Erfitt að véfengja þetta val.

Hjólhestaspyrnur sem skila mörkum hafa alltaf verið eftirlæti knattspyrnuunnenda enda er þessi aðferð gerólík öðrum aðferðum við að skjóta á mark.

Þar að auki felst hún í því að taka boltann viðstöðulaust á lofti og skjóta honum á mark, en slíkt er miklu erfiðara en að taka boltann niður, leggja hann fyrir sig og skjóta svo.

Leikmaðurinn snýr baki í markið og sér því hvorki það né markvörðinn. Hann verður að taka á móti boltanum á lofti, oft úr löngum sendingum, og smellhitta hann, sem er afar erfitt í þessari stöðu.

Þar að auki er meiri hætta á að hitta ekki eða að skjóta hátt yfir markið heldur en í öðrum stöðum, sem leikmenn eru í þegar þeir skjóta á mark.

Leikmaðurinn þarf að vera af þessi gerð sem bestu sóknarleikmenn eru, en það er að hafa alltaf tilfinningu fyrir því hvar markið og markmaðurinn er, jafnvel þótt þeir snúi baki í markið.

Síðast en ekki síst þarf leikmaðurinn að vera fljótur og ákveðinn í að taka ákvörðun um að skjóta svona til þess að standa rétt að því og vera búinn afar miklu sjálfstrausti, jafnvel óvenjumiklu sjálfstrausti.

Ef spyrnan heppnast að því leyti að boltinn stefni á markið, er mun erfiðara fyrir markvörðinn að átta sig á því hvert boltinn stefnir en í öðrum tegundum af spyrnum, einkum vegna þess að skotmaðurinn skýlir boltanum með því að snúa baki í markið þegar skotið ríður af.

Hjólhestaspyrnur þurfa því hvorki að vera fastar né stefna í bláhorn til þess að þær rati í netið.

Gott dæmi um það er eitthvert frægasta landsleiksmark Íslendinga, sem skorað var í leik við Austur-Þjóðverja 1975, þegar Jóhannes Eðvaldsson tók við skásendingu eftir eitt af hinum frægu löngu innköstum Guðgeirs Leifssonar.

Á þeim tíma voru Austur-Þjóðverjar með eitt allra besta landslið heims og höfðu gert jafntefli við heimsmeistarana Vestur-Þjóðverja á HM.

Leikurinn á Laugardalsvellinum var ekki vináttulandsleikur heldur niður í undankeppni EM.

Þegar glæsimark Wayne Rooneys er skoðað sést að það er algerlega einstakt. Skotið er firnafast og smellur uppi við vinkilinn í fjærhorninu.

Það eru aðeins örfáir snillingar í knattspyrnu sem geta framkvæmt svona lagað og þótt mörg glæsilmörk hafi keppti við mark Rooneys í valinu á fallegasta markinu í sögu úrvaldsdeildarinnar er erfitt að véfengja þetta val.


mbl.is Rooney á fallegasta markið í sögu úrvalsdeildarinnar (myndskeið)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Að horfa á íþróttir.. rosalega leiðinlegt; hey það er mín skoðun :)

DoctorE (IP-tala skráð) 4.5.2012 kl. 13:19

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Líttu samt sem snöggvast á myndskeið af markinu því arna, sem fylgir mbl.is fréttinni.

Segðu mér svo að það hafi verið "rosalega leiðinlegt".

Ómar Ragnarsson, 4.5.2012 kl. 20:30

3 identicon

Var þetta ekki Jóhannes "Búbbi" Eðvaldsson, "Big Shuggy", sem skoraði fyrir Ísland ???

Hilmar Sigurðsson (IP-tala skráð) 5.5.2012 kl. 00:02

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ó, jú, eða Bubbi eins og hann var kallaður, stóri bróðir Atla Eðvaldssonar.

Ómar Ragnarsson, 5.5.2012 kl. 00:33

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rétt að ég skjóti nafninu inn í pistilinn. Jóhannes og Ásgeir Sigurvinsson voru burðarásar landsliðsins á þessum tíma og samvinna þeirra var oft árangursrík í landsleikjum.

Einkum var fallegt markiði sem Bubbi skoraði í landsleik við Norðmenn úti í Noregi.

Ásgeir sendi eina af sínum snilldar langsendingum, sem seinna urðu frægar í Þýskalandi, á ská þvert yfir völlinn og þar stökk Bubbi hærra en allir aðrir og negldi boltann með skalla í markhornið.

Ómar Ragnarsson, 5.5.2012 kl. 00:38

6 identicon

Val á þessu marki hefur líklega verið áður en Cissé skoraði enn flottara mark fyrir Newcastle í síðustu viku. Sjá hér:

http://www.youtube.com/watch?v=zgmUO77HWa0

Þorfinnur (IP-tala skráð) 5.5.2012 kl. 16:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband