Tilboð.

Fyrir tólf dögum var hnuplað frá mér tveimur kvikmyndatökuvélum og einu magabelti með veski, sem ég hafði lagt frá mér við inngang í blokkina, sem ég bý í.

Einhver eða einhverjir, sem hafa átt leið framhjá þessum hlutum, hafa ekki staðist freistinguna.

Fyrir tveimur dögum fann síðan nágranni minn magabeltið með veskinu, þar sem það lá úti, skammt frá blokkinni, og hafa hnuplararnir líklegast skilið það eftir þegar þeir voru búnir að taka reiðuféð úr því.

Það kom sér vel að fá þetta til baka, því þar í voru öll skilríki mín, nokkrir lyklar og persónulegir munir.

Eftir stendur að kvikmyndatökuvélarnar hafa ekki skilað sér.

Eins og oft er í svona tilfellum, eru þær miklu dýrmætari fyrir mig en þá sem nú hafa þær undir höndum. Er raunar óvíst að auðvelt verði fyrir þá sem nú hafa þær undir höndum, að koma þeim í verð.

Sú stærri hefur verið aðal tökuvél mín síðustu fimm ár, ein af fyrstu HDV vélunum af Sony gerð og er af meðalstærð, ekki nógu stór til að hægt sé að hafa hana á öxl en samt með fyllstu "professional" HDV gæðum.

Ástæða þess að hún er ekki mikils virði á markaði er sú að hún hafði lent í ýmsu volki á erfiðum ferðum um hálendið og meðal annars brotnað á henni linsan.

Ég brá á það ráð að festa linsuna saman með flóknu kerfi af límböndum þannig að vélin dygði mér, því að mjög dýrt hefði verið að setja á hana nýja linsu.

Af þessum sökum er þessi Sony-vél auðþekkjanleg og sá sem hefur hana nú undir höndum þarf að fjárfesta í dýrri viðgerð ef hann ætlar að fá eitthvert almennilegt verð fyrir hana.

Raunar efast ég um að nokkur annar en ég myndi geta hugsað sér að nota vélina í núverandi ástandi.

Annað er þó verra varðandi þessar kvikmyndatökuvélar:  Í þeim eru áteknar spólur með myndefni, sem hafði tekið mig áratugi að bíða eftir að geta náð og er því mjög mikils virði út af fyrir sig.

Myndefnið er hins vegar fyrir bragðið óseljanlegt, því að það eitt að sýna það kemur upp um upprunann. Auðvitað er hægt að þurrka myndefnið út, en með því fer í súginn einstakt efni sem kostaði mikla peninga í ferðakostnað að ná.

Vegna þess að allmargir lesa þessa bloggsíðu og tengda facebook-síðu vil ég gera þeim, sem hefur myndavélarnar undir höndum eftirfarandi tilboð: 

Vinsamlegast skilaðu vélunum til mín, til dæmis með því að leggja þær á sama stað og þær voru við inngang blokkarinnar, sem ég bý í, og helst að hringja einhverri dyrabjöllu eða hafa samband við mig til að láta vita.

Til vara bið ég þig að taka spólurnar úr myndavélunum og setja þær í póstkassann hjá mér.

Á móti heiti ég þér þagmælsku og því að engin eftirmáli verði í þessu máli.

Okkur getur öllum orðið á og vil sýna þér sömu viðbrögð og biskupinn í Vesalingunum eftir Hugo sýndi manni, sem hnuplaði frá honum kertastjökum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Var það ekki Þráinn Bertelsson sem lenti í einhverju slíku? Var ekki stolið tölvunni hans, fullri af handritum og hugarsmíðum allslags?

Græjan fékkst aftur, en gegn gjaldi þó, - í gegn um einhvern undirheimalýð.

Jón Logi (IP-tala skráð) 16.3.2012 kl. 15:09

2 identicon

Væri gott að fá tegund og týpunúmer af þessum vélum. Þá er líklegara að þær finnist. Vona að þetta skili sér.

Fjölnir Baldursson (IP-tala skráð) 17.3.2012 kl. 19:03

3 Smámynd: Sigríður B Svavarsdóttir

það á ekki af þér að ganga Ómar minn.. Vonandi finnast verðmætin því þetta eru bara þín verðmæti. Ég vona að þjófarnir skilji það og skili þessu til þín sem fyrst. 

Sigríður B Svavarsdóttir, 17.3.2012 kl. 21:44

4 identicon

Hringja bara í bubba, hann reddar eþssu.

Johann (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 17:20

5 identicon

Ég get vel trúað því að þarna séu á ferðinni ómetanleg myndbrot. Gangi þér vel Ómar og takk fyrir allt sem þú hefur gefið þjóðinni í gegnum árin.

Davíð Örn Arnarsson (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 20:16

6 identicon

Óskaplega hlýtur tad ad vera aumt lif ad vera tjofur, geta ekki sed ser farboda ødruvisi en ad gera ødrum illt.

Ingibjørg Helgadottir (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 20:45

7 identicon

Kallast það ekki ,,útrásarvíkingur" í dag?

Karvel (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 20:54

8 identicon

Við hjá Sagafilm fáum reglulega tilboð um ýmis kaup á búnaði. Við komum til með að hafa augun opin!.

Með kveðju

Bragi Reynisson

Deildarstjóri Luxor, tækjaleigu Sagafilm

Bragi Reynisson (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 22:04

9 identicon

Vonandi finnst þetta og óskemmt væri virkilega leiðinlegt og sorglegt að tapa þessu myndefni Vona að sá sem tók þetta sjá sóma sinn í að skila þér þessu sem fyrst !

Lísebet Unnur Jónsdóttir (IP-tala skráð) 19.3.2012 kl. 01:19

10 Smámynd: Villi Asgeirsson

Vona að tækin, og sérstaklega spólurnar, skili sér. Hvernig vélar voru þetta?

Villi Asgeirsson, 19.3.2012 kl. 07:49

11 identicon

ég legg til að það sé slegið saman í að ná vélunum aftur og er til að leggja 10.000 í púkk til að þetta fáist aftur ,þetta snýst um peninga hjá þeim sem hefur tekið vélarnar og myndefnið .gangi þér vel Ómar að ná þessu aftur

axel Oddsson (IP-tala skráð) 19.3.2012 kl. 11:24

12 identicon

Vona að þú fáir þetta sem fyrst Ómar. Þú hefur gefið Íslendsku þjóðinni svo mikið af lífi þínu í gegnum tíðina. Þú ert einstakur. Hafðu það sem best.

Halldór Haraldsson (IP-tala skráð) 20.3.2012 kl. 03:36

13 identicon

Meira theta talk

Mary luz (IP-tala skráð) 20.3.2012 kl. 16:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband