Ekki er spurt beint um 34. greinina.

Í frumvarpi stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá Íslands, hljóðar 34. greinin svona:

"Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign  þjóðarinnar."

Þarna er skýrt og skorinort gert ráð fyrir því að aðeins sé um að ræða þær auðlindir sem ekki eru í einkaeigu og þar með, að áfram gildi svipað fyrirkomulag og nú er, það er, að hluti auðlindanna sé í einkaeigu samkvæmt nánari lögum þar um og í samræmi við 16. grein í frumvarpinu, þar sem segir að eignarrétturinn sé friðhelgur og að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almannaheill krefji og komi fullt verð fyrir.

Það er svipað ástand og verið hefur varðandi einkaeignarréttinn og enginn aðstandandi frumvarpsins hefur túlkað þetta sem svo að  landeigendur og veiðifélög séu svipt eignum sínum með 34. greininni.

Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sendi stjórnlagaráði fyrirspurn um þetta efni, og svar ráðsins var að orðin "sem ekki eru í einkaeigu" verði ekki skilin öðruvísi en svo að þar sé áfram tryggður eignarréttur einkaaðila á þessu sviði, sem verið hefur, enda megi sjá af greinargerð og umræðum í ráðinu hvað gildi í þessum efnum.

Ráðið svarað ennfremur, að það væri því að meinalausu að orðin "sem ekki eru í einkaeigu" væru ítrekuð síðar í greininni til að taka af allan vafa og segja þess vegna ef menn vildu (viðbót skáletruð):

"Enginn getur fengið auðlindirnar, sem ekki eru í einkaeigu, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota...o. s. frv...."

Ýmsir hafa reynt að þyrla upp moldviðri varðandi 34. greinina og verið með útúrsnúninga og jafnvel fullyrt að með henni séu öll gæði lands okkar þjóðnýtt á einu bretti, en því fer fjarri eins og öll gögn málsins hjá stjórnlagaráði, bæði frá því í fyrra, og líka á fjögurra daga fundi þess um daginn, bera ljóst vitni um.

En það er út af fyrir sig rétt að í spurningunni, sem á að leggja fyrir kjósendur, er ekki spurt beint um álit kjósenda á 34. greininni eins og hún liggur fyrir með öllum gögnum, sem henni tengjast.

Á hinn bóginn hefur oft verið spurt beint í skoðanakönnunum um fylgi eða andstöðu við þjóðareign á auðlindum og að því leyti tengist ætluð spurning þingnefndarinnar 34. greininni.

Skilgreining á hugtakinu "þjóðareign" er skýr, þótt margir láti annað í veðri vaka.   

Í greinargerð og umræðum stjórnlagaráðs um 34. greinina voru Þingvallalögin 1928 höfð til hliðsjónar við skilgreiningu á hugtakinu þjóðaraeign sem enginn geti fengið til varanlegra eignar og aldrei megi selja né veðsetja.

Í lögunum um Þingvelli er þetta eðli þjóðareignar tiltekið um þá. Eðli Þingvalla sem þjóðareignar er sem sé annað en til dæmis eignarhald ríkisins á húsum og öðrum mannvirkjum, sem ríkið má selja eða veðsetja. 

Og þannig er það um hugtakið "þjóðareign." Það má leigja afnot af slíkri auðlind til hæfilega langs tíma gegn hæfilegu gjaldi, en ekki selja hana sjálfa eða veðsetja.

Þannig má ríkið, sem fer með umsjón Þingvalla fyrir hönd þjóðarinnar, leigja afnotarétt í formi veitingasölu eða annarrar þjónustu á Þingvöllum og hefur gert það.


mbl.is Spurning ekki í samræmi við gildandi lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Netlög - Hluti (einkasvæði) jarðar í sjó eða vatni.

Vatnsbotn 115 metra út frá bakka stöðuvatns sem landareign liggur að, svo og sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar,  sbr. 2. gr. jarðalaga nr. 81/2004 og og 3. gr. laga um lax- og silungsveiði nr. 61/2006.

(Lögfræðiorðabók með skýringum, útg. Lagastofnun Háskóla Íslands, 2008.)

Jarðalög nr. 81/2004


Lög um lax- og silungsveiði nr. 61/2006

Þorsteinn Briem, 27.3.2012 kl. 13:40

2 identicon

En hvað með auðlindir í opinberri eigu, verða þær ekki þjóðnýttar með þessu ákvæði ?  T.d. auðlindir í eigu sveitarfélaga eða opinberra fyrirtækja, nú eða þær sem finna má á ríkisjörðum.  34. greinin tekur eignarhald slíkra auðlinda úr eigu ríkis eða sveitarfélags og færir það þjóðinni.  Spurning hvort ekki beri að greiða bætur fyrir, amk í tilfelli sveitarfélaganna.  Sveitarfélögin gætu reynt að komast undan þessu með því að selja einkaaðilum auðlindirnar og leigja nýtingarréttinn, áður en ákvæðið tæki gildi, en eitthvað hljómar það öfugsnúið.  Er ég að misskilja Ómar ?

Þröstur Þórsson (IP-tala skráð) 27.3.2012 kl. 17:04

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hingað til hefur það verið talið, að auðlindir í eigu ríkis, ríkisfyrirtækja eða sveitarfélaga séu þjóðnýttar, þ. e. þetta er ekki í einkaeigu, eign einstaktlinga, félaga eða frjálsra félagasamtaka.

Ómar Ragnarsson, 27.3.2012 kl. 22:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband