Hvörfin eru alltaf svo mögnuð.

Þegar manneskja hverfur skyndilega og sporlaust verður yfirleitt til ráðgáta sem gerir dauða hennar margfalt merkilegri og magnaðri en ella. Eitt af þessum hvörfum er hvarf flughetjunnar Amelíu Erhart.

Ótal kenningar hafa verið settar fram um hið dularfulla hvarf hennar í víðáttum Kyrrahafsins 1937, meðal annars sú að Japanir hafi rænt henni og aðstoðarmanni hennar.

Japanir myndu því verða hreinsaðir af öllum grun ef gátan yrði leyst, því að kenningin um aðild Japana að hvarfinu er afar fjarstæðukennd og aðrar orsakir miklu líklegri.

Þessi tilgáta um þátt Japana litaðist hugsanlega af þeirri andúð sem ríkti meðal Bandaríkjamanna í garð Japana á þeim árum, þegar átök, bæði friðsamleg og ófriðsamleg, voru á milli þessara þjóða frá 1931-1945.

Hér á Íslandi má nefna mjög dramatísk og þekkt mannshvörf, svo sem hvarf séra Odds í Miklabæ, hvarf Reynistaðabræðra, hvarf Þjóðverjanna Rudloffs og Knebels í Öskju 1907, hvarf togarans Júlí á Nýfundnalandsmiðum 1959 að ógleymdu hvarfi Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar, sem leiddi af sér magnaðasta sakamál 20. aldarinnar.

Jón Jónsson heitinn jarðfræðingur setti fram þá kenningu skömmu fyrir andlát sitt að Rudloff og Knebel hefðu farist þegar fylla brast úr bakka Öskjuvatns þar sem þeir hefðu verið staddir þá stundina. Hann taldi að sjá mætti far eftir þetta hrun.

Hvarf Rudloffs og Knebels hefur orðið enn magnaðra með árunum vegna þess að flogið hefur fyrir að andar þeirra eða jafnvel svipir séu enn á sveimi á þessum slóðum og að þeir sé ekki með öllu horfnir hvað það varðar.

Þetta hefur gefið ferðafólki hluta af því magnaða andrúmslofti sem Askja býr yfir, en hin tvö atriðin eru dvöl fyrstu tunglfaranna þar við undirbúning tunglferðarinnar og sú upplifun, sem margir fá, að vera komnir aftur til árdaga þegar jörðin var sköpuð.

Þykir afar magnað að þetta stórbrotna landslag skuli að mestu hafa orðið til í Öskjugosinu 1875.

Þessu reyndi ég að lýsa árið 2000 í hluta ljóðsins "Kóróna landsins":

Beygðir í duftið dauðlegir menn

dómsorði skaparans hlíta.

Framliðnar sálir við Öskjuvatn enn

sig ekki frá gröf sinni slíta.

Tunglfarar upplifa ósköpin tvenn:

Eldstöð og skaflana hvíta.

Alvaldsins sköpun og eyðingu´í senn

í Öskju þeir gerst mega líta.

 

Höll íss og eims.

Upphaf vors heims.

Djúp dularmögn,

dauði og þögn.

P. S. Í frétt mbl.is sem þessi pistill er tengdur við segir: "Bandaríkjamenn hétu þess að..." Þetta er sérkennileg málvilla. Þarna ætti að standa: "Bandaríkjamenn hétu því..." o. s. frv.


mbl.is Flughetju enn leitað 75 árum eftir hrap
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Beygðir í duftið dauðlegir menn

.................................................

minnir mig sterklega á:

Liðið er hátt að aðra öld;

................

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 20.3.2012 kl. 20:00

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Kóróna landsins" er ort undir áhrifum frá Áföngum þótt viðfangsefnin séu önnur og grunnurinn flugferð frá Öxarfirði suður í Kverkfjöll og síðan frá Reykjavík upp í Kverkfjöll.

Ómar Ragnarsson, 20.3.2012 kl. 20:49

3 Smámynd: Landfari

Því verður ekki stolið frá þér Ómar, eins og ýmsu öðru, að þú getur gert óborganlega texta og lög

Landfari, 20.3.2012 kl. 21:31

4 Smámynd: Hjördís Vilhjálmsdóttir

Ævi hverrar manneskju þarf að enda eins og allt annað, á " The End", annars hættum við ekki að hugsa hvað gerðist.

Hjördís Vilhjálmsdóttir, 20.3.2012 kl. 22:38

5 Smámynd: Sævar Óli Helgason

Eitt sumarið var ég að vinna við Ferðamiðstöð Austurlands...

-

Við vorum eina helgina í Landmannalaugum með hóp af túristum þegar gerði þetta líka vitlausa veðrið... Tjöld og búnaður fuku, allir blautir og vel kaldir en allt bjargaðist samt nokkuð vel hjá okkur...

Þegar veðrið lægði kom í ljós að bandarískur göngumaður sem ætlaði sér frá Þórsmörk uppí laugar hafði ekki skilað sér og fannst ekki...

Þetta þótti undarlegt þar sem þetta var vanur göngumaður, læknanemi við Harvardháskóla þekkti vel til og var vel búinn...

En einsog ég sagði fannst hann ekki þrátt fyrir þónokkra leit...

Skálaverðir í Landmannalaugum fundu svo lík mannsins einhverjum dögum seinna, bara nokkrum tugum metra frá skálunum uppí laugum inní hrauninu... Þeir tóku nefnilega eftir því hvar hrafnarnir voru farnir að hringsóla... (Já, ég veit að það er ljótt að segja svona frá þessu en svona er þetta nú bara...)

Talið var að maðurinn hafi séð í skálana á göngu sinni í óveðrinu og talið sig geta komist... Örmagnast og orðið ruglaður í erfiðu veðrinu, gengið útaf göngustígnum inní hraunið og gefist upp þar... Hreinlega bara sofnað...!

Sem er ömurlegt vegna þess að hefði hann bara skriðið í sérhannaðan svefnpokann og beðið af sér veðrið þá hefði hann haft það af... En freistingin að komast í skála hefur líklega verið það sem fór með hann...

Og pældu í því... Hann fannst ekki fyrr en eftir nokkra daga, þrátt fyrir leit...

Það þarf ekki mikið til að týnast á Íslandi... Og finnast aldrei aftur...

Sævar Óli Helgason, 20.3.2012 kl. 23:30

6 identicon

Hvað þá á Kyrrahafi Sævar.....

Einn frægur flugkappi Bandaríkjamanna, Eddie Rickenbacker (var kempa í fyrra stríði, og svo hátt settur í því seinna) lenti í villu á B17 vél yfir Kyrrahafi í seinna stríði. B17 er óendanlega meiri vél en vél Amelíu, og gerð fyrir þokkalegt langflug. En staðsetningarvilla gerði áhöfnina bensínlausa úti í ballarhafi.  Þeim tókst þó ekki að "hverfa", því þeir héldu sér á floti í 24 daga, - fundust þá.

Það er vitað að Amelia var orðin tæp á bensíni, það voru hennar eigin orð. Og eins og Ómar þekkir, er það ekki sjálfgefið að lending á sjó fari vel. Þess utan var hún bara á 2ja hreyfla vél, en flestar voru á mörkum þess að geta flogið á einum hreyfli, og þá á fullu afli.

Pælum svo í einhverju sem líklega fór svipað, - flight 19....

Annars væri það annað frægt hvarf.

Flugvél sem sekkur í Kyrrahafið einhvers staðar er mjög ólíkleg til að finnast. Sjáið til, við finnum ekki einu sinni Goðafoss!

Jón Logi (IP-tala skráð) 21.3.2012 kl. 10:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband