Stundum er samfélag okkar of lítið.

Það var að sjálfsögðu stórt skref í sjálfstæðisbaráttu okkar Íslendinga og mikið framfaraspor í þjóðlífi okkar þegar Hæstiréttur Íslands var settur á stofn 1920. En enda þótt illt væri við það að búa fram að því að hafa æðsta dómsvaldið ekki innanlands var það ekki alltaf alvont að geta vísað málum til fjarlægs dómstóls.

Ástæðan var sú stundum var samfélag okkar of lítið og hagsmunirnir of þröngir til þess að hægt væri að útkljá sum mál á fullnægjandi hátt innanlands.

Ekki þarf annað en að blaða í gegnum allan þann óhemju málarekstur sem stundaður var innanlands á milli stríðandi valdahópa til að sjá hvernig mál gátu bjagast vegna þrýstings og þvingunar frá valdamilum mönnum og hópum sem tókust á í fjármálum og stjórnmálum.

Í gegnum aldirnar kom Hæstiréttur Danmerkur oft í veg fyrir að ranglátir dómar næðu fram að ganga, og í sumum tilfellum í veg fyrir dómsmorð.

Eitt síðasta dæmið voru Skúlamálin svonefndu fyrir rúmum hundrað árum þar sem sterk stjórnmálaöfl tókust á og gerðu erfitt um vik fyrir hið innlenda dómsvald að kveða upp sanngjarna dóma.

Hæstiréttur Danmerkur gat litið yfir málið úr hæfilegri fjarlægð án nokkurs þrýstings.

Í aðild okkar og fleiri þjóða að mannréttindadómstóli Evrópu felst að sönnu afsal fullveldis að því leyti sem dómstólinn kveður upp endanlegan úrskurð í dómsmálum.

En margt af því tagi hefur orðið til góðs, jafnvel þótt það hafi orðið til þess að við höfum orðið að breyta dómskerfinu.  En það gerðum við á til dæmis á sínum tíma þegar lögð var af hin gamla skipan að sami maður, sýslumaður,  stæði fyrir því að rannsaka, ákæra, dæma og fullnægja dómum sínum.

Nú dytti engum í hug að taka aftur upp hið gamla kerfi.

Það hefur stundum verið áleitin hugsun hvernig hæstiréttur Danmerkur hefði dæmt í Geirfinns- og Guðmundarmálunum fjarri þeim gríðarlega þjóðfélagslega þrýstingi á þeim tíma sem heimtaði harða dóma.

Sá þrýstingur lýsti sér í orðum þáverandi dómsmálaráðherra þegar hann sagði við uppkvaðningu dómanna að þungu fargi væri létt af þjóðinni.

Ég tel þvert á móti að þungt farg muni hvíla á þjóðinni þar til þessi mál verði tekin upp að nýju og endurskoðuð á einhvern hátt.

En við erum svo lítið þjóðfélag og tengsl okkar hvert við annað svo náin, að hugsanlega þurfa allir, sem voru uppi á tímum þessara mála, að vera komnir undir græna torfu til þess að hægt verði að útkljá þau úr hæfilegri fjarlægð.


mbl.is Ísland gott dæmi segir Ögmundur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ómar. Það hvílir enn þungt farg á almenningi í sambandi við Guðmundar og Geirfinnsmálið, vegna þess að auðveld dómsmorðs-leið yfirvaldsins var farin.

Ég staldra við það mál, í verklagi dómstóla, og samstarfinu við þýskan mann í úrskurði þess máls! Hann á að hafa sagt, eftir sína leikara-sýndarheimsókn til Íslands í sambandi við það mál, að hann væri búinn að bjarga ríkisstjórn Íslands!

Er þetta rétt?

Og hvað meinti þessi þýski maður, ef þetta er rétt? Og hver stjórnaði þessari atburðarrás og niðursstöðu? Og hvaða einstaklinga var verið að verja, með þessu hræðilega dómsmorði á ungu og kerfissviknu fólki?

Og hver voru eiginlega tengsl þessa manns við íslensku ríkisstjórnina? Og hvers vegna kom hann hingað til að búa til falskan og svikulan endi á þetta mál?

Hvernig tengdist Þýskaland og Danmörk Íslandi þá, og svo nú?

Þetta eru bara hugboðs-spurningar mínar, með óútfylltum eyðum inn á milli, sem ég viðra hér á þinni síðu, vegna þess að ég veit að þú þekkir smáatriðin svo vel. Þú ert réttlátt hugsandi maður, sem allt of lítið hefur verið hlustað á í gegnum tíðina, miðað við hvað þú hefur sagt mikið og oft satt, öfugt við þöggunar-svikafjölmiðlaklíkuna ríkiseinokuðu, valdamiklu og ráðandi.

Við þurfum öll að hjálpast að, til að komast til botns í málunum, og finna út hvað þarf nákvæmlega að leiðrétta, og ekki síst að segja öll frá okkar hugboðum og ræða þau, til að finna réttlátar og vitrænar lausnir.

Heimurinn er allur samtengdur, og verður að standa saman að friðsamlegum og mannúðlegum lausnum.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 20.4.2012 kl. 21:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband