2.5.2012 | 11:29
Aðferð til að vekja athygli á málefnum.
Þegar Louis Crossley, þekkt baráttukona í umhverfismálum, kom til Íslands á sínum tíma sagði hún að umhverfisverndarfólk ætti að nota öll tækifæri til að vekja athygli á málefnum sínum, til dæmis með því að bjóða fram umhverfisverndarfólk hvar sem það væri hægt, líka til embættis forseta Íslands.
Dæmi um þetta var þegar Eva Joly bauð sig fram til embættis forseta Frakklands, vissi það fyrirfram að hún ætti ekki minnstu möguleika en taldi það sigur fyrir sig ef hún fengi 5%.
Hún náði ekki því marki en nýtti tækifæri sem annars hefði ekki boðist.
Héðan í frá er við slíkum framboðum að búast hér á landi og geta málefnin, sem vekja á athygli á, verið hin ágætustu sem og frambjóðendurnir.
Varla er þó við því að búast að frambjóðandi, sem notar aulaþýðingu á ensku orðtæki sem kjörorð sitt, geti búist við því að talið verði æskilegt að fela honum að flytja nýjárshugvekju til þjóðarinnar við hver áramót.
Þegar Gunnar Thorodssen flutti fyrsta nýjársávarp sitt sem forsætisráðherra sagði hann: "Vilji er allt sem þarf" og þýðir nokkurn veginn það sama og sagt er á ensku: "Where there is a will there is a way."
Í þessu samhengi þýðir orðið "way" leið, aðferð eða möguleika og ég hélt að setningin "Wilji er allt sem þarf" væri nógu góð.
En nú er svo að sjá sem hún sé ekki nógu fín, heldur þurfi að þýða hið enska orðtak á svipaðan hátt og byrjandi í barnaskóla.
Slíkar aulaþýðingar eru oft notaðar sem grín og kannski á þessi þýðing bara að vera "djók"?
Þar sem er vilji er vegur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.
Svo er hægt að taka djókið og segja eins og frændur vorir : "Alt er muligt for Gud og Danskerne"
Jón Logi (IP-tala skráð) 2.5.2012 kl. 15:11
Eva Joly, græningi og þingmaður á Evrópuþinginu fékk 2% atkvæða í forsetakosningunum að því er ég best veit.Íslenskir græningar, þið kallið ykkur umhverfisverndarfólk hér á Íslandi , sem allir geta að sjálfsögðu kallað sig vegna þess að enginn vill held ég misþyrma náttúrunni, eigið að taka græningja innan ESB ykkur til fyrirmynda og vera í sér flokki í stað þess að vera í öðrum flokkum, sem þið eigið í raun enga samleið með.En kanski þorið þið ekki að sína ykkar rétta andlit eins og Eva Joly gerir.Kanski finnið þið einhverja leið til þess.Þar sem er vilji þar er leið.Þetta er ekki þýðing úr ensku, eða öðru máli.
Sigurgeir Jónsson, 2.5.2012 kl. 15:17
"Vilji er allt sem þarf" er úr Íslandsljóði Einars Benediktssonar:
Þú fólk með eymd í arf!
Snautt og þyrst við gnóttir lífsins linda,
litla þjóð, sem geldur stórra synda,
reistu í verki
viljans merki,-
vilji er allt, sem þarf.
Trúðu á sjálfs þíns hönd, en undur eigi.
Upp með plóginn. Hér er þúfa í vegi.
Bókadraumum,
böguglaumnum
breyt í vöku og starf.
(...minnir mig)
Badu (IP-tala skráð) 2.5.2012 kl. 17:27
"Kannski þorið þið ekki að sýna ykkar rétta andlit eins og Eva Joly gerir".
Jæja, Íslandshreyfingin - lifandi land var fyrsti íslenski stjórnmálaflokkurinn sem hafði umhverfismál sem´aðalbaráttumál sitt og það að vera málsvari umhverfisverndarfólks.
Hún fékk næstum tvöfalt meira fylgi en Eva Joly.
En þótt fylgi af þessari stærð hefði gefið hverjum fjórflokkanna tvo þingmenn höfðu þeir komið í veg fyrir með lögum að þessi atkvæði nýttust með því að setja svo háan þröskuld á fylgi að það féll dautt niður eins og sagt er.
Ómar Ragnarsson, 2.5.2012 kl. 17:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.