var á aldrinum 13-17 ára var meðalhraði minn á reiðhjólinu mínu í umferðinni vel yfir 25 km/klst.
Ef það hallaði undan var hraðinn iðulega nálægt 50 km/klst. Ég var á fullri ferð í hvaða veðri sem var.
Ég reikna með að á þessum árum hefði áreiðanlega mátt heyra "kvartanir frá gangandi vegfarendum og upplýsingar um gáleysislegan akstur" á reiðhjólum hjá mér og öðrum.
Fyrsta reiðhjólsferð mín var ekki gæfuleg. Ég fékk lánað hjól vinar míns Árna heitins Hannessonar í Skaftahlíð og hóf fyrstu ferðina niður götuna. Kom þá ekki kona gangandi út á götuna og í fátinu hjólaði ég beint í klofið á henni og féll í götuna.
Strákarnir, sem horfðu á, gerðu miskunnarlaust grín að mér en mér var ekki skemmt.
Enga kvörtun sendi þessa kona frá sér til yfirvalda eða upplýsingar um gáleysilegan akstur reiðhjólsins og engum hefði þá dottið í hug að koma á flóknu kerfi boða og banna vegna þessa atviks og áreiðanlega margra annarra.
Þá renndi maður sér líka á skíðasleða og oft með farþega og þrátt fyrir óhöpp á þeim og reiðhjólunum var hvorki krafist prófs á hjólin né skráningar þeirra, og þaðan af síður klæjaði tryggingarfélög í lófana eftir því að lögskylda tryggingar hjólanna og sleðanna.
Nú má heyra kröfur um víðtækt skrifræði og takmarkanir sem eðlileg viðbrögð við fjölgun reiðhjólaslysa og slysa á svonefndum "rafmagnsvespum" sem er rangnefni, því að engin önnur þjóð en Íslendingar notar vörumerki sem heiti á samgöngutæki.
Ef svo væri um bíla, væru allir bílar á Íslandi kallaðir Fordar af því að fyrstu ár bílaaldarinnar voru bílar ef þeirri gerð fleiri hér á landi en allar aðrar bíltegundir til samans.
Þessi hjól eru kölluð "scooters" á ensku og "rollers" á þýsku.
Fjölgun óhappa og slysa á reiðhjólum og rafskutlum á sér eðilegustu orsakir í heimi: Notkun þessara farartækja fer hraðvaxandi hér á landi eftir að hafa verið í lágmarki.
Langstærsta slysabylgjan í umferðinni á hverju ári eru slys á gangandi fólki á hálkudögum.
Þarf þá ekki að gera þetta fólk skráningarskylt, skylt að taka próf og sérstaka byltutryggingu og þá væntanlega vegna kvartana og upplýsinga um gáleysislega göngu þess?
Ég tel að fara eigi varlega í að reyra notkun jafn umhverfisvænna og léttra farartækja og reiðhjól og rafskutlur eru í viðjar mikils og þunglamalegs skrifræðis, boða og banna.
Þegar hestum stórfjölgaði í þéttbýli fjölgaði slysum í samræmi við það og heyra mátti "kvartanir frá gangandi vegfarendum og upplýsingar um gáleysislega reiðmennsku."
Ekki veit ég að hestar hefðu verið gerðir "skráningarskyldir og að sækja þyrfti sérstök námskeið til að öðlast réttindi til að ríða þeim."
Raunar eru hestar ekki notaðir almennt inni í borgarumferðinni eins og reiðhjól og rafskutlur en þó var um að ræða fjölgun slysa, sem ekki var tekið á með skrifræði og lögþvingunum, heldur lagðir hestastígar, stuðlað að notkun hjálma o. s. frv.
Ákvæði um vespur ekki innleidd 2004 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Kæri Ómar
Verðum við ekki að taka tillit til þess að það vinnur fjöldi manna og kvenna hjá umferðarstofu og flestir með háskólamenntun og hafa þann starfa að hafa vit fyrir okkur . Ef að þessum sjálfskipuðu sérfræðingum dytti ekki svona hlutir í hug þá hefði þetta fólk jú lítið að gera . Svo má ekki gleyma því hvað þetta er þjóðhagslega hagkvæmt það skapast jú mikilvægar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið með svona hugmyndum og annarri starfsemi umferðarstofu ....er það ekki ?
En fyrir utan ofanritað þá er ég algerlega sammála þér hvað varðar þessi skrif þín .
Valgarð (IP-tala skráð) 16.3.2012 kl. 13:20
Sæll Ómar.
Ég reyndi að skrifa blogg um þetta, en get ekki birt það af einhverjum ástæðum. Ég vildi benda á að þetta er ekkert annað en dulbúin tekjustofn fegraður í einhvern búning um það að uppfylla reglugerð frá 2004. Þegar þetta verður skráningrskylt og tryggingar skylt, þá eru í þeim gjöldum heimsins lægsti virðisauki og smátt og smátt er búið að eyðileggja þenna vistvæna ódýra og jafnframt skemmtilega ferða máta. Hámarksruglinu er svo náð í tali um hvar setja skuli mörkin á bifhjóli. 25 km hraði og eftir það telst allt bifhjól. Reiðhjólamenn verða að taka próf á reiðhjól og vera skráningarskyldir og allur pakkinn sem því fylgir. Allt tal hjá þessu embættismannaliði sem á að hljóma eitthvað gáfulega, sýnir best hversu illa skyni skroppin þau eru. Þetta er bara gert til þess að eyðileggja fyrir almenning að geta ferðast ódýrt um og það vistvænt. Toppurinn á allri þessari forheimsku verður náð þegar hlaupa og þríhjól verða einnig orðin prófskyld.
Kveðja.
Sigurður Kristján Hjaltested (IP-tala skráð) 16.3.2012 kl. 13:30
Það er hvorki hægt að kaupa né taka próf í heilbrigðri skynsemi......
Jón Logi (IP-tala skráð) 16.3.2012 kl. 15:11
Það er alþekkt á voru landi að nota vörumerki sem samnöfn. Þarf í því sambandi ekki annað að nefna en jeppa, hansagardínur og prímusa. Að maður tali nú ekki um peylódera. Þetta er heldur ekki óþekkt í útlöndum; kanverjar húvera gjarnan hjá sér gólfin.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 16.3.2012 kl. 17:58
Ég bendi á að orðið rafskutla er miklu styttra orð en rafmagnsvespa.
Í Sjónvarpinu var myndbandtækjaherbergið kallað ampex og starfsmenn þar ampexmenn.
Þetta er löngu liðin tíð og virkar broslegt í dag.
Síldarsjómenn töluðu einnig um Asdikið fyrir hálfri öld þegar rætt var um dýptarmæla.
Jeep mun upprunnið úr skammstöfuninni General Purpose Vehicle, skammstafað G. P.
Íslendingar voru ekki almennt vel að sér í framburði á enskum orðum og jeep varð að jepp í munni okkar, sem var næsti bær við hinn danska Jeppa á Fjalli.
Dodge Weapon varð að Vípon og Plymouth að Plæmúnt. Chevrolet, sem er borið fram sévrolei á ensku og frönsku varð að Sérvólett í munni Íslendinga og fékk gælunefnið "Lettinn" samanber þekktan texta Stuðmanna.
Ekkert af þessu finnst mér þó á öld almennrar menntunar og þekkingar réttlæta það að kalla scooter eða roller vespu, þegar orðið skutla á betur við um öll farartæki af þessu tagi.
Ómar Ragnarsson, 16.3.2012 kl. 20:38
Takk fyrir þetta innlegg Ómar. Ég bý í Eyjum og dóttir mín sem verður 15 ára seint á þessu ári eyddi sumarhýrunni sinni í fyrra í svona farartæki. SNILLD. Hér, þar sem vegalengdir eru tiltölulega stuttar hentar þetta frábærlega fyrir unglingana. Allt "skutl" á bílnum er úr sögunni, hún "rafskutlast" á æfingar og í skólann. Ef þessar breytingar ná fram að ganga og allir verða skyldaðir í bifhjólapróf, hver heldur þú þá að nenni að vera á rafskutlu sem kemst á 25 km hraða....þau fara líklega beint í kraftmeiri, minna umhverfisvæn og hættulegri hjól. Vona að menn eins og þú náir eyrum þeirra sem ætla að hindra þessa fallegu grænu byltingu.
Geir Reynis (IP-tala skráð) 17.3.2012 kl. 09:04
Skil að setja hámarkshraða þegar hjólað er á göngustígum en það er fáránlegt að setja hámarskstærð við 0,25kW á rafmótorum. Það er eins og að segja að enginn bíll eigi að vera með stærri vél en 75 hestöfl.
Mitt hjól er 0,5kW og kemst hraðar en 25 km/klst. Ég má þá væntanlega hjóla á því á götunni en ekki á stígunum. Hvort er öruggara að ég hjóli á Kringlumýrarbrautinni eða Miklubrautinni eða á stígunum við hliðiná?
Held að menn hafi ekki hugsað þetta til enda.
Sigurður Haukur Gíslason, 17.3.2012 kl. 15:57
Enda ökufantur
Hörður Einarsson, 18.3.2012 kl. 09:37
Þetta snýst auðvitað um peninga, ekki heilbrigða skynsemi eða öryggi. Eins og svo margt annað.
Ég man eftir að fólk hafi verið að gera grín að norðmönnum þegar ég var krakki, en við erum orðin eins. Þá var sagt:
Það sem er ekki bannað er leyft á Íslandi á meðan það sem er ekki leyft í Noregi er bannað.
Villi Asgeirsson, 19.3.2012 kl. 07:59
„Ekkert af þessu finnst mér þó á öld almennrar menntunar og þekkingar réttlæta það að kalla scooter eða roller vespu, þegar orðið skutla á betur við um öll farartæki af þessu tagi.“
Verðurðu þá ekki að hætta að tala um minnsta fjallajeppa landsins úr því hann er súkka en ekki jepp?
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 19.3.2012 kl. 13:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.