20.4.2012 | 08:36
"Djúp dularmögn..."
Alþekkt er það fyrirbæri að tært vatnið í gjánum á Þingvöllum leggur aldrei. Þetta þótti lengi vel mjög dularfullt og Askja býr yfir miklum dularmögnum.
Myndirnar, sem ég hyggst setja inn á þennann bloggpistil, voru teknar í ferð uppeftir síðastliðinn sunnudag.
"Það er allt dularfullt hér", sagði Jón Ólafsson við mig þegar ég spurði hann þarna uppfrá síðstliðinn sunnudag hvort hér væri að endurtaka sig jafn dularfullt fyrirbæri og það þegar þýsku vísindamennirnir Rudloff og Knebel hurfu þar sporlaust 1907.
Eftir að ég gerðist flugvallarbóndi á Sauðárflugvelli nokkru austar fyrir átta árum hef ég fylgst náið með veðrinu á svæðinu, en þarna eru fjórar veðurstöðvar, við fjallið Upptyppinga sem er nokkru austar, við Kárahnjúka, nyrst á Brúarjökli og loks ein, kennd við Brúaröræfi, aðeins um tvo kílómetra frá flugvellinum.
Hér er horft til fjallsins Upptyppinga á bakaleiðinni.
Í vetur hefur verið mjög afbrigðilegt veðurfar á svæðinu og mest á þann veg, að vikum saman hafa blásið þar hvassir og tiltölulega þurrir vestan- og suðvestanvindar.
Þetta tímabil stóð alveg frá lokum nóvember og fram undir mars. Á suðvestanverðu landinu var óvenju snjóþungt af þessum sökum, en jöklarnir Hofsjökull og Vatnajökull sáu til þess að rífa úrkomuna úr loftmassanum svo að á norðausturhálendinu var lítil úrkoma.
Þetta sést vel í nyrðri hluta Herðubreiðarfriðlands þar sem enginn snjór er á sléttu landi, heldur einungis í lægðum, slóðum og utan í brekkum.
Þar sem gas streymir upp af 80 m dýpi i vatninu er venjulega vök lengst af á veturna, og þessi vök var óvenju stór í vetur og þegar vindarnir blésu dögum og vikum saman sá öldurótið í henni til þess að brjóta niður ísinn í kringum hana uns vatnið var að mestu autt 18. mars og síðan alveg autt í hálfs mánaðar hlýindakafla um daginn.
Ekki var örðu af ís að sjá lengur á vatninu þegar flogið var yfir það síðastliðinn laugardag og öldurótið var um allt vatnið. Á loftmyndinni er horft yfir Víti og norðausturhorn vatnsins.
Hafi jarðhitinn og/eða gasuppstreymið aukist eitthvað lítillega gæti það ásamt afbrigðilegu veðurfari verið skýringin á því að vatnið sé autt, þótt vísindamenn finni engin merki um að aðdraganda eldsumbrota eins og er.
Engar stórkostlegar breytingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.