Bandaríkjamenn vildu 99 ár 1945.

Árið 1945 fóru Bandaríkjamenn þess á leit við Íslendinga að þeir leigðu þeim þrjú þáverandi herstöðvasvæði til afnota, á Miðnesheiði, i Skerjafirði og í Hvalfirði til 99 ára.

Íslendingar höfnðu þessu nær einróma og þá helst á þeim forsendum að þegar litið væri til reynslunnar af líkum samningum á alþjóðavísu jafngilti leigusamningur í 99 ár eignarafsali lands.

Andstaðan við Magma-samninginn svonefnda snerist meðal annars um það að samningur til 65 ára með ákvæði um önnur 65 ár í viðbót jafngilti afsali á orkuauðlindinni.

Í Evrópu eru orkusölusamningar yfirleitt ekki gerðir nema til 20-30 ára en hér á landi virðast menn enn í því fari að samningstíminn þurfi að vera tvöfalt eða jafnvel margfalt lengri, líkast til til þess að geta boðið betri kjör en bjóðast í öðrum löndum, jafnvel betri kjör en fátækar og frumstæðar þjóðir láta bjóða sér að þurfa að láta af hendi.

Þessi hugsun hér á landi ber keim af því sem tíðkast í þriðja heiminum þar sem örfátækar þjóðir neyðast til að gefa frá sér bæði eignarhald og mestallan eða allan arðinn af starfseminni.

Innfæddir láta sér nægja að þiggja vinnu hjá hinni nýju tegund nýlenduherra en salan á afurð auðlindarinnar miðast við það að sem mestan arð og / eða allan arð af henni hirði hinir erlendu auðmenn eða auðhringir.

Ég og fleiri höfum lengi talað fyrir daufum eyrum fyrir því að við nýtum hin mikla og falda auð, sem ósnortin og einstæð náttúra landsins býr yfir.

Því  hefur verið vísað á bug með því að tala niðrandi um "fjallagrös og lopapeysur" og "eitthvað annað."

Það er umhugsunarefni að þegar erlendur maður með glöggt gestsauga sér þessa möguleika og vill fjárfesta í þeinm kemur annað hljóð í strokkinn.

Þá eru þetta allt í einu orðin "stórkostleg tækifæri fyrir atvinnuuppbyggingu".

Það er mikilll munur á 99 eða 2x65 ára samningi eða 40 ára samningi.

Spurningin er hvort hann sé nógur.

Nú þarf að vanda sig og skoða alla stöðuna vel, ekki síst þá stöðu, að ef fyrirtæki Huang Nubo hefði starfsemi á evrópska efnahagssvæðinu gæti hann í samræmi við EES-samningana keypt Grímsstaði á fjöllum eða leigt jörðina eins og ekkert væri.

Hann gæti hugsanlega búið svo um hnúta að það yrði skúffufyrirtæki á EES-svæðinu sem keypti eða leigði Grímsstaði.

Ég lagði til á sínum tíma að það yrði athugað hvort Nubo keypti minna en 50% jarðarinnar þannig að Íslendingar hefðu tögl og haldir ef á reyndi.

Það yrði í samræmi við þá reglu að erlendir aðilar megi aðeins eiga minnihluta í sjávarútvegsfyrirtækjum.

Sú regla bannar ekki að útlendingar leggi fjármagn í sjávarútvegsfyrirtækin heldur tryggir að Íslendingar eigi ævinlega meirihluta í þeim.

Hún sýnir líka þá hugsun að banna ekki alfarið fjárfestingar útlendinga.

Danir gengu tryggilega frá hnútum við inngöngu í ESB á sínum tíma og fengu inn í sinn samning undanþágu um að þeir sjálfir réðu alfarið eignarhaldi á landi og byggingum á því, svo að það lenti ekki í höndum útlendinga.

Þeir vönduðu sig.

Það þurfum við líka að gera.   


mbl.is Huang vill samning til 99 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Það er ekkert annað, 99 ár. Hvað varð um 40 árin? Það munar miklu á 40 árum og 99. Kínverjinn talar um 99 en Bergur sveitastjóri um 40 eða hvað? Leigusamningur til 99 ára nær væntanlega út fyrir gröf og dauða barna Nubos er nær því að vera eign í raun en "leiga". Hvert er þá raunverulegt markmið Nubo og/eða kínverskra stjórnvalda? Allavega ekki ferðaþjónusta heldur að tryggja aðgang að auðlindum framtíðar eins og Kínverjar gera markvisst í t.d. Afriku. Kínverjinn Nubo fær sem sagt litla putta en heimtar handlegginn allan ef þetta er rétt með hans vilja og skilning. Hvernig væri að vakna af værum blundi þið þarna fyrir norðaustan. Er í lagi að selja sálu og land sitt þessu. Haldið þið virkilega að þetta sé sárasaklaus áhugi á ferðamennsku?

Guðmundur St Ragnarsson, 4.5.2012 kl. 20:43

2 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ómar, ert þú líka kominn með rauðu kúluna á nefið og í netskokkuna? Þegar flokksmaddaman þarf á peningum að halda er allt fallt. Nú ert þú orðinn villiköttur Ómar, með gagnrýna hugsun.

Þegar ég fór að skoða þetta mál, fékk ég fljótlega að heyra það hjá mörgum aðilum að búið væri að taka ákvörðun. Við viljum atvinnuuppbyggingu en ekki vændi. Við köllum eftir stefnumótun. Ef við getum gert sigur-sigur samning við Nubo styð ég hann en enga undirlægju.

Sigurður Þorsteinsson, 4.5.2012 kl. 21:48

3 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Viðbót.

Afskaplega er ég ánægður með innlegg Guðmund St. Ragnarssonar. Tek unir með honum.

Sigurður Þorsteinsson, 4.5.2012 kl. 21:49

4 identicon

Ekki vil ég selja Ísafold. En fjárfesting á Íslandi má ekki dragst lengur, ef landið á að eiga sér viðreisnar von! Opinberar tölur um atvinnuleysi eru rangar. Þar vantar inn í jafnháa tölu og er skráð atvinnulaus, þ.e.a.s. þá sem farnir eru úr landi, fóru í skóla og þá sem fóru að vinna heima.! Ef stjórnvöld eru svona klár í að ljúga með statistik, þá ætti þeim að vera vorkunnarlaust að útbúa leigusamning með öllum fyrirvörum. Tögl og hagldir eru úrelt verkfæri. Heimurinn og samskipti þjóða eru önnur í dag.  Við höldum ekki börnum okkar hér til framtíðar með heimóttarskap og naflaskoðun, heldur með því að treysta undirstöðurnar. Er verið að gera það á Alþingi núna?!

Hrúturinn (IP-tala skráð) 4.5.2012 kl. 21:59

5 identicon

Ekki vil ég selja Ísafold. En fjárfesting á Íslandi má ekki dragst lengur, ef landið á að eiga sér viðreisnar von! Opinberar tölur um atvinnuleysi eru rangar. Þar vantar inn í jafnháa tölu og er skráð atvinnulaus, þ.e.a.s. þá sem farnir eru úr landi, fóru í skóla og þá sem fóru að vinna heima.! Ef stjórnvöld eru svona klár í að ljúga með statistik, þá ætti þeim að vera vorkunnarlaust að útbúa leigusamning með öllum fyrirvörum. Tögl og hagldir eru úrelt verkfæri. Heimurinn og samskipti þjóða eru önnur í dag.  Við höldum ekki börnum okkar hér til framtíðar með heimóttarskap og naflaskoðun, heldur með því að treysta undirstöðurnar. Er verið að gera það á Alþingi núna?!

Hrúturinn (IP-tala skráð) 4.5.2012 kl. 23:02

6 identicon

"Íslendingar höfnðu þessu nær einróma" - hvenær? og hvar?

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 4.5.2012 kl. 23:14

7 Smámynd: Sólbjörg

Kínverjar hlæja dátt núna að heimskustu ríkisstjórn allra tíma. Þeir þurftu ekki annað en rétta okkur eins og smákrakka smá "nammi" í poka í staðin fyrir allt "gullið" sem við eigum.

Sveitastjórnin í Þingeyjarsýslu kann ekki að semja við kínverja, til þess þarf alþjóða samningamenn. Ég krefst þess að við þjóðin fáum að sjá fyrirhugaðan samning og hann verði borin undir hæfa lögfróða menn, ekki pólitískar hækjur.

Sólbjörg, 4.5.2012 kl. 23:19

8 Smámynd: Björn Emilsson

Eru Grímsstaðir eitthvað öðruvísi en Grundartangi og Helguvík. Eru það ekki kínversk fyrirtæki? Eða hvað? Kínverjar hugsa fram í tímann. Þeir hafa þegar gert heimavinnuna. Þetta er bara byrjunin. Satt að segja held ég að Island sé betur komið í samvinnu við Kína, en samruna við ESB.

Björn Emilsson, 5.5.2012 kl. 00:09

9 identicon

Nubo talar um $200 milljóna fjárfestingu á Grímsstöðum sem jafngildir 25 milljörðum. Ef hann nær 50% nýtingu á 100 herbergjum þarf sólahringurinn að gefa af sér 350.000 kr pr. gest til á ná endum saman.

Forsendurnar eru 20% ávöxtunarkrafa á áhættusama fjárfestingu og annar rekstrarkostnað ss laun, vsk og aðföng og aðkeypt þjónusta sem nema 30% af fjárfestingunni árlega.

Þetta er ríflega 10X hærra verð en meðal dvalarkostnaður þeirra sem heimsækja Ísland í dag.

Og á Grimstöðum er hvorki rafmagn, heitt vatn eða nokkrir íbúar innan eðlilegrar vinnusóknar.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 5.5.2012 kl. 00:17

10 identicon

Björn, - Leiga á landi til t.a.m. Bekromal og Alcoa snérist um smá spildur þar sem fyrir lá hvaða starfsemi færi þar fram. Slíku er ekki fyrir að fara um Grímsstaði.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 5.5.2012 kl. 00:20

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Nær einróma" þýðir að aðeins einn íslenskur þingmaður, Jónas Jónsson frá Hriflu, taldi að við ættum að ganga til samninga við Bandaríkjamenn um þetta og fá í staðinn fríverslunarsamning við Bandaríkin.

Ólafur Thors var á þessum tíma bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra í Nýsköpunarstjórninni og að baki höfnunar hans á tilboði Bandaríkjamanna var einróma afstaða allra þingflokkanna.

Bandaríkjamenn gerðu Íslendingum aldrei aftur svona tilboð heldur fóru aðrar leiðir árið eftir með svonefndum Keflavíkursamningi sem var fyrsta skrefið í því að ná þeirri aðstöðu hér á landi sem þeir töldu sig þurfa.

Næsta skref var aðildin að NATO 1949 og þriðja skrefið var varnarsamningur við Bandaríkin og koma hersins 1951.

Rök Jónasar fyrir því að semja við Kana, hugsanlega til styttri tíma, voru þau, að óhjákvæmilegt væri að "Engilsaxar" eins og hann nefndi ætíð Bandaríkjamenn og Breta, myndu þurfa hernaðaraðstöðu hér á landi til langs tíma vegna þess að ný heimsmynd með tveimur risaveldum, Bandaríkjamönnum og Rússum í stað margra stórvelda, myndi hrinda af stað togstreitu á milli þeirra, - baráttu milli vestrænna lýðræðisþjóða og kommúnista, sem nú hefðu fengið Austur-Evrópu inn á sitt áhrifasvæði og myndu halda áfram að stefna að útbreiðslu kommúnismans um allan heim.

Jónas reyndist þarna sannspár og framsýnni um alþjóðamál en aðrir íslenskir stjórnmálamenn, einkum í ljósi þess að árið 1945 voru enn tvö ár þangað til Kalda stríðið byrjaði og þrjú ár þar til að kommúnistar rændu völdum í Tékkóslóvakíu og Berlínardeilan hófst með loftbrú Bandaríkjamanna þangað, en þetta tvennt varð til þess að NATO var stofnað.

Í hönd fóru 60 ár veru Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli og í Hvalfirði, en aðstaðan fyrir sjóflugvélar í Skerjafirði varð strax úrelt.

Ómar Ragnarsson, 5.5.2012 kl. 00:29

12 identicon

Það er langur vegur á milli þess, Ómar, að "Íslendingar höfnðu þessu nær einróma" og svo þess að " einn íslenskur þingmaður, Jónas Jónsson frá Hriflu, taldi að við ættum að ganga til samninga við Bandaríkjamenn um þetta og fá í staðinn fríverslunarsamning við Bandaríkin." Það er þér Ómar Ragnarsson ekki sæmandi að setja fram svona falskar staðhæfingar!

 "Íslendingar höfnðu þessu nær einróma" gefur til kynnað að Íslendingar sem heild, sem þjóð, hafi verið spurðir að þessu alveg sérstaklega! Þetta er afar blekkjandi framsetning og vona ég svo sannarlega að þú viðhafir ekki þessi vinnubrögð að staðaldri! Allt tal um Jónas frá Hriflu í þessu samhengi er þvaður eitt!

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 5.5.2012 kl. 00:38

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Bíddu nú hægur, Guðmundur, áður en þú rengir það sem ég er að skrifa um Jónas frá Hriflu og andstöðu Íslendinga við það að taka tilboði Bandaríkjamanna 1945.

Aðeins ár var liðið frá því að Ísland hlaut fullt sjálfstæði og í öllum fræðibókum og gögnum um þetta mál er rakið, hve ranglega Dreyfus sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, mat straumana í stjórnmálum, þegar hann ráðlagði Bandaríkjamönnum að setja fram þetta tilboð. 

Alls staðar er rætt um það sem mistök af hálfu hans og Bandaríkjastjórnar.

Það er rétt hjá þér að engar skoðanakannanir voru gerðar á þessum tíma og ég man eftir því að afar mínir deildu um þetta, en það var áreiðanlega engin tilviljun að allir þingmenn nema einn og allir stjórnmálaflokkarnir vildu hafna þessu.

Hvað Jónas frá Hriflu áhrærir ættu heimildir um hann og það sem hann skrifaði í timarit sitt, sem hét "Ófeigur" að sýna þér hve fráleitt það er hjá þér að segja að allt tal mitt um Jónas, skoðanir hans og skrif, sé "þvaður eitt."

Það vill svo til að ég las Ófeig eins og dagblöðin strax og ég varð læs og þú ættir bara að fara og fletta honum og dagblöðunum frá þessum árum upp áður en þú fellir svona dóm. 

Ómar Ragnarsson, 5.5.2012 kl. 01:19

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Því má bæta við, að Bandaríkjamenn höfðu lofað því hátíðlega þegar þeir voru komnir með herlið sitt hingað í stríðinu, að þeir myndi kveðja það allt í burtu þegar í stríðslok.

Þess vegna kom þessi beiðni um þrjár herstöðvar aðeins nokkrum mánuðum eftir stríðslok svo illa við marga og var svo ótaktísk af hálfu Bandaríkjamanna.

Ómar Ragnarsson, 5.5.2012 kl. 01:25

15 identicon

Gott og vel ég kann að hafa tekið full sterkt til orða varðandi þetta atriði, og biðst afsökunar á orðavalinu. En hitt bakka ég ekki með að mér finnst villandi hjá þér að setja þetta þannig fram eins og þú gerir; að segja: "Íslendingar höfnðu þessu nær einróma". Væntanlega lesa margir bloggið þitt, Ómar, og þar á meðal fólk sem er kannski ekkert of vel að sér í sögu, þessi orð gætu fengið það til að halda að hér hefði farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla um málið.

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 5.5.2012 kl. 09:32

16 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þakka þér fyrir þennan drengskap, Guðmundur. Heyri nú í fréttum að lóðarleigusamningurinn við Huang Nubo á að vera til 99 ára en ekki 40, en þessi lægri tala var sú eina sem fram kom í fyrstu hjá fjölmiðlum.

Þar með er tengingin við beiðni Bandaríkjamanna 1945 orðin fullkomin.

Ómar Ragnarsson, 5.5.2012 kl. 13:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband