8.4.2012 | 19:57
"Ólíðandi ástand" áratugum og kannski öldum saman!
Meðan til verða gæðingar verður þeim hleypt. Þessi sex orð segja einfalda sögu um nauðsynlegar aðgerðir til þess að bregðast við þessu, því að aldrei verður hægt að útrýma þessu fyrirbæri.
Ég kannast við það fyrir meira en 50 árum að "ólíðandi hegðun" væri í gangi á bílum og vélhjólum.
Athafnasamasti lögreglumaðurinn, sem reyndi að taka á þessu, var kallaður "Siggi Palestína" og var í nokkur ár skelfir svonefndra ökuníðinga.
Upp komu raddir á þessum árum um að banna alfarið skellinöðrurnar og útrýma þeim.
Sigurður var hins vegar mannþekkjari og mannvinur og greip til þess ráðs að vinna trúnað vélhjólamanna, sem voru flestir á skellinöðrum, og stofna með þeim Vélhjólaklúbbinn Eldingu, sem beislaði þörf hinna ungu manna til þess að reyna með sér á gæðingum sínum.
Brá þá svo við að hin "ólíðandi hegðun" skellnörðuunglinganna gufaði upp en þeir efldu færni sína á afmörkuðum svæðum, svo sem í Rauðhólunum.
Enn eru þeirmargir sem sjá aðeins boð og bönn sem einu úrræðin.
Þeir átta sig ekki á því að það sem er ólíðandi er aðgerðarleysi yfirvalda og lögreglu.
Ég minnist til dæmis þess hér um árið að sömu bílarnir reykspóluðu á horninu við KEA á Akureyri alla nóttina og fram á morgun án þess að hægt væri að fá lögregluna þar til að róta sér. Þessir hávaðaseggir héldu vöku fyrir tugum hótelgesta þarna rétt hjá.
Eftir rúmlega 50 ár hefur ekkert breyst í þessu efni. Enn hefur ekki verið komið á æfingabraut fyrir ökumenn þótt slík fyrirbæri hafi verið að finna í áratugi í Evrópu.
Um leið og þessum málum verður komið í farveg í anda Sigga Palestínu munu "bílatöffarar" ekki lengur hafa neina verjanlega ástæðu til að halda uppi ónæði og valda hættu á götum borgarinnar.
En fyrst ekkert hefur þokast í meira en hálfa öld er ég farinn að halda að þessu "ólíðandi ástandi" muni verða viðhaldið Í öld eða jafnvel aldir með sama aðgerðarleysi og hefð hefur verið fyrir svo lengi sem elstu menn muna.
Ólíðandi hegðun bílatöffara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Einmitt, Ómar. Það er lögreglan sem klikkar í þessum málum. Vel má vera að fáliðað sé á þeim bæ, en það afsakar ekki að árum saman sé hægt að hunsa ástand algjörlega.
Hitt er svo annað mál, að ungir ökumenn ættu að geta gert sér í hugarlund hversu óvarlega og af hve mikilli ónærgætni þeir haga sér. Það er líka umhugsunarefni.
Ég þekki af eigin raun hve lögregla getur verið aum við skyldustörf sín, en sem betur fer bý ég ekki lengur við það ástand að vera upp á þeirra náð komin með að fá nætursvefn.
Anna Dóra Gunnarsdóttir, 8.4.2012 kl. 23:29
Það er alrangt að lögreglan og borgaryfirvöld hafi hunsað þetta ástand árum saman. Alrangt!. Ég starfa í lögreglunni og höfum við farið ótal ferðir þarna vestur eftir vegna ástandsins sem þarna skapast oftast seint á kvöldin. Þarna hafa menn verið kærðir fyrir fjölda umferðarlagabrota, gómaðir við reykspól, svigakstur og hraðakstur ofl. Þá hefur komið fyrir að notaðir hafa verið ómerktir lögreglubílar til að fylgjast með ástandinu og þannig hefur tekist að standa þá "verstu" að verki. Þá hefur borgin þrengt Fiskislóðina með umferðareyjum og sett upp hraðahindranir þar og hefur það orðið til þess að minnka til muna spyrnuakstur í götunni sem var mjög vinsæl iðja í götunni fyrir breytingarnar með tilheyrandi hávaða sem barst um vesturbæinn.
Um árabil hefur ungt bílaáhugafólk safnast saman á bílastæðum fyrirtækja við Fiskislóð, þó aðallega við Krónuna. Sumir stunda reykspól á bílastæðunum og í hringtorgunum við Ánanaustin og aðrir fara út á Ánanaustin til þess spyrna og gefa í botn og halda svo áfram hraðakstrinum eftir Hringbrautinni. Lögreglunni hefur borist fjöldi tilkynninga um hraðakstur og hávaða frá ökutækjum þeirra ungu manna og kvenna sem fara á Fiskislóðina. Lögreglumenn hafa farið í fjölda eftirlitsferða þarna vestur eftir og sinnt þessu verkefni vel og hefur ásandið batnað til muna.
Ólafur (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 07:54
Ómar það er tvennt sem ég segi og annað er spurning til þín.
Hefur þú aldrei gert neitt svona á bíl? ( ég hef heyrt að þú sért nokkuð vígalegur á flugvél)
hitt er þetta er ungt og leikur sér !!!!
kv. Jón Gunnar
Jón Gunnar (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 09:45
Geta þessir menn ekki sjálfir sýnt frumkvæði og nýtt alla þessa "hæfileika sýna og færni" til að verða sér útum um aðstöðu sem hentar, hvort sem þeir þyrftu að byrja einhvern rekstur, þrýsta á yfirvöld eða bæði. Þeir vita vel að þeir eru að raska ró íbúa í nágrenninu. Hvernig er það yfirvöldum að kenna að þeir halda því áfram? Hljómar mjög meðvirkt. Þetta eru ekki viljalausir óvitar eða smábörn sem skilja ekki að það sem þeir eru að gera hefur áhrif á aðra. Þeim er bara alveg sama.
Loftur (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 16:38
Þetta tal um að svona hegðun eigi sér rót í skorti á æfingabrautum, er vægast sagt útjaskað og bara út í bláinn.
Það sem um er að ræða, eru faratæki, umferðarmannvirki og lög sem gilda um þetta tvennt; umferðarlög. Ég reikna með að bílstjórarnir séu flestir með bílpróf og eigi að þekkja 4. gr. umferðarlaga. Samkvæmt þessari hegðun á vídjóinu og svívirðilegum hraðakstri á vestast á Hringbrautinni, þurfa þessir labbakútar að fá rækilega yfirhalningu, sitja ökunám upp á nýtt og greiða sektir. Það síðasta sem þeir eiga skilið, er einhver æfingabraut í gjöf frá ríkinu. Enda eru til fullt af slíkum brautum. Ólafur lögreglumaður, gott hjá þér að benda á hvað lögreglan hefur aðhafst. Eitthvað hafa þó íbúar til síns máls, reikna ég með.
OH (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 19:54
Ólafur, ég biðst afsökunar á fullyrðingu minni um hunsun, en það virðist sem mjög langt sé í land með að uppræta ósómann. Þannig kemur það mér fyrir sjónir, því að svona hegðun eins og sést á myndbandinu nær laaaangt út yfir allt sem manni finnst ásættanlegt.
Auðvitað er hegðun þessara ungmenna ekki sök lögreglunnar, en það er ljóst að miklu stærri aðgerða er þörf til að sporna við henni. Ég veit líka að ekki er hægt að gera allt sem gera þarf, til þess eru bara ekki til nægir peningar, en þá er þetta spurning um forgang. Og um hann get ég ekkert dæmt, en finnst hann samt stundum undarlegur.
Anna Dóra Gunnarsdóttir, 9.4.2012 kl. 22:05
Jón Gunnar, ég þekki þetta frá öllum áttum frá því að ég var ungur og átti afar skemmtilegum örbíl, sem var nokkurs konar GTI bíll þess tíma, og Jón bróðir var hörku skellinöðrumaður.
Ég fór í góðakstra og síðar í rall og hef auðvitað gert heilmikið á svona bílum frá fyrstu tíð.
Það var hins vegar mikill munur að geta tekið þessa gæðinga til kostanna utan við almenna umferð og þess vegna er ég að blogga um þetta.
Ómar Ragnarsson, 9.4.2012 kl. 22:13
Loftur ekki sé ég að meirihluti boltaíþróttamanna á Íslandi þurfi að nýta neina "hæfileika og færni" til að geta iðkað sýna íþrótt í friði, enda allt of mikið af völlum fyrir þá til að leika sér á og lítið að gera annað en mæta og spila. Ég vil benda á að það eru til tvö 'leiksvæði' á höfuðborgarsvæðinu, önnur brautin er bara beinn kafli (Kvartmílubrautin) og hin inniheldur nokkrar beygjur og er ætluð fyrir go-kart bíla en hefur verið notuð í brautarakstur fyrir almenna bíla þrátt fyrir að vera töluvert takmörkuð sem slík. (Brautin við Krísuvíkurveg)
það er fjöldinn allur af fólki sem vill berjast fyrir betri aðstöðu, en eins og viðhorfin eru í dag er það eins og að pissa upp í vindinn.
Kjartan Jónsson (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 22:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.