20.3.2012 | 11:29
Vandasamt matsatriði.
Val á ýmsum fyrirbærum hvers árs, íþróttafólki ársins, bíl ársins o. s. frv. er vandasamt og ekki sjálfgefið að best fari á því að íþróttafólkið sjálft, bílaframleiðendur ársins eða aðstandendur standi einir að því.
Að sjálfsögðu er hvert félagasamband eða heildarsamtök frjálst að því að standa fyrir slíku vali en stundum getur nálægðin truflað myndina.
Dæmi um það að mínum dómi var þegar ákveðinn rígur réði því að Pétur Ormslev knattspyrnumaður var ekki valinn leikmaður ársins einmitt það ár þegar hann átti kannski helst skilið að hreppa þann titil.
Í hnefaleikaheiminum hefur tímaritið Ring orðið að taka að sér að raða mönnum upp vegna þess að sérsamböndin reyndust ófær um að standa þannig að því að útkomunni væri treyst.
Samtök íþróttafréttaritara hafa staðið að vali á íþróttamanni ársins í meira en hálfa öld og þótt valið og þó einkum uppröðunin hafi oft verið umdeilanleg er ekki víst að betur takist til ef ÍSÍ sér um þetta val.
Stundum er það íþróttafólk utan ÍSÍ sem á skilið að komast á listann yfir topp 10 og hefur þetta verið áberandi síðustu árin.
Mér er til efs að ÍSÍ myndi hafa nokkurn skilning á því að stundum þurfi að sýna örlitla víðsýni.
ÍSÍ hefur það auðvitað í hendi sér hvort það vill setja á stofn eigið val á íþróttamanni ársins, en ég tel að betur færi á því að auka samvinnu og samráð í þessu efni heldur en að fara að herja að vali íþróttafréttamanna, sem er sama eðlis og tíðkast um allan heim varðandi vali á ýmsu fólki og fyrirbærum, sem þykja skara fram úr.
Vilja að ÍSÍ standi að kjöri íþróttamanns ársins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sammála, Ómar. Annie Mist eða Gunnar Nelson væru vel að titlinum komin, en þau eiga víst engan séns
Gunnar Th. Gunnarsson, 20.3.2012 kl. 11:58
Ómar,
í dag eru 22 karlmenn sem velja íþróttamann ársins. Ef skautað er yfir listann hafa amk. 15 þeirra bakgrunn í fótbolta.
Síðasta áratug (2002-11) hafa 65% þeirra sem komast á topp 10 verið úr boltaíþróttum sem er viðsnúningur frá áratugnum þar á undan (1992-2001) þar sem þetta hlutfall var 40%.
2002-11 (1992-2001)
32(21) Knattspyrna
23(16) Handbolti
10(3) Körfuknattleikur
10(13) Sund
8(22) Frjálsar íþróttir
8(8) Golf
4(5) Fimleikar
2(0) Badminton
1(1) Júdó
1(0) Kraftlyftingar
1(0) Dans
0(5) Skíði
0(4) Hestaíþróttir
0(2) Snóker
0(1) Karate
Á hinum norðurlöndunum er valið, eftir því sem ég kemst næst, ávallt gert af fjölmiðla- og fagfólki.
kv/
Arnar (IP-tala skráð) 20.3.2012 kl. 16:34
Svona tölur segja í raun ekkert annað en það, í hvaða íþróttagrein mesta gróskan er hverju sinni. Og það hvort kynið stendur að valinu á ekki að skipta máli, eða ertu að segja að fleiri konur hefðu orðið fyrir valinu ef það hefðu verið 22 konur í valnefnd?
Gunnar Th. Gunnarsson, 20.3.2012 kl. 18:15
Hvernig skilgreinir þú grósku ?
Auðvitað skiptir máli að flestir þessir íþróttafréttamenn er karlmenn sem fjalla aðeins um sitt aðal áhugasvið sem er fótbolti, handbolti og körfubolti (í þeirri röð).
Áhugasvið kvenna á íþróttum er ekki það sama og karla enda sést það vel á iðkendatölum ÍSÍ.
Arnar (IP-tala skráð) 20.3.2012 kl. 20:59
Get ekki séð að það skipti neinu máli hvort það er ÍSÍ eða íþróttafréttamenn sem velji íþróttamann ársins. Báðir aðilar eru jafnþröngsýnir og með sömu viðmið. Boltaíþróttir eru einu íþróttiirnar sem komast inn í höfuðið á þeim auk þess sem val íþróttafréttamanna fer eingöngu fram á íþróttamönnum sem eru innan raða ÍSÍ. Gunnar Nelson og Annie Mist voru nefnd í athugasemd hér að ofan og ekki að ástæðulausu því þau eru fremstu íþróttamenn Íslands á heimsvísu. En hvorugt fær náð fyrir augum íþróttafréttamanna, annars vegar af því að þau eru ekki í boltaíþróttum og hins vegar af því að þau eru ekki innan ÍSÍ. Ég missti reyndar endanlega nokkra virðingu fyrir þessum verðlaunum þegar Gunnar Nelson var ekki valinn fyrir árangur sinn 2009. Það var með ólíkindum.
Aron (IP-tala skráð) 20.3.2012 kl. 23:00
Fótbolti er vinsælasta íþróttagreinin í öllum heiminum og með langflesta iðkendurna. Að komast í atvinnumannalið í bestu deild í heimi (þeirri ensku) er stórkostlegur árangur. Það er erfitt að bera árangur í ólíkum íþróttagreinum saman, en íþróttamenn í öðrum greinum en fót og handbolta hafa bara ekki verið að gera neit sérstakt á undanförnum árum.
Ég spái þó því að Helga Margrét Þorsteinsdóttir, sjöþrautarkona verði fljótlega íþróttamaður ársins.
Gunnar Th. Gunnarsson, 20.3.2012 kl. 23:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.