Féll fyrir plankastrekkjaranum.

Í dag vorum við hjónin að Klapparhlíð 30 í Mosfellsbæ þar sem tvær dætur okkar búa í sömu blokk með fjölskyldum sínum, alls ellefu manns, önnur á jarðhæð en hin á annarri hæð. Önnur hjónin eru erlendis og af þeim sökum er þessi viðdvöl okkar til komin.

Undir kvöld kom Hlynur Kristófer Friðriksson, sex ára, inn til mín í íbúðinni á jarðhæðinni og var mikið niðri fyrir, - sagði að í íbúðinnni hjá frændfólkinu uppi á næstu hæð væri búið að setja upp sérstaklega skemmtilegt fyrirbæri sem ég yrði að sjá, því það væri svo merkilegt og flott.

"Og hvað er þetta?" spurði ég. "Þetta er plankastrekkjari" svaraði sá stutti, greinilega undrandi á fáfræði minni. 

Ég fór að grufla í þessu í huganum og mundi eftir því að fyrir nokkrum mánuðum var á sveimi sögnin að planka þar sem menn lögðu sig lárétta eins og planka. 

En samt var ég litlu nær um það hvað þetta væri og spurði Helgu konu mína um það, en svar hennar var þannig, að ég var enn fjær því að vita það nema ég sæi það með eigin augum, og hafði einungis opinberað mikla fávisku mína með því að spyrja um það  sem allir, allt niður í sex ára aldur, vissu geinilega hvað væri. 

Ég var nú orðinn svo forvitinn að ég fór upp á efri hæðina og var byrjaður að leita að plankastrekkjaranum þegar viðstaddir fóru að skellihlæja og á mig var beint myndavél þar sem haft var við mig viðtal um þessa uppákomu. 

Auðvitað var þetta aprílgabb og þeir sem tóku þátt í því, allt frá sex ára aldri til 69 ára, léku hlutverk sín af mikilli snilld.

Ég féll sem sagt kylliflatur fyrir plankastrekkjaranum og er auðvitað enn fjær því en nokkru sinni fyrr að vita hvað þetta fyrirbæri kann að vera ef það skyldi einhvers staðar vera til.  


mbl.is Vildu Vigdísi, en fengu Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Óskar Jónsson

Gerðu svo vel Ómar, ef þú horfir á þetta myndband ættirðu að verða einhverju nær.

http://www.youtube.com/watch?v=iO92jqYBsk0

Sigurður Óskar Jónsson, 1.4.2012 kl. 22:58

2 identicon

Það er kannski frekar þessi... http://youtu.be/FCviT__Zzys

IRI (IP-tala skráð) 1.4.2012 kl. 23:01

3 Smámynd: Árni Halldórsson

Það merkilegasta við þessa bloggfærslu er að þú hafir ekki heyrt áður um plankastrekkjarann, og sérstaklega þar sem þú hefur nú oft verið við glensið bendlaður.

Árni Halldórsson, 2.4.2012 kl. 17:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband