Akureyri og Egilsstaðir njóta ennþá stöðu úthverfa.

Það tekur aðeins 40 mínútur að fara frá Akureyri til Reykjavíkur og klukkstund að fara milli Egilsstaða og Reykjavíkur.

Akureyri er því svipaðri stöðu og Hveragerði eða Reykjanesbær varðandi ferðatíma til höfuðborgarinnar og Egilsstaðir í svipaðri stöðu og Borgarnes varðandi ferðatíma til höfuðborgarinnar.

Atvinnusvæði Reykjavíkur nær frá Borgarnesi suður á Suðurnes og austur að Þjórsá og skiptir það miklu máli fyrir allt fólk á þessu svæði og byggð á því.

Ég get því tekið undir með Alcoa varðandi þýðingu þess að hafa flugvöll í Reykjavík þegar ljóst er að Akureyri og Egilsstaði má taka inn í þessa mynd.

Með því að leggja niður Reykjavíkurflugvöll yrði 20 þúsund manna byggð úti á landi hent út af atvinnusvæði höfuðborgarinnar.

Þótt styttri flugtími sé til Ísafjarðar en Akureyrar og Egilsstaða valda ótrygg flugskilyrði og lokaður völlur mestallt skammdegið því að fólk í Ísafjarðarbæ og Bolungarvík nýtur ekki sömu stöðu og fólkið fyrir norðan og austan.  


mbl.is Alcoa einokar ekki bestu sætin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki hægt að efla sjúkrahús Akureyrar sem bráðamótöku þannig að það þurfi ekki að flytja sjúklinga suður sem gerist of oft, hafa Sjúkrahús Akureyrar tilbúið fyrir allt land og Norð austur Grænland.

Gunnlaugur Hólm Sigurðsson (IP-tala skráð) 6.5.2012 kl. 17:06

2 identicon

Þetta snýst ekki eingöngu um aðgang að sjúkrahúsi, eins og Ómar er að segja er þarna um að ræða ATVINNUsvæði! Ég sæki vinnu 2 daga í viku frá Akureyri til Reykjavíkur og ef flugvöllurinn væri ekki jafnáreiðanlegur og hann er eða ferðalagið myndi lengjast til vinnu í Reykjavík um hálftíma eða meira myndi þetta einfaldlega ekki ganga upp lengur. Dagarnir nýtast illa hvort eð ef eftir að fyrsta flug að norðan er að lenda 9:10 - 9:25.

Tryggvi R Jonsson (IP-tala skráð) 6.5.2012 kl. 17:55

3 identicon

Gunnlaugur Hólm spyr hvort ekki megi efla sjúkrahús á Akureyri fyrir bráðamótöku. Jú, kannski væri það hægt, þótt litlir peningar séu til. En hvaðan eiga læknarnir að koma? Kannski með flugvél frá Reykjavík?  

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 6.5.2012 kl. 19:51

4 Smámynd: Bergur Þorri Benjamínsson

Sjáum nú til, þú eflir ekki bráðaþjónustu á 2 stöðum á landinu að neinu viti. Við erum bara 340.000. Ekki er nema rúmlega 2 tugur manna sem sérhæfir sig í bráðaaðgerðum. Enn færri eru til að mynda sérhæðir í taugaskurðlækningum. Því er það nánast tómt mál sérstaklega á niðurskurðartímum að ætla að byggja um samskonar bráðaþjónustu annarsstaðar en í Reykjavík. Það væri líka mjög dýrt og oft hefðu þeir læknar nánast ekkert að gera....

Bergur Þorri Benjamínsson, 6.5.2012 kl. 21:19

5 Smámynd: Benedikt V. Warén

Bergur Þorri er alveg með þetta á hreinu.

Annað var upp á teningnum þegar læknirinn Dagur B Eggertsson kom á fund um innanlandsflug á Egilsstöðum. Þá hugsaði ég; Það er gott að blessaður maðurinn stundar ekki lækninga, eins og hann er lærður til, hann hefur t.d. greinilega ekki hundsvit á hvað felst í orðinu "bráðaþjónusta".

Annað sem var merkilegt með þennan sérstæða borgafulltrúa, hann sýndi frummælendum og fundarmönnum þá lítilsvirðingu að hoppa inn á miðjan fund, talandi í úreltum gömlum frösum, sem löngu er búið að jarða í umræðunni um Reykjavíkurflugvöll. Það vantaði ekki þetta vall ljúflega út úr honum. Síðan svarað hann hluta af spurningum úr sal í styttingi, útúrsnúningum og með ósannindum.

Endurtek það. Guð sé lof að maðurinn sé ekki starfandi læknir.

Benedikt V. Warén, 6.5.2012 kl. 23:54

6 Smámynd: Björn Geir Leifsson

G.H.S. spyr þeirrar eðlilegu spurningar hvort efling bráðaþjónustu á Akureyri leysi vanda. Svarið er einfaldlega nei eins og B.Þ.B. bendir á. Látið mig þekkja það. Sem skurðlæknir þekki ég vel þann vanda sem B.Þ.B. réttilega bendir á varðandi þjálfun og færni. Það er varla að verkefnin nægi í Reykjavík.

Það sem þarf til að bæta bráðaþjónustuvanda landsbyggðarinnar er að efla verulega þyrlusveit LHG þannig að stórar öflugar þyrlur geti séð um flesta bráðaflutninga. Það er ótrúlega sjaldan sem veður raunverulega hamla notkun þessara risa.

Í ritgerð sem ég skrifaði í sambandi við meistaranám í stjórnun heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu fór ég í gegnum þetta.

Staðreyndin er að við höfum löngum ekki getað sinnt björgunar- og sjúkraflutningaþjónustu okkar við hin gríðarstóru hafssvæði sem við eigum að bera á byrgð á. Akkúrat núna er ástandið viðunandi, þökk sé röggsemi Ögmundar en ekki nóg.

Þyrlurnar þurfa alltaf að geta "tvímennt" út fyrir strendur til dæmis, en það hefur sjaldan verið hægt undanfarin ár og ég þykist vita að þessir frábæru liðsmenn LHG hafa lagt sig í óþarfa hættu fyrir bragðið.

Það sem fæstir gera sér grein fyrir er að mjög mikill skylduflugtími fylgir hverri þyrlu og áhöfn. Þessum flugtíma er yfirleitt reynt að verja í raunveruleg verkefni. Þess vegna víla þeir til dæmis aldrei fyrir sér að sækja lítið slasaða upp á jökul, sem í raun gætu allt eins fengið far með bíl án hættu.

Ég man nú ekki tölurnar en ég sló lauslega á þetta og fann út að fjórar þyrlur myndu geta sinnt nánast öllum bráðaflutningum og vel það. Jafnframt sýndi ég fram á að það yrði til dæmis hægt að koma mun fleirum tímanlega í hjartaþræðingu. Sérstaklega ef þyrlan nú lendir rétt við dyrnar á sjúkrahúsinu. Sjá yrði að sjálfsögðu til þess að læknarnir á landsbyggðinni væru vel í stakk búnir til að meta og undirbúa flutningana.

Ef sveitin væri eins vel búin og hún þyrfti gætu ein eða fleiri þyrlur nánast alltaf verið staðsett úti á landi og stytt þannig viðbragðstímann. Stór hluti af flugtímanum væri sem sagt skylduflugtími hvort eð er.

Flughraði þyrlu er vissulega minni en skrúfuþotu en aðrir kostir kæmu vel á móti. Til dæmis þyrfti sjaldnar að drösla fæðandi konum upp á land frá Vestmannaeyjum í gúmmítuðru vegna veðurskilyrða eins og dæmi eru um.

Þörfin eykst auðvitað verulega á þyrluþjónustu ef olíuvinnsla færi í gang þarna NA af landinu.

Reykjavíkurflugvöllur á að vera áfram þar sem hann er, nema við vijum flytja höfuðborgina til Keflavíkur?

Meginrökin gegn flutningi vallarins eru önnur en sjúkraþjónusta. Rökin fyrir því að troða framtíða spítalabyggingu ofaní Vatnsmýrina eru hinsvegar ekki vera Reykjavíkurflugvallar, en það er svolítið önnur saga.

Björn Geir Leifsson, 7.5.2012 kl. 04:22

7 identicon

Björn Geir er læknir (sem er gott) en ekki flugmaður og því ekki með þá þekkingu á flugi sem þarf. Það er löngu búið að ýta því út af borðinu að hægt sé að stunda almennt sjúkraflug á Íslandi með þyrlum í stað vængjaðra flugvéla.

Helstu ástæður eru veður og kostnaður.

Veðuraðstæður eru slíkar á Íslandi að það er ekki hægt að reikna með því að þyrlur geti flogið í hvaða veðri sem er. Annað er að ef veður er slíkt að þá gæti þyrla, sem flýgur ekki á nema u.þ.b. 55%-65% hraða sjúkraflugvélar, þurft að fara með ströndinni til þess að komast til áfangastaðar. Það mundi lengja flugtímann fram úr hófi og jafnvel verða til þess að þyrlan þyrfti að stoppa á leiðinni til þess að taka eldsneyti sem mundi lengja björgunartímann enn meira. Þyrlur fljúga ekki nema í 10-12 þús. feta hæð. Það er ekki nægileg flughæð til þess að komast yfir veður og ókyrrð. Það getur flugvél hins vegar. Sjúklingar í þyrlu gætu því orðið fyrir verulegum óþægindum á flugi sínu til áfangastaðar. Eða það gæti dregið þá til dauða ef ástand þeirra er alvarlegt fyrir.

Kostnaður við rekstur þyrla er líklega 3x til 4x meiri en rekstur sjúkraflugvélar per flugtíma. Það er því glórulaust að ætla fjársveltri stofnun (LHG) að taka við þvi verkefni að taka yfir sjúkraflug á Íslandi. Fyrir utan það hvað þyrlur eru mikið dýrari í innkaupum en flugvélar. Að auki hef ég heyrt að flugmenn LHG séu nær einróma sammála um það að núverandi þyrlur, Super Puma, séu lang-hentugastar fyrir Ísland. Þær eru nánast ekki til á markaðnum nema í undantekningartilfellum og biðtími eftir nýjum slíkum þyrlum er talinn í árum.

Varðandi þá vinnureglu LHG að „tvímenna“ út fyrir 20 sjómílur þá held ég að flugmenn LHG brjóti ALLS EKKI þá reglu, nánast sama hvað er í húfi. Þá væri komið fordæmi. Mér þætti a.m.k. gaman að sjá tengil á frétt þar sem sú vinnuregla hafi verið brotin. Ef þessi regla er í flugreksturshandbók þá er hún ekki undir neinum kringumstæðum brotin því þá eru vélar og mannskapur ótryggðar meðan verið er utan 20 sjómílna frá landi.

Stjórnmálamaðurinn Dagur B. Eggertsson getur ekki verið sami maðurinn og læknirinn Dagur B. Eggertsson sem sór með Hippókratesareið sínum að gera allt sem í hans valdi stendur til þess að lækna sjúka á sem bestan og fljótastan hátt. Að vilja leggja niður Reykjavíkurflugvöll getur ekki með nokkru móti fallið undir þann eið.

Reykjavíkurflugvelli og umhverfi hans má ekki raska undir nokkrum kringustæðum frá núverandi ástandi. Nema þá til hagsbóta fyrir flug um völlinn, t.d. með því að saga ofan af trjám í Öskjuhlíð eða hreinlega fella þau alveg og eða lengja flugbraut(ir).

Slíkt er grundvallaratriði, bæði hvað varðar atvinnumál Landsbyggðarinnar eins og Ómar kemur inn á og eins vegna sjúkraflugsins.

Nonni (IP-tala skráð) 7.5.2012 kl. 16:00

8 Smámynd: Björn Geir Leifsson

Ekki veit ég hvort ég á að svara "Nonna" sem ekki vill láta nafns síns getið. Finnst óþægilegt og reyni að forðast að eiga orðastað við fólk sem felur sig. En af því að röksemdir hans eru margar rangar eða ýktar og alveg úr takt við það sem ég komst að í minni rannsókn á málefninu þá er best að skrifa nokkrar línur. Því miður er ég ekki með ritgerðina mína við hendina hér í Noregi svo ég get ekki slegið um mig með tölfræðinni. Minninu hrakar.Svo er það sem hann segir líka alveg merkilega líkt því sem hagsmunaaðilar í hefðbundnu sjúkraflugi færðu fram og að mestu leyti var hrakið af því LHG fólki sem ég talaði við. Maður skyldi næstum halda að N hafi viðurværi sitt af núverandi fyrirkomulagi sjúkraflugs?Meginatriðið í því sjónarmiði sem ég held fram er að LHG hefur verið fram úr hófi fjársvelt. LHG hefur ekki getað sinnt hafsvæðunum með sómasamlegu öryggi. Ef LHG ætti að geta sinnt almennilega þeirri raunverulegu skyldu sem á okkur liggur þá þarf amk 4-6 stórar þyrlur. Super Puma eru þær bestu enda vinsælar og illfáanlegar en þær eru ekki ófáanlegar og fleira kemur til greina.  Veður eru oft válynd en ekki meirihluta ársins og mun sjaldnar hamlandi þyrluflugi en maður skyldi halda. Ég ræddi þetta í þaula við LHG fólk og fleiri og varð hissa sjálfur hvað þyrlunum er treystandi í.
Kostnaðinn þurfum við hvort eð er að leggja í ef við eigum að standa okkar plikt með bráðaþjónustu við hafsvæðið sem er risavaxið. Sá mikli skylduflugtími sem til kæmi af boðlega stórri þyrslusveit er það mikill að hann gæti nánast dekkað allt sjúkraflug á Íslandi en ég hef aldrei ætlað mér að halda því fram að svo eigi að vera. Við erum fyrst og fremst að tlaa um bráðaflug. Flughraðann skoðaði ég líka og með hugmyndum LHG um staðsetningu sveitar á NA landi þá falla þau mótrök.
Ég hélt því ekki fram að þyrlusveitin hefði brotið reglur, bara að mig grunaði að þeir hefðu sett sig í meiri hættu en þeir hefðu þurft. Bara það að fara út fyrir ströndina án aukaþyrlu til taks, þó þeir fari ekki út fyrir öryggismörkin skv reglum.
Þetta sem N segir um líðan og hættu fyrir sjúklinga er vel ýkt hjá honum. Hávaðinn í þyrlu er vissulega erfiður en að hossingurinn sé beinlínis lífshættulegur stenst nú ekki.

Svo má ég til með að bæta því við að ég er með svakalega flugdellu svo ég er nú ekki alger örviti í þeim málum þó ég hafi ekki menntun til að slá um mig með því

Björn Geir Leifsson, 7.5.2012 kl. 18:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband