15.4.2012 | 08:47
Haffræðingur við störf á þurru landi á degi Titanic.
Jón Ólafsson, haffræðingur, er leiðangursstjóri í ferð vísindamanna inn í Öskju, og kann það virðast skrýtið við fyrstu sýn, að slík sérgrein í náttúruvísindum sé stunduð eins langt frá sjó og hugsast getur á okkar landi.
En ástæðan er einföld. Það er verið að kanna hið 220 metra djúpa Öskjuvatn, en slík dýpt þætti bara býsna mikil við strendur landsins og í fjörðum þess.
Ég hef komið tvívegis í Öskju að vetrarlagi og í bæði skiptin var vatnið ísi lagt eins og eðlilegt er um tært vatn í um 1050 metra hæð yfir sjó.
En nú hefur brugðið svo við að vatnið hefur ekki lagt nema að mjög litlum hluta í vetur og því er það að sjálfsögðu heillandi verkefni fyrir haffræðing að kanna djúp þess og finna út hvað veldur þessari upphitun þess og hvaðan hún kemur.
Veðrið gat í upphafi ekki verið betra fyrir svona leiðangur, heiðskírt og kyrrt, og töfrar Öskju eru einstæðir þegar staðið er þar í návígi við staðinn, þar sem þýsku vísindamennirnir Rudloff og Knebel hurfu í djúp vatnsins 1907 og hafa aldrei fundist síðar.
Í gær var heldur hvasst þar fyrir siglingu á vatninu og erfitt um myndartökur úr lofti.
En í dag er vind að lægja og stundin, sem búast má við síðdegis verður væntanlega enn máttugri en ella með haffræðing á bakka þessa hyldjúpa vatns í fótsporum Rudloffs og Knebels á sama mánaðardegi og Titanic sökk í djúpin fyrir réttum hundrað árum.
Sagt er að andar þeirra séu enn á sveimi og reimt af þeirra völdum víða á þessu svæði, samanber þetta erindi ljóðsins "Kóróna landsins."
Beygðir í duftið dauðlegir menn
dómsorði skaparans hlíta.
Framliðnar sálir við Öskjuvatn enn
sig ekki frá gröf sinni slíta.
Tunglfarar upplifa ósköpin tvenn:
Eldstöð og skaflana hvíta!
Alvaldsins sköpun og eyðingu´í senn
í Öskju þeir gerst mega líta.
Höll íss og eims.
Upphaf vors heims.
Djúp dularmögn.
Dauði og þögn.
Í Gjástykki aðskiljast álfurnar tvær.
Við Heklu´er sem himinninn bláni.
Í Kverkfjöllum glóðvolg á íshellinn þvær.
Í Öskju er jarðneskur máni.
Ísland er dýrgripur alls mannkynsins
sem okkur er fenginn að láni.
Við eigum að vernda og elska það land
svo enginn það níði né smáni.
Seytlar í sál
seiðandi mál:
Fjallanna firrð,
friður og kyrrð,
íshvelið hátt,
heiðloftið blátt,
fegurðin ein
eilíf og hrein.
Athugasemdir
Það eru þvílík flugskilyrði Ómar. Steindautt loft, hlýnandi, og brautir góðar. En það er aðeins skýjað austur um, og bólstrar í smíðum.
Ef þú ert á ferð skal ég gæta að Frúnni, nú eða viðkomandi bílbeyglu ;)
Jón Logi (IP-tala skráð) 15.4.2012 kl. 11:13
Hurru... Ómar...!
Þú flaugst þarna yfir... Sástu eitthvað af jakaburði þarna á bökkunum...?
Haraldur Sig. var að pæla hvort ís gæti hafa fokið af vatninu, og ég var að pæla svipað en ég sá ekkert á myndunum sem voru í fréttunum...
Tókst þú eftir einhverjum jökum á bökkum vatnsins...?
Sævar Óli Helgason, 15.4.2012 kl. 23:52
Sæll Ómar. Gangi þér allt í haginn þarna og ævinlega.
Ég er svolítið öfundsjúk, þó að
ég hafi gengið bæði rangsælis og réttsælis kringum Öskjuvatn.
"Ísland er dýrgripur alls mannskynsins
sem okkur er fenginn að láni"
Þakka þér fyrir Ómar.
Bergþóra Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 16.4.2012 kl. 14:26
Á laugardag var vatnið alautt, enda hvasst og mikill öldugangur. Það er víst hiti í bökkunum þannig að það íshröngl sem þarna var 18. mars er allt horfið.
Ómar Ragnarsson, 17.4.2012 kl. 22:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.