Ofangreint er ekki aprílgabb, því að tölvupóstur um þetta var sendur til mín 31. mars.
Auk þess hef ég heyrt ávæning af þessu fyrr, en ekki svona nákvæmt útfærða áætlun, né heldur að gríðarlegur olíugróði Íslendinga geti strax farið að flæða um hagkerfi okkar í formi erlendra fjárfestinga.
Í skeytinu var leitað liðveislu minnar við stórbrotustu framkvæmdir í sögu landsins í viðbót við stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, Kárahnjúkavirkjun, og fyrir sama fólkið og sú virkjun var gerð fyrir til þess að "bjarga byggð" eystra.
Leitað hefur verið til kínverskra fjárfesta sem líst vel á málið:
Reist verði risavaxin olíuumskipunarhöfn í Loðmundarfirði. Þaðan verði lagt jarðganganet um Austfirði, beint til Egilsstaða, önnur göng til Seyðisfjarðar og síðan göng áfram suður um í hringtengingu. Hlemmivegur um Húsavík eystri til Borgarfjarðar eystri.
Lögð verði sérstök járnbraut frá Egilsstöðum vestur eftir endilöngu miðhálendinu um Stórasand til Reykjavíkur.
Samkvæmt skeytinu er höfuðatriðið í þessu máli að koma í veg fyrir gerð olíuumskipunarhafnar á Norðausturlandi og allra síst í nágrenni Langaness, sem þó er styst frá olíuvinnslusvæðinu. Er það athyglisvert, því að þeir sem styðja þetta mál hafa talið sig talsmenn hrörnandi jaðarbyggða en vilja nú tryggja að fólkið á norðausturhorninu fái enga mola af olíuhlaðborðinu mikla heldur eingöngu þeir sem þegar hafa komist upp á bragðið.
Er notuð sú röksemd að vegir séu lélegir á Norðausturlandi. Er leiðin til Reykjavíkur þó malbikuð að mestu um láglendi og í gegnum höfuðstað Norðurlands. Nei, sú leið má greinilega ekki vera inni í myndinni heldur er því flaggað að gera þurfi járnbraut hundruð kílómetra eftir endilöngu miðhálendinu á leið, sem liggur á stórum köflum í meira en 800 metra hæð á verstu illviðrasvæðum landsins!
Nú er í ráði að leggja stórbrotna háspennulínu og veg norður um Sprengisand. Við horfum fram á það að miðhálendið verði bútað með járnbraut, háspennulínum og vegum í fjóra parta og gildi stærsta víðernis Evrópu og magnaðasta og fjölbreyttasta eldfjallasvæðis heims og stærsta þjóðgarðs í Evrópu verði ekki metið krónu virði.
Lestin mun fara rétt hjá Öskju og hún því verða jafn mikið í alfararleið og Staðarskáli eða Hellisheiði ef tengt verði inn í Öskju með malbikuðum vegi, að maður tali nú ekki um ef hægt yrði að skoða flotta jarðvarmavirkjun a la Hellisheiði þar.
Einnig verður samkvæmt þessum áformum ekkert hugað að hagsmunum þeirra byggða sem liggja næst þessu svæði og geta notið vaxandi hróðurs þess og frægðar sem einstæðs náttúruverðmætis á heimsvisu sem búi yfir ólýsanlegum töfrum sem minna á tunglið eða sköpun jarðarinnar.
Ætlunin er að umturna eina eyðifirðinum sem eftir er allt frá Hornströndum austur, suður og vestur um til Skálmarfjarðar við Breiðafjörð. Eftir því sem slík fyrirbæri verða sjaldgæfari fer virði þeirra ört vaxandi. En gildi Loðmundarfjarðar verður ekki metið krónu virði hvað þetta varðar.
Hann skal vera eina brúklega stæðið fyrir olíuhöfn, allt frá Raufarhöfn suður til Hornafjarðar.
Í gögnum um þetta er sagt að nú verði ekki lengur talað um milljarða heldur biljónir króna sem séu í pottinum!!!
Góðir landar mínir. Okkur er óhætt að fara að búa til þensluna sem við þráum og láta billjóna olíugróðann flæða út úr eyrum okkar, nefi, munni og dollaraglampandi augunum!
2007, bankabólan og "gróðærið" hvað?!
Aðeins eitt vantar í þetta: Olíuhreinsistöðvarnar sem áttu að bjarga landsbyggðinni fyrir nokkrum árum og við getum auðveldlega klófest, af því að engar aðrar vestrænar þjóðir hafa viljað reisa slík mannvirki síðustu 20 ár.
Í tölvupóstinum, sem mér var sendur í gær, var ekki minnst á að hann væri trúnaðarmál, enda greinilegt að verið er að senda út gylliboð, sem þegar hefur verið lögð mikil vinna í, til þess að vinna þessum áformum fylgi og koma þeim í framkvæmd.
Þess vegna vil ég láta vita af þessu svo að fleiri geti kynnt sér þessa dýrð og dásemd. Nánari útfærslu má sjá á: http://frost.fastmail.fm
Athugasemdir
Þetta hefur lengi legið í Loftinu Ómar og Sveitarfélög hafa bitist um að fá þessa alþjóðahöfn í tengslum við opnun norðurleiðar og hugsanlegrar olíu. (sem nú er raunar staðfest að er þarna).
Þessa má sjá merki í framtíðarskipulagi nokkurra strandbyggða fyrir austan og norðan. Já það er löngu búið að teikna þessar hafnir.
Jón Steinar Ragnarsson, 2.4.2012 kl. 02:26
Vænlegust hefur þótt höfn á langanesi, en ef þú biður um framtíðarskipulag t.d. frá Siglufirði, þá sérðu hugmyndir um að breyta þeim fagra bæ í einhverskonar Murmansk af tilefninu. Þetta er þó áhugamál eins eða tveggja einstaklinga sem hafa látið bæjarfélagið greiða skipulagsvinnu fyrir þennan pípudraum sinn.
Check it out.
Jón Steinar Ragnarsson, 2.4.2012 kl. 02:29
Jesús.
Umskipun, - jájá. Þegar tækniþróunin stefnir á þann veg að olían sé tekin beint frá uppruna í vinnslu.
Járnbrautir, jáá, þegar Íslendingar hafa ekki einu sinni getað druslað upp braut frá Rvík. til Keflavíkur eða bara á Selfoss.
Og umskipun vegna ferða yfir pólinn, þegar við gátum ekki einu sinni klófest slíkt sem tengdist flugumferð yfir pólinn, - Flying Tigers hérna um árið.
Jón Logi (IP-tala skráð) 2.4.2012 kl. 09:11
Mér þætti nú fróðlegt að sjá hvernig á að byggja svona höfn í eða út af Loðmundarfirði eins og sést á mynd. það er ekkert hægt.
Miklu frekar þá að landa þessum olíuslatta á Seyðisfirði þar sem ekkert þarf að framkvæma viðvíkja hafnargerð því fjörðurin er höfn frá náttúrunnar hendi.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.4.2012 kl. 09:27
Ómar, þetta eru aldeilis ótrúlegar fréttir, alla vega fyrir mig og hvað ætlar þú svo að gera í því?
Ertu meðmæltur framkvæmdum kínverja eða annarra í þessa veru?
Kannski verður þú framkvæmdastjóri fyrir batteríið - hlýtur að vanta fólk til að koma svona hugmyndum á legg.
Eru þá allar aðrar framkvæmdir orðnar að smámunum á einu augabragði?
Sigurður Herlufsen (IP-tala skráð) 2.4.2012 kl. 12:39
Þú átt að geta lesið skýrt mína afstöðu út úr pistlinum. Ofangreindar hugmyndir um að hrifsa allt til sín í takmarkalausri græðgi og valta yfir allt og alla, toppar allt sem gert var í aðdraganda Hrunsins.
Ég skrifa pistilinn dapur yfir því að aðaláhugamál þessara gróðapunga er að koma í veg fyrir að neinir aðrir en þeir sjálfir geti einokað olíugróðann.
Fólkið við Þistilfjörð og Bakkaflóa má greinilega fara fjandans til í hugum þessara manna.
Þessar hugmyndir um að fórna stórfelldum náttúruverðmætum að óþörfu á einu bretti aðeins fyrir ofsagróða þeirra sömu og stóðu fyrir Kárahnjúkavirkjun segja mér einfaldlega að hugsunarhátturinn sem skóp Hrunið hefur færst í aukana og menn eru tilbúnir til miklu meira gróðabralls, áhættu og fórna en nokkru sinni fyrr.
Eina ástæðan fyrir því að ekki hefur verið eins mikið gert af þessu tagi síðustu þrjú árin og fyrr er sú að það er ekki eins auðvelt ennþá á meðan þjóðin sýpur seyðið af geggjuninni. En viljann vantar ekki. Hann er einbeittari en nokkru sinni fyrr. Það er það sem gerir þessar hugmyndir svo ógnvænlegar.
Ómar Ragnarsson, 2.4.2012 kl. 13:21
Já Ómar, ég fann alveg afstöðu þína og get játað að ég samhryggist þér.
Þetta voru svo ótrúlegar fréttir að ég fékk næstum því taugaáfall og viðbrögð mín voru svona hálfkæringslega samin í því samhengi.
Gangi þér vel með það sem þú trúir á.
Sigurdur Herlufsen (IP-tala skráð) 2.4.2012 kl. 13:44
Er ekki lang best að líta á þetta sem risavaxið aprílgabb
Kristinn Pétursson, 2.4.2012 kl. 13:50
Fór inná þessa síðu í morgun http://frost.fastmail.fm og ég veit ekki - en mér finnst eins og það hafi staðið eitthvað meira þarna en nú gerir.
En hitt er annað, að ef manninum á bakvið síðuna finnst Finnafjörður óraunhæfur - þá er þessi fjörður jafnóraunhæfur. Eitthvert versta sjólag sem um getur og stafar án efa af álögum Loðmundar Landnámsmanns sem mælti svo fyrir um ,, að skip sem þaðan færu skyldu aldrei koma heil af hafi."
Síðan bjugga þarna miklir hæfileikamen, galdramenn, listamenn og skáld ss. Galdra-Imba og Páll Ólafsson. Páll fór einu sinni á sjó til að veiða sér í soðið. þegar hann hélt til strandar, því aldrei var nein bryggja þarna, þá mætli hann:
Það er ekki þorsk að fá
úr þessum firði;
þurru landi eru þeir á
og einskis virði.
Annað þekkt skáld frá Loðmundarfirði var þorsteinn Stefánsson sem fór til Danmerkur og náði þar talsverðum vinsældum á tímabili. þekktasta bók hans er Dalurinn þar sem fyrirmyndin er augljóslega Loðmundarfjörður fyrripart 20. aldar.
Enn má nefna þekktan Loðmfirðing, Ísak Jónsson mentafrömuð sem stofnaði Ísaksskóla og kom að útgáfu Gagn og Gaman sem allir lærðu í eina tíð.
Um og uppúr miðri öldinni fer byggð að dragast saman, aðallega vegna samgönguerfiðleika og um 1965 leggst byggð að mestu niður. þó var búið á einum bæ til 1973 ef eg man rétt.
þá varð fjörðurinn gott upprekstarland fyrir sauðfé td. af Héraði. því þurftu þeir Héraðsmenn og fólk frá nærliggjandi fjörðum að fara þangað á haustin og hóa saman fénu. Var þar oft glatt á hjalla og gangu margar sögur af. Um þær ferðir orti þormóður skáld á Reyðarfirði kvæði er hefst svo:
Austurfjöllin eru há
þau anda seiða minn
og þarna leynist lagleg sveit
Loðmundarfjörðurinn
Og þangað ríða rekstrarmenn
er roðnar lauf um haust
dögum saman dvelja þar
og drekka sleitulaust.
o.s.frv.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.4.2012 kl. 15:57
Verið að ræða þetta í Siðdegisútvarpi Rásar 2 núna.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.4.2012 kl. 16:53
Höskuldur þórhallson alþingismaður. Heyrði þetta ekki almennilega en eitthvað á þá leið að nú eigi Ísland bara að drífa í að ákveða hvar þessi mikla höfn eigi að vera.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.4.2012 kl. 16:54
Þakka þér fyrir að vekja máls á þessu Ómar. Væri ekki mál að gera kvikmynd um þetta?
Þá get ég bent á nokkur eyðibýli sem alls ekki mega byggjast aftur. Ég þori ekki að hugsa það til enda hvað það væri dásamlegt ef landið færi bara í auðn. Nei, það yrði alltof gott.
Gummi (IP-tala skráð) 2.4.2012 kl. 17:52
Menn munu taka þann kostinn sem næstur er,
Jan Mayen, því eru vangaveltur þessar sem og aðrar
óþarfar eða í besta falli draumórar.
Húsari. (IP-tala skráð) 2.4.2012 kl. 18:49
Jú, þetta eru draumórar. Að mínu mati. Eg er ekki að fara sjá etta gerast. þ.e.a.s. einhverja risahöfn þessu viðvíkjandi. Hvorki í Finnafirði eða Loðmundarfirði.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.4.2012 kl. 19:08
Samkvæmt mínum gömlu félögum og skólabræðrum í Stavanger, (STATOIL) er áratugir í að svona framkvæmdir á Íslandi hefjist,ef nokkurn tíman.
Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 2.4.2012 kl. 20:57
Aldeilis skúbb hjá þér Ómar ! Þetta má skoða í samhengi við viðtal milli tveggja Vesturlandabúa sem ég heyrði, einmitt á Kínversku stöðinni CCTV. Voru þeir að ræða um " sjálfbærni" Jarðar. Setningarnar áhugaverðu voru eitthvað á þessa leið. "Til að Kínverjar nái sömu lífskjörum og Bandaríkjamenn þurfa þeir fjórar Jarðir ( plánetur)" Og með orðum viðmælandans " But there is no plan-et B" Þú hefur aldeilis eitthvað til að hugsa um núna ef þetta er ekki bara vel unnið aprílgabb !
Sigurður Ingólfsson, 2.4.2012 kl. 21:21
þessi síða er búin að vera lengi uppi sko. Einhver Guðmundur Bjarnason sem skrifar undir hana, að mig minnir.
Eg hélt bara að ekkert nýtt hefði gerst þessu viðvíkjandi núna.
þessvegna varð eg hissa þegar Höski þórhalls, að öllum mönnum, kom á Rás 2 í dag og fór að tala um að nú væri komið að því að velja hafnarstæði fyrir hina miklu höfn.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.4.2012 kl. 21:53
Við lifum á olíuöld, þeirri öld sem hugsanlega verður mest formælt þegar aldirnar líða, því að hún stóð aðeins í innan við tvær aldir og kynslóðirnar, sem þá lifðu, tóku þennan auð allan í heilu lagi til sín í stað þess að reyna að deila honum með fleiri kynslóðum.
Auk þess mun fylgja þessu súrnun hafannna og fleiri stórbreytingar, drukknun landa og stranda o. s. frv. sem þarf ekki að rekja.
En ekkert virðist geta lagfært þetta neitt og líkurnar á olíuvinnslu norðaustur af Íslandi eru það miklar að við verðum að reyna að átta okkur á því hvernig helst sé hægt að lágmarka umhverfistjón af olíuæðinu, sem þegar er runnið á stóran hluta þjóðarinnar af því heljarafli að margir eru tilbúnir í enn stærra fjárhættuspil en í hruninu.
Stórauknum umsvifum risaolíuskipa mun fylgja aukin hætta á olíuslysum og ausrturströndin er skást, af því að þar ber Austur-íslandsstraumurinn hugsanlega mengun til suðurs í átt að Færeyjum, og auðvitað er okkur skítsama um þá.
Hugmyndir um stórfelld olíuumsvif við Vesturland og Vestfirði eru hins vegar slæmar, því að Irminger-grein Golfstraumsins ber mengun norður með ströndinni og til austur inn með norðurströndinni.
Á þeirri leið eru þrjú stærstu fuglabjörg Evrópu.
Guðmundur Bjarnason var fyrrum sveitarstjóri á Reyðarfirði og er orðinn sérfræðingur í því að bræða saman stórfyrirtæki og innbyggjara, fyrst á Reyðarfirði og síðan á Húsavík.
Þetta er áreiðanlega gefandi starf fjárhagslega séð og getur til dæmis skapað verkefni fyrir mann með þessa þekkingu í þróunarlöndunum þar sem módelið risafyrirtæki, sem flytur arðinn úr landi - innbyggjarar sem fá laun í verksmiðjum er stundað með góðum ábata fyrir heimskapítalið.
Ómar Ragnarsson, 2.4.2012 kl. 22:53
Sæll Ómar.
Nú ruglar þú saman mönnum. Gott að þú gerir mig ekki að fyrrum ráðherra.
Eða hvaða nafna minn ert þú annars að tala um og í hvaða tilgangi?
Kveðja,
Guðmundur Bjarnason (IP-tala skráð) 3.4.2012 kl. 10:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.