19.4.2012 | 09:19
Að góðu eða illu.
Val á mönnum ársins á ýmsum sviðum er ávallt umdeilanlegt. Mörgum finnst til dæmis það hafa skotið skökku við hjá tímaritinu Time að útnefna illmenni á borð við Adolf Hitler mann ársins 1938 og Stalín var útnefndur nokkrum árum síðar.
Helst eigi að velja eingöngu þá menn sem eru til fyrirmyndar um boðskap og verk.
Time hefur tekið upp þann sið að velja "áhrifamestu" einstaklingana og þar með losnar tímaritið við það að leggja mælikvarða á það hvort þessi áhrif teljist til góðs eða ills.
Ef þessi mælikvarði er lagður á þá Hitler og Stalín árin 1938 og 1943 voru þeir sannanlega áhrifamestu einstaklingar heims þessi ár, einkum Hitler 1938.
Á því ári lagði hann Austurríki undir Þýskaland án þess að hleypt væri af skoti og vafði ráðamönnum Bretlands og Frakklands um fingur sér í samningunum í Munchen þar sem honum voru færð Súdetahéruðin í Tékkóslóvakíu á silfurfati.
Í árslok það ár trúðu flestir því sem Chamberlain forsætisráðherra Bretlands sagði við heimkomuna frá Munchen um leið og hann veifaði pappírsblaði með samningi hans og Hitlers, að friður í Evrópu væri tryggður "á okkar tímum."
Sá friður stóð í aðeins eitt ár.
Ég tel því að val Time á manni ársins 1938 hafi verið rétt, hvort sem hin miklu áhrif og velgengni Hitlers voru til góðs eða ills.
Á sama hátt verður það niðurstaða mín hér heima, að stjórnmálamaður síðustu aldar hér á landi var Jónas Jónsson frá Hriflu "for good or worse" eins og sagt er á útlendu máli. Var hann þó aldrei forsætisráðherra og aðeins ráðherra í tæp fjögur ár.
Jónas var sá íslenskur stjórnmálamaður sem þegar á miðjum öðrum áratug síðustu aldar greindi rétt óhjákvæmilega þróun íslenskra stjórnmála úr því að vera deilur um sjálfstæðismálið yfir í það að líkjast átökum í öðrum löndum um þjóðfélagsmál og samfélagsgerð.
Hann átti manna mestan þátt í að leggja árið 1916 grunn að því flokkakerfi sem við búum við enn í dag.
Hann hafði mikil áhrif á framkvæmdir og stefnu í menntamálum og var fyrstur manna til að greina rétt þau óhjákvæmilegu áhrif sem engilsaxnesku þjóðirnar Bretar og Bandaríkjamenn myndu hafa út öldina og að Íslendingar ættu að haga utanríkisstefnu sinni í samræmi við það.
Jónas var eini íslenski stjórnmálamaðurinn sem fór gagngert að minnsta kosti einu sinni á ári hverju til útlanda til að víkka sjóndeildarhring sinn og sýn á stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna.
Á hinn bóginn töldu margir hann afar þröngsýnan og óraunsæjan varðandi sýn hans á íslenskan smábændabúskap í gömlum stíl og dæmalaust verður að teljast þegar hann vildi útrýma nýjum straumum í listum og menningu sem féllu ekki að hans smekk, meðal annars með því að láta á ríkisins kostnað halda sýningu á óæskilegum listaverkum.
Jónas var oft illskeyttur í deilum og óvandur að meðulum. En um áhrif hans á íslensk stjórnmál á síðustu öld verður varla deilt.
Svo litið sé til nýlegri og nærtækari varðandi val á manni ársins tel ég að það hafi verið rétt hjá fréttastofu Stöðvar tvö, þrátt fyrir gagnrýni á það val, að velja Ólaf Ragnar Grímsson mann ársins hér á landi 2011.
100 áhrifamestu einstaklingarnir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.