29.4.2012 | 21:17
Gengur seint að endurmeta 18. öldina.
Jónas Jónsson frá Hriflu var stjórnmálamaður 20. aldarinnar á Íslandi að mínu mati. Hvað stöðu landsins í samfélagi þjóðanna varðaði var hann víðsýnni er aðrir og á undan samtíð sinni.
En Íslands söguna, sem hann skrifaði til þess að margar kynslóðir aldarinnar fengi rétta mynd af sögu þjóðarinnar, skrifaði hann greinilega út frá afar þröngu sjónarhorni sjálfstæðisbaráttunnar sem skóp flokkaskipan Alþingis allt fram undir það að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki 1918.
Fyrir bragðið er myndin sem hann dregur upp af einveldistíma Danakonungs, einkum á 18. öld, mjög skökk.
Á tímum hinna "menntuðu einvalda" gat engin þjóð í þeirri stöðu sem Ísland var, verið sjálfstæð.
Spurningin snerist aðeins um það hvaða "herraþjóð" réði yfir Íslandi.
Þegar Íslands saga Jónasar er lesin er gefin sú mynd af einveldistímanum að það hafi verið mesta ógæfa Íslendinga að lenda undir járnhæl Dana.
Á síðustu áratugum hafa ýmsir íslenskir og erlendir sagnfræðingar tekið þessa mýtu til bæna og komist að þeirri niðurstöðu, að þessu hafi verið þveröfugt farið; - Íslendingar hafi fengið illskásta einvaldinn yfir sig.
Ef við hefðum haft enskan eða þýskan konung hefðum við ekki komist upp með að halda þjóðtungu okkar né heldur því að "íslenski aðallinn", stórbændur, embættismenn og prestar nyti meiri forréttinda en nokkur sambærileg yfirstétt í Evrópu.
Í Danmörku fengu synir aðalsmanna fríðindi til náms við háskólann, en í staðinn voru feður þeirra skyldir til að skaffa þá til herþjónustu fyrir stríð konungsins.
Á íslandi fengu synir yfirstéttarmanna sömu fríðindi en voru ekki skikkaðir til herþjónustu.
Enn í dag fá synir þeirra Íslendinga, sem voru einhvern tíma þegnar Danakonungs, viss fríðindi við danska háskóla og hefur einn sona minna notið þess.
Erfitt er að sjá að undir öðrum konungi hefði foringi sjálfstæðisbaráttunnar verið haldið uppi af stjórninni sem hann barðist gegn! Og að sjálfstæðisbaráttan hefði ekki kostað eitt einasta mannslíf.
Eða að nokkur önnur þjóð hefðu afhent verðmæti á borð við handritin. Þarf ekki annað en að skoða helstu söfn Breta og Frakka til að sjá dæmi um hið gagnstæða.
Aðalástæðan fyrir því að Danir héldu Jóni uppi var að vísu sú að vegna yfirburða þekkingar sinnar á íslenskum og dönskum menningararfi var hann Dönum nauðsynlegur fyrir Dani í togstreitu þeirra við Svía í samræmi við það sem Pétur Gunnarsson bendir á í viðtali sínu vegna sjónvarpsþáttanna um 18. öldina á Íslandi.
Nú síðast fyrir nokkrum dögum sagði viðmælandi minn einn það Dönum til hnjóðs að Danir hefðu ætlað að koma Jóni á kné með því að gera hann gjaldþrota.
Mér þykir þó líklegra að það, hve Jón hélt sig ríkmannlega og eyddi miklu fé í risnu vegna þjónustu við landa sína, hafi valdið því að hann stefndi í gjaldþrot, sem enskur vinur hans fékkst til að afstýra með því að hlaupa undir bagga hjá honum.
Niðurstaða sænsks sagnfræðings, sem skrifaði bókina "Fran kung til almuge" er sú að hvergi í nokkru landi Evrópu hafði einvaldskonungur jafn lítil völd og á Íslandi.
Á Íslandi áttu innan við 10% bænda allar bújarðir og yfirstéttin gerði allt sem hún gat til að standa í vegi fyrir framförum á borð við betri hafnir og skip og myndun þéttbýlis við sjóinn.
Leidd hafa verið að því rök að þetta hafi kostað Íslendinga meira en dönsk einvaldsstjórn og arðrán Dana.
Það er ekki lengra síðan eimdi enn af þessu, að Þorfinnur afi minn varð að fara alla leið austan úr Skaftafellssýlu um óvegi og óbrúaðar ár til vermennsku á Suðurnesjum og síðan til baka til að láta húsbónda sinn hafa afraksturinn að mestu.
Ekki er að efa að þetta hefur haft þau áhrif á hann að verða harður verkalýðssinni og sósíalisti.
Hvergi er í Íslands sögunni, sem kennd var svo lengi, minnst á landsnefndina svonefndu, sem Kristján 7. Danakonungur stofnaði um 1770 til að snúa þeirri þróun við að Íslendingum fækkaði á sama tíma sem Norðmönnum fjölgaði stórlega.
Norðmaður var skipaður formaður nefndarinnar til að tryggja óhlutdrægt starf, nefndin fékk skipunarbréf með tíu atriðum til umbóta, sem skoða ætti, og Íslendingum gafst kostur á að senda inn tillögur og ábendingar. Á annað þúsund slíkar bárust.
Niðurstaðan varð sú að nánast ekkert af þessum atriðum komst í framkvæmd, ríkjandi yfirstétt Íslands sá til þess.
Þegar Baldur Hermannsson gerði sjónvarpsþætti sína, "Þjóð í hlekkjum hugarfarsins" urðu bændur honum ævareiðir og ásökuðu hann um bændaníð.
Hið rétta var að Baldur var að reyna að rétta hlut yfir 90% kúgaðra bænda og "níð" hans sneri aðeins að örlitlum minnihluta þeirra sem kúguðu hina.
P. S. Eftir að ofangreindur pistill var ritaður horfði ég á fyrsta þátt Péturs Gunnarssonar um 18. öldina sem bar hæfileikum hans glæsilegt vitni. Ekki spillti afar flott og smekkleg útfærsla Björns Björnssonar. Til hamingju. Hlakka til að sjá meira.
Samanburðarleysi háir Íslendingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Aaaaargh... Ómar...!
Nei nú fórstu með það... Jónas frá Hriflu var snarklikkaður þjófur, ef ekki snargeðveikur, sem stal sjúkrahúsi Suðurlands kinnroðalaust af konum sem höfðu nurlað saman fyrir byggingu þess og náð að reisa af miklum myndugleik niðrá Eyrarbakka... Það hafði að vísu aldrei náðst að klára bygginguna aðalega vegna vanefnda stjórnvalda... En Jónas sá sér leik á borði, vegna þessara vanefnda, og stal byggingunni og breytti í fangelsið á Litla-hrauni...
Sunnlendingar sáu ekki alvöru sjúkrahús í fjórðungnum í tugi ára vegna þessa þjófnaðar Jónasar sem kvenfélögunum á Suðurlandi, og öðrum sunnlendingum sem lögðu fé til, var svo aldrei bættur...
Að kalla þetta gerpi mikin stjórnmálamann er vafasamt og sýnir, finnst mér, gamaldags þrælslund gagnvart einstaklingum úr stjórnvaldsstétt...
Í mínum huga er Jónas personugerfingur alls þess sem íslenskur embættismaður á ekki að hafa... Sorrý...!
Sævar Óli Helgason, 29.4.2012 kl. 22:16
Þú misskilur þaðá hverju ég byggi það, þegar ég segi að Jónas hafi verið áhrifamesti stjórnmálamaður síðustu aldar.
Það mat mitt byggist ekki á því hvort það hafi verið til góðs eða ills sem hann gerði heldur það að enginn hafði eins mikil áhrif á stjórnmálalifið og þjóðmálin og hann.
Hann var höfuðarkitekt þess flokkakerfis, sem við búum við enn í dag og meðal fyrstu manna til að sjá fyrir hvernig það myndi verða um leið og sjálfstæðisbaráttan hætti að móta þetta kerfi.
Hann var maður framfara í menntamálum og stórhuga á því sviði, og eini íslenski stjórnmálamaðurinn sem fór árlega til útlanda, gagngert til að víkka sjóndeildarhring sinn. þar með var hann fyrstur til að sjá fyrir þann raunveruleika í samskiptum okkar við "engilsaxa" eins og hann kallaði Bandaríkjamenn og Breta" sem síðar urðu að höfuðatriði íslenskrar utanríkismála út öldina.
Jónas var frábær og beittur penni og afburða íslenskumaður.
Þetta var plúshliðin.
En hin hliðin var líka stór. Jónas var oft ósvífinn, illskeyttur og ófyrirleitinn í skrifum sínum og hafði afar þrönga og úrelta sýn á íslenska kosninga- og kjördæmakerfið og æskilegt byggðamynstur á landsbyggðinni.
Hann notaði pennafærni sína ekki alltaf svo að til sóma væri.
Hann var dæmalaust þröngsýnn á þróun nútímalistar og það var engin tilviljun að hann var hrakinn úr stóli formanns Framsóknarflokksins 1944 og lenti eftir það í einangrun í íslenskum stjórnmálum, - heldur ekki tilviljun að Alþýðuflokksmenn gerðu það að skilyrði í stjórnarmyndun 1934 að hann væri ekki ráðherra.
Jónas misnotaði aðstöðu sína sem valdamaður ekkert síður en þeir sem hann hafði gagnrýnt fyrir það og fróðlegt er að horfa á tvö efstu glæsihúsin austan megin við Hofsvallagötu sem þeir reistu yfir sig, Vilhjálmur Þór og Jónas.
Ómar Ragnarsson, 29.4.2012 kl. 22:55
Jamm... Sorrý...?
Ég var kannski aðeins of hvass...
Sævar Óli Helgason, 29.4.2012 kl. 22:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.