Það er mannlegt að gera mistök.

Einar Magnús Einarsson er geðugur, ungur og myndarlegur maður og allt gott um hann að segja.

Hann var í sínu fínasta pússi í kvöld og var fallegur fyrir framan veðurkortið. Mér er sagt að stelpurnar njóti þess að sjá hann á skjánum og vilji alls ekki missa hann af honum. 

En hæfileikum okkar allra er misskipt og ég hef um nokkurt skeið ekki verið viss um að veðurfréttamennskan sé nákvæmlega það sem lliggi best fyrir Einari Magnúsi.

Því veldur eitthvert óöryggi og hnökrar sem erfitt er að leyna. Mig grunar að hann hafi ekki fengið þá tilsögn og leiðbeiningar sem þarf til að bæta sig, en það er nauðsynlegt til að öðlast aukið sjálföryggi og vellíðan hans sjálfs, sem smiti síðan út frá sér til okkar allra.

Einar Magnús hefur vanið sig á að tönnlast á orðunum "við sjáum" eða "eins og þið sjáið" og ég hef verið að gera það að gamni mínu að telja hve oft hann segir þær í hverjum fréttatíma.

Eitt sinn sagði hann "eins og þið sjáið" 16 sinnum í sama veðurfréttatímanum og hefur aldrei sagt þetta sjaldnar en fimm sinnum í senn.

Þessari síbylju er alveg ofaukið og þarf ekki marg taka það fram að þetta sé eins og við sjáum, því að þetta er jú sjónvarp. 

Hann talar aftur og aftur um hluti eins og  "á Vestfjörðunum" og "á Austfjörðunum", nú síðast í kvöld og virðist ekki hafa það vald á máli og málkennd sem nauðsynlegt er.

Einnig má heyra skrýtnar setningar eins og "á suðvestanverðu horninu" og maður spyr sig: Á suðvestanverðu hvaða horni?

Þetta ber ekki vott um þroskaða málkennd og þetta þyrfti að laga og þjálfa hann upp, svo hann geti notið sín og skilað sínu vel og hnökralaust.  

Nóg um það.

Það sem kom fyrir í kvöld var hins vegar nokkuð sem komið hefur fyrir alla sjónvarpsmenn og kvikmyndaleikara þegar atriði eru upp fyrirfram. Eitthvað fer úrskeiðis í frásögninni og vegna þess að upptakan er gerð fyrirfram bregst viðkomandi við því á svipaðan hátt og Einar Magnús gerði í kvöld.

Það var fullkomlega eðlilegt hjá honum, úr því sem komið var, að frussa svolítið og gefa ákveðið til kynna að þarna hefði verið tungubrjótur á ferð og best að byrja upptökuna aftur.  

Alla jafna gerir þetta ekkert til. Upptakan er bara stöðvuð vegna smávægilegra mistaka, byrjað að taka upp á nýtt og málið er dautt, - fyrri upptökunni eytt.

En því miður voru mistökin ekki lagfærð á þennan hátt í kvöld, heldur gerðu þeir sem tóku veðurfréttirnar upp, mistök sem birtust á skjánum á þann hátt, að fyrst birtist upphaflega upptakan, sem endaði með eðlilegum viðbrögðum Einars Magnúsar og þá fór allt í steik.

Þá kom ótrúlega löng svört og hljóðlaus mynd, en inn á milli heyrðust einstök orð Einars á stangli jafnframt því sem "Afsakið hlé" - skiltið birtist oftar en einu sinni og hvarf jafnharðan.

Og loksins þegar hinn rétti pistill Einars Magnúsar fór í loftið, vantaði framan á hann þegar hann heilsaði fólkinu.

"Errarum humanum est" segir latneskt máltæki, þ. e. að það er mannlegt að gera mistök.

Einar hafði ekkert með það að gera að eingöngu tæknilegu mistökin urðu til þess að misfellurnar birtust og allt fór í steik.

Að þessu leyti á Einar alla samúð mína.  

En mistök geta verið nauðsynleg til þess að hægt sé að læra af þeim og þau geta þar að auki gefið smá léttleika og bros í tilveruna eins og í kvöld.  

 

 


mbl.is Veðurfréttamaður RÚV vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorkell Guðnason

Einar Magnús var þarna fórnarlamb tækniklúðurs og á alla mína samúð.  Fellst hinsvegar alveg á það sjónarmið þitt Ómar, að tilsagnar og þjálfunar sé full þörf. 

Þorkell Guðnason, 8.4.2012 kl. 23:37

2 identicon

Orðið "landið/landinu" er einnig of notkað.

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 00:27

3 Smámynd: Gunnsteinn Þórisson

Gaman að sjá hvernig hann höndlar þetta samt, smá pirringur en heldur áfram. Aðrir hafa flipast á sama hátt en blóta að sama skapi í myndavélina og hvæst á samstarfsfólk, það lítur ekki jafn vel út.

Hann fékk fólk til að brosa og það hefur eitthvað til að tala um, fínustu mistök bara.

Gunnsteinn Þórisson, 9.4.2012 kl. 01:08

4 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Stærstu mistökin eru tæknimana, en sveifla Einars undir lokk þeirra mistakka er skemmtilegust.  Sýnist vera glaðlegur umburðalyndur piltur  sem á stundum líður tæknimönum glennur. Ég hélt reyndar að agi ætti að ríkja í upptökusal.

Leiðast er hinsvegar tækniklúðrið þar á eftir, eða þar til þessum þumalputta tækimönnum tekst að koma rétta efninu í loftið á vitlausum tíma.   

Menn vita oft ekkert af kækjum sínum, en svo er að sjá sem veðurfrétta menn þurfi algerlega einir og óstuddir að finna sin stíl sjálfir. 

Leiðastir eru þó hinir öskrandi íþróttafrétta menn, jafnvel leiðari en öskrandi auglýsinga menn.  

Fagmennska verður ekki til án tilsagnar.  Maður getur ekki einu sinni orðið hagfræðingur til að hafa vitlaust fyrir sér öðruvísi enn að fara í gegn um háskóla.     

Hrólfur Þ Hraundal, 9.4.2012 kl. 08:54

5 identicon

Einar er fínn og stendur sig vel. Hlakka alltaf til að sjá hann!

Það er hins vegar manneskja þarna sem mætti alveg missa sig.

Gaman væri Ómar að þú tæki þig til og teldir hversu oft hún segir "landinu okkar" eða "hjá okkur" í einum veðurfréttatíma. Ég þori að veðja að það er ekki sjaldnar en þetta "eins og þið sjáið" hjá Einari - og miklu hvimleiðara.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 09:05

6 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Mannlegur, jákvæður og óþvingaður veðurfréttamaður, þessi Einar Magnús .

Minnir mig á Trausta Jónsson, fyrir nokkrum áratugum síðan, þegar hann sló á létta strengi í veðurfréttum sjónvarpsins. Því miður höfðu ekki allir húmor fyrir hans skemmtilegu framkomu, en það hafði ég.

Hvernig væri að birta frétt um hverjir voru tæknimennirnir, sem raunverulega gerðu mistök, sem Einari Magnússyni Einarssyni er síðan kennt um, og látið líta út eins og mistökin séu hans?

Hver ber höfuð-ábyrgðina á mistökunum, og eru þeir menn til að taka mistökum sínum jafn létt og Einar Magnús gerði?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 9.4.2012 kl. 09:13

7 identicon

Áfram Einar Magnús!

Baldurkr (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 11:47

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mistök eru til þess að læra af þeim og allir eru mannlegir. Refsigleði í formi nafnbirtinga er óþörf fyrir ekki stærri mistök sem þar að auki sköðuðu ekki nokkurn mann heldur lífguðu upp mesta gleði-hátíðisdag trúar fagnaðarerindisins.

Sumir verða að sætta sig við það að þeir hafa tekist á hendur störf sem eru þess eðlis, að mistök, sem þeir gera, séu meira áberandi en mistök annarra.

Ég er með slatta í mínu farteski eftir langan feril og stundum tek ég sum þau skemmtilegustu saman og geri að partíatriðum ef svo ber undir.

Ómar Ragnarsson, 9.4.2012 kl. 12:06

9 identicon

Fer það ekki ljómandi vel saman, mistök í útsendingum á misheppnuðum veðurspám.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 13:43

10 Smámynd: Diddi Siggi

Þessi mistök voru ekki á nokkurn hátt Einari Magnúsi ril vansa, miklu frekar var þetta bæði eðlilegt og líka skemmtilegt það á nefnilega ekki allt að vera slétt og felt í sjónvarpi heldur eiga t.d. svona uppákomur alveg rétt á sér bara hluti af lífinu og krydd í tilverunna. Einar Magnús má sýna einhver svona viðbrögð aftur ef ástæða er til og ég kími svolítið meinlaust og allt í góðu.

Diddi Siggi, 9.4.2012 kl. 15:12

11 identicon

Auðvitað er mannlegt að gera mistök, það eru ekki nýjar fréttir.

Reyndar finnst mér alveg óþarfi Ómar að vera að hnýta í Einar Magnús fyrir einhver sakleysisleg orðatiltæki. Það hafa allir sinn stíl eins og þessi skemmtilega kona sem allt "hjá okkur" og önnur góð veðurfréttakona fyrir nokkrum árum sem sagði "semsagt" óteljandi sinnum í hverjum veðurfréttatíma. Allt er þetta fólk aufúsugestir í stofum okkar og hálfgerðir heimilisvinir.

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 18:03

12 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

ég er algerlega ósammála. Einar Magnús er hrein gersemi eins og veðurféttamenn hafa verið hjá RÚV frá 1966.

Ég krefst þess að verðurfrétta menn hjá RÚV verði áfram óþjálfaðir og fái nákvæmlega enga tilsögn.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 9.4.2012 kl. 18:09

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég tek undir það hjá þér, Sigrún, að hver eigi að hafa sinn stíl.

Kristinn R. Ólafsson í Madrid er frábært dæmi um mann sem hefur fullkomið vald á móðurmálinu og nýtir sér það svo að unun er á að hlýða.

Kristinn og hans líkar myndu hins vegar aldrei láta út úr sér sumar af þeim ambögum sem fljúga af munnum margs fjölmiðlafólks.

Hliðstætt myndi aldrei líðast hjá alvöru fjölmiðlum í nágrannalöndunum þar sem gerðar eru lágmarks kröfur um meðferð móðurmálsins og virðingu fyrir því.

Mig grunar að Einar hafi ekki fengið ábendingar um það sem betur má fara hjá honum og minni á orðtakið: Vinur er sá er til vamms segir.

Ómar Ragnarsson, 9.4.2012 kl. 18:18

14 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Skrýtið að kalla þetta veðurfréttir þegar 98% af veðurtímanum fer í veðurspá, og það fyrir utan Íslands.

Pálmi Freyr Óskarsson, 9.4.2012 kl. 20:16

15 identicon

Thetta er veðurfréttamaður eins og ég vil hafa hann, th.e. með karakter, ófullkominn eins og við hin (og stressar sig kannski of mikið á thví). Hef gert mér thað að leik að telja stundum 'landinu'(ath. bara tháguf.) og minnir að thað hafi mest farið í 21

Ari (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 22:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband