8.5.2012 | 14:40
Hluti af hinum óþægilega sannleika.
Í umsögn Orkustofnunar um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd (réttara væri að segja verndarnýtingu) og orkunýtingu landssvæða segir að markmiðum um sjálfbæra uppbyggingu raforkuframleiðslunnar sé stefnt í hættu með þingsályktuninni.
Í umsögn sem ég vann fyrir Framtíðarlandið og var send inn í gær er allur sannleikurinn sagður, sem sé sá, að grunnforsendur skiptingar virkjanasvæðanna er rangur og áætluð nýting háhitasvæða í hróplegri andstöðu við skuldbindingar okkar Íslendinga í Ríósáttmálaum um að okkar framkvæmdir standist kröfur um sjálfbæra þróun.
Til litils er til dæmis að skilja aðeins eftir aðeins 3 vernduð svæði af 19 á Reykjanesskaganum ef fjögur svæði eru þegar virkjuð og stefnan að virkja sem flest af hinum.
Það þýðir að á þessari öld muni afkomendur okkar standa uppi með kulnuð og ofnýtt virkjanasvæði vegna rányrkju, og telja sig neydda til að virkja afganginn, ekki bara hin þrjú vernduðu svæði á Reykjanesskaganum, heldur líka á svæðum á hálendinu sem nú hafa verið sett í verndarflokk.
Miðað við rannsóknir Braga Árnasonar er þegar komið fram yfir mörk sjálfbærni á Nesjavalla-Hengilssvæðinu og með því að virkja á minnst þremur stöðum í viðbót á svæðinu verður því hraðað að öll orkan verði kláruð.
Sum staðar annars staðar telja vísindamenn liklegt að innstreymið sé hægara og því enn gróflegar gengið fram í rányrkju þar með því að pumpa orkunni upp af græðgi og skammsýni.
Þetta er grátlegt, því að vísindamenn telja að hægt sé að nálgast sjálfbæra þróun endurnýjanlegrar orku með því að fara 3svar til 5 sinnum vægar í sakirnar og fylgjast náið með ástandi svæðins þannig að innstreymi og útstreymi nálgist jafnvægi.
Í staðinn er ætlunin í taumausri græðgi að selja alla þessa fljótteknu orku fyrirfram og láta afkomendur okkar um að glíma við afleiðingarnar.
Sem dæmi um græðgina má nefna að ef gefið verður grænt ljós á Eldvarpavirkjun klárast hinn sameiginlegi jarðhitageymir hennar og Svartsengisvirkjunar allt að tvöfalt hraðar en ella hefði orðið.
Samkvæmt fyrirliggjandi tölum klárast geymirinn á um það bil 30 árum, en orkusölusamningar og arðsemisútreikningar eru yfirleitt miðaðir við lengri tíma þannig að eftir 30 ár þurfi þálifandi Íslendingar að taka á sig tapið og sitja uppi með ónýtt virkjanasvæði og umturnað svæði einstæðra náttúruverðmæta.
Markmiðum um sjálfbæra uppbyggingu stefnt í hættu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvar er Gunnar ?
Guðbjörn (IP-tala skráð) 8.5.2012 kl. 16:38
Gunnar mun áreiðanlega koma til skjalanna og telja sig geta tekið Orkustofnun í nefið!
Og ég á honum þökk að gjalda. Það var nefnilega hann sem sagði í athugasemd hér að það gerði ekkert til þótt við kláruðum megnið af háhitanum á hálfri öld.
Þá yrði bara virkjað meira, þ. e. farið í það að klára þau svæði sem fóru í verndarflokk.
Ómar Ragnarsson, 8.5.2012 kl. 17:32
Um daginn í kvöldsólinni gerði ég mér ferð um Eldvörpin vestan við Svartsengi. Gekk um Árnastíg og að hinum mörgu gígjum sem tengjast saman eins og á Lakasvæðinu. Eldvörpin eru friðlýst en samt hefur verið gerður vegur yfir vörpin.
Bormenn Íslands og verkfræðingar hafa síðan gert borholu örfáa metra frá sjálfum gígnum. Allt í kringum þetta einstæða náttúruverk kemur upp leyndardómsfull jarðhitagufa sem umlykur eldgíginn, en borholan hvæsir eins köttur við gígfótinn. Þessi gjörningur hefur verið framkvæmdur fyrir mörgum árum en er nú eins og út úr kú.
Allt svæðið frá Svartsengi að Reykjanestá virðist heitt af gufu en fáir ef nokkur veit hversu mikið vatn er þarna undir niðri til að viðhalda virkjunum. Hafi verið þörf á að bora tilraunaholu á svæðinu hefði hún átt að vera neðar og fjær í landslaginu, án sjónmengunar.
Sigurður Antonsson, 8.5.2012 kl. 20:37
Það er ekkert óþægilegt við þennan sannleika nema þá helst fyrir öfga náttúruverndarfólk. Þessi staða er enfnilega upp vegna pólitískrar afskiptasemi ríkisstjórnarinnar af rammaáætluninni.
Þau afskipti eru vegna yfirlýsinga öfgahópa innan vinstriflokkanna um að ef ekki verði farið að kröfum þeirra um að vatnsaflsvirkjanir, t.d. í neðri hluta Þjórsár, verði settar í verndarflokk, þá falli stjórnin.
Þetta setur uppbyggingu raforkukerfisins í hættu, einfaldlega vegna þess að afl jarðvarmavirkjana er ekki fast í hendi og áhættan í slíkum verkefnum er meiri en í vatnsaflinu.
„Þrýstingur á hraðari nýtingu jarðvarmans eykst og það tæknilega og efnahagslega öryggi og þar með sú hagkvæmni, sem fæst með því að virkja samhliða jarðhita og vatnsafl verður ekki fyrir hendi,“ segir í umsögninni.
Þetta er óheillafarvegur sem öfgafólkinu hefur tekist að koma orkumálum þjóðarinnar í.
....og Ómar slær sér á lær af fögnuði. "Það tókst" Það tókst", gæti hann verið að segja.
Gunnar Th. Gunnarsson, 8.5.2012 kl. 23:17
Hverjir eru hinir raunverulegu öfgamenn Gunnar?
Eru það þeir sem vilja varðveita sem best og mest þann hluta náttúru landsins sem ekki hefur verið spillt?
Mér sýnist á öllu að öfgamenn séu fremur berserkir þeir sem vilja virkja helst allt og skildu hér allt í rúst haustið 2008.
Eru þetta ekki sömu mennirnir sem vilja bjarga heiminum? Þeir ollu mestri þenslu í íslensku efnahagskerfi, leyfðu kvótabröskurum nánast allt, einkavæddu bankanna og til að kóróna allt að ráðast í glannalegasta virkjanakostinn, Kárahnjúkavirkjun sem skilar eiganda sínum Landsvirkjun ekki ásættanlegum arði. Þess má geta að Landsvirkjun er mjög skuldsett og ekki meira á bætandi.
Þá eru Héraðsbúar ekki sáttir við moldviðrið í vestlægum og norðvestlægum áttum. Þökk sé ykkur öfgamönnum á sviði virkjana og álbræðslna!
Því miður hrópar þessi öfgahópur mun hærra en verndarfólkið enda munu þeir fá sinn stuðning fyrst og fremst frá þeim sem kæra sig kollótta um náttúruvernd og hóflega nýtingu.
Með þeirri von að leiðarljósi að nú verði loksins dokað við í stórkarlalegum virkjanaáformum sem skilja eftir sig eymd og volæði. Því miður.
Guðjón Sigþór Jensson, 10.5.2012 kl. 10:41
Moldviðri á Héraði hefur ekkert með Kárahnjúka að gera. Hver laug því að þér?
Gunnar Th. Gunnarsson, 10.5.2012 kl. 10:58
Nú talar þú gegn betri vitund Gunnar:
Þegar lækkar í svonefndu Hálslóni þá verður drullan auðveld bráð vindanna eftir að hafa þornað á einu úrkomusnauðasta svæði landsins. Stórfé er varið til að draga úr þessu fjúki.
Einkennilegt er að þetta hafi farið fram hjá þér!
Guðjón Sigþór Jensson, 10.5.2012 kl. 11:32
Ég bý hér fyrir austan, Guðjón. Ég er að segja þér að moldviðri á Héraði vegna Kárahnjúka er ekki fyrir hendi og því hefur enginn Héraðsmaður kvartað undan því.
En þú þykist vita betur og því spyr ég; Hver er að ljúga þig fullan?
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.5.2012 kl. 00:01
Mold og rykmökkur berst hins vegar oft yfir Austfirði og hefur alltaf gert, en hingað til hefur það aldrei verið frá Kárahnjúkum. Einhverjir fjölmiðlar slógu því upp í fyrra að sandfok á Héraði væri frá Kárahnjúkum komið en það var snarlega afsannað með gervihnattamyndum.
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.5.2012 kl. 00:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.