29.3.2012 | 12:13
Stefnir í óvenjulegar kosningar?
Í flest þau skipti, sem forsetakjör hefur verið á dagskrá hér á landi hefur aðeins einn verið í kjöri og hann því sjálfkjörinn. Undantekningar voru þegar forsetar þegar staðan varð laus, 1952, 68, 80 og 96.
Í eitt skipti fékk Vigdís Finnbogadóttir mótframboð og Ástþór Magnússon hefur verið einn um framboð gegn Ólafi Ragnari Grímssyni.
Nú bregður svo við að þegar hafa þrír lýst yfir mótframboði við Ólaf Ragnar, allt karlmenn.
Hins vegar eru þrjár konur efstar á lista um hugsanlega mótframbjóðendur í skoðanakönnunum og spurningin er hvort ástæðan sé undirliggjandi bylgja, líkt og var 1952, 68, 80 og 96.
Hvernig "undirliggjandi bylgja"?
Skoðum forsöguna. 1952 lýstu tveir stærstu stjórnmálaflokkar landsins, með tæplega 2/3 þjóðarinnar að baki sér, yfir því að þeir styddu séra Bjarna Jónsson til embættis forseta.
Tveir aðrir frambjóðendur, báðir stjórnmálamenn, lýstu samt yfir framboði og svo fór að Ásgeir Ásgeirssonar var kjörinn undir kjörorði fylgismanna hans: "Fólkið velur forsetann".
Úrslitin voru túlkuð þannig að það væri ekki líklegt til árangurs að ráðandi pólitísk öfl hverju sinni væru með puttann í forsetakosningum og að það væri bara verra ef þau væru byggð á því sem virtist vera pólitísk valdbeitingu og forsjárhyggja.
Bylgjan var sem sagt á móti ráðandi öflum en þó ekki meira en svo, að í Alþingiskosningum árið eftir, héldu stjórnarflokkarnir í meginatriðum sínum hlut.
1968 í upphafi hippabyltingar og óróa á Vesturlöndum var svipuð bylgja á ferð, ein sú stærsta í sögunni af slíku tagi, og í þetta skipti var hún andstæð stétt stjórnmálamanna og "ráðandi öflum", þar með því að tengdasonur fráfarandi forseta yrði kjörinn í hans stað.
Tengdasonurinn, sem hafði 1952 staðið einna fremst í því að "fólkið veldi forsetann" varð nú sjálfur fyrir barðinu á slíkri hugsun. Og yfirburðasigur Kristjáns Eldjárns var ekki síst því að þakka að hann var eini mótframbjóðandi Gunnars, þannig að fylgi andstæðinga Gunnars Thoroddsens dreifðist ekki.
1980 voru þrír í framboði og enda þótt einn þeirra, Albert Guðmundsson, væri stjórnmálamaður og alþingismaður, var hann þekktur fyrir sjálfstæði sitt og að fara sínar eigin leiðir.
Guðlaugur Þorvaldsson var farsæll sáttasemjari ríkisins en inn í þennan heim, sem karlar einir höfðu einokað fram að því, kom Vigdís Finnbogadóttir eins og ferskur andblær.
Og enda þótt fylgismunurinn væri ekki mikill var greinilegt að bylgjan í þetta skipti var býsna hliðstæð því sem hún hafði verið 1968, ákall um breytt viðhorf og breytta hugsun.
Nú hefði mátt ætla að ekki þýddi framar fyrir stjórnmálamenn að bjóða sig fram í þetta embætti en annað kom upp úr dúrnum 1996.
Þá var ástandið að því leyti til hliðstætt ástandinu 1952, að sömu flokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, voru við völd.
Og aftur gerðist svipað og gerðist 1952, að bylgjan var með breytingum og forseta, sem yrði andsvar við veldi öflugrar stjórnar og stjórnarflokka, og eins og 1952 var það glæsilegur og öflugur stjórnmálamaður, sem varð fyrir valinu.
Af framangreindu sést að þjóðarpúlsinn hefur sveiflast nokkuð í þau 60 ár sem liðin eru frá fyrstu forsetakosningunum og að nú megi allt eins búast við alveg nýrri tegund af bylgju, sem tekur mið af þeim miklu sviptingum, Hruninu og afleiðingum þess, sem orðið hafa síðan 2008.
Stefán Jón Hafstein hefur bent á þetta og byggir hugleiðingar sínar um hugsanlegt framboð sitt á því.
Aldrei fyrr hafa jafnmargir tilkynnt framboð sitt svo löngu fyrir kosningar. Og aldrei fyrr hafa jafn margar glæsilegar, hæfar og vel menntaðar konur verið með mest fylgi þeirra, sem íhuga að bjóða sig fram gegn sitjandi forseta.
Ég tel ekki óhugsandi að fleiri verði nefndar og nefni nafn Tinnu Gunnlaugsdóttur Þjóðleikhússtjóra í því sambandi.
Hitt er ljóst, að einhver bylgja af þessu tagi er ekki nóg til þess að ráða úrslitum í komandi forsetakosningum.
Ef mótframbjóðendur forsetans verða margir munu þeir taka fylgi hver frá öðrum og tryggja kjör núverandi forseta og yrði þá þessi bylgja til einskis fyrir þá sem vilja húsbóndaskipti á Bessastöðum, gagnstætt bylgjunni 1968 þar sem það réði úrslitum, að frambjóðandinn gegn ríkjandi ástandi var einn í framboði gegn því sem þá var stundum kallað forsetafjölskyldan.
Ekki er að sjá að þeir þrír, sem nú þegar hafa tilkynnt um framboð sitt gegn sitjandi forseta, fái umtalsvert fylgi. Fylgi tveggja þeirra mældist sáralítið í skoðanakönnun um daginn.
Mig grunar að eini möguleikinn í stöðunni nú til þess að þjóðin fái sem skýrast val, sé sá, að einn öflugur frambjóðandi sem eigi góðar líkur á miklu fylgi, líkast til kona, verði í framboði gegn sitjandi forseta.
Það yrði skýrt val og best fyrir Ólaf Ragnar sjálfan og þroska lýðræðisins í landinu.
En nú þegar liggur fyrir að frambjóðendur verði fleiri en nokkru sinni fyrr og að þessar forsetakosningar verði jafn ólíkar fyrri kosningum og flest annað eftir Hrun hefur verið ólíkt því sem verið hefur áður.
Býður sig fram til forseta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér skilst að það kosti sitt að taka þátt í kosningu um Íslenska forsetaembættið og að ólíklegt sé að sá peningur komi úr vasa frambjóðenda.
Hverjar reglur gilda um fjárhagslegu hliðina á framboði til þessara kosningar?
Gæti einhver geimvera/glæpahringur/hver sem er hugsanlega "keypt" forsetaembættið?
Agla (IP-tala skráð) 29.3.2012 kl. 16:29
"Why Can't We All Just Get Along?"
Þorsteinn Briem, 29.3.2012 kl. 18:37
Takk fyrir þetta Steini. Jack Nicholson góður. Já, einmitt, af hverju, af hverju........
It is such a beautiful planet in a magnificent universe. Most likely the only planet with human beings or "life". Maybe the only planet with "life" in hundred of billions of universes.
And we can't get along.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 29.3.2012 kl. 21:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.