20.5.2012 | 15:30
Minnir á 1980, 88-89 og Danmörku.
Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens stóð afar tæpt þegar hún var mynduð. Til dæmis varð mál eins flóttamanns til þess að stjórnin hékk á bláþræði yfir ein áramótin vegna andstöðu Guðrúnar Helgadóttur við afgreiðslu þess.
Enn tæpara stóð ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1988 enda var bæði 1980 og 88 skipting þings í tvær deildir og önnur deildin því óhagstæðari stjórninni. Stjórnin hefði getað tapað níu hlutkestunum í þingnefndir þar sem hún hafði ekki meirihluta, en var svo ljónheppin að vinna öll hlutkestin.
Aðeins var hægt að bera upp vantraust á þessar ríkisstjórnir í sameinuðu þingi og 1980 hét Albert Guðmundsson því að verja stjórn Gunnars fyrir vantrausti.
1988 var það Stefán Valgeirsson sem hið sama gagnvart stjórn Steingríms, en Stefán var utan flokka.
Borgaraflokkurinn hafði svipaða stöðu 1988 og Hreyfingin nú og gat því ráðið talsverðu. Að lokum fór svo að Steingrímur styrkti stjórnina með því að kippa Borgaraflokknum inn í stjórnina og fá tvö ráðuneyti í hendur hans.
Þegar svona staða kemur upp á þingi snýst mál ekki aðeins um það einfalda atriði hvort stjórnin standi tæpt eða ekki, heldur eiga þingmenn um tvo kosti að velja, þann að hafa stjórnina áfram eða að fá eitthvert annað stjórnarmynstur.
Nú, eins og 1988 og 1980 er ekkert annað stjórnarmynstur í spilunum. Þess vegna er ástandið eins og það er og að sumu leyti líkt því sem iðulega hefur verið í sumum nágrannalöndum okkar eins og til dæmis Danmörku.
Þar er ekki einu sinni um það að ræða að stjórnir standi tæpt, heldur eru þær hreinar minnihlutastjórnir sem verða að semja um einstök mál við þingmenn úr stjórnarandstöðunni.
Ekki er að sjá að slíkt ástand þurfi að vera neitt verra en kraftastjórnmálin sem hér tíðkast í átökum meirihluta og minnihluta.
Þvert á móti virðist svona ástand sem er orðin að nokkurs konar hefð, leiða menn til meiri ábyrgðar og sveigjanleika sem út af fyrir sig skapar ákveðna ró og festu.
Lýsa mætti þessu sem samhjálpar/samvinnu/samræðu stjórnmálum í stað átakastjórnmála.
Semja látlaust við aðra flokka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar; sem oftar !
Fremur ógeðfellt; er viðhorf þitt til stöðu mála, megi draga þær ályktanir af niðurlagi, greinar þinnar, sem halda mætti = óbreytt ástand, ágæti drengur.
Eins; og það sé eitthvað sjálfgefið, að landsmenn sætti sig við, óbreytt ástand ?
III. valkostur er til; sem er Glussa- og Gírolíulyktandi fólk, úr framleiðslu greinunum, til þess að taka við, af ónytjungunum 63, Ómar - hafir þú ekki eftir tekið.
Á það; hefi ég margbent, á minni síðu - sem annarra, við fremur daufar undirtektir reyndar, til þessa - það er eins; og fólk sé í móki, óhugnanlegu mjög.
Átti Utanþingsstjórn; Bjössa Þórðar (Björns Þórðarsonar) árin 1942 - 1944, kannski að vera sú FYRSTA og SÍÐASTA, í allri landsins sögu, Ómar Ragnarsson ?
Með kveðjum samt; úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 20.5.2012 kl. 16:17
Samkvæmt núgildandi stjórnarskrá hefur forseti Íslands vald til að skipa utanþingsstjórn og byggist það á þeirri hefð sem varð til, þegar Sveinn Björnsson, þáverandi ríkisstjóri (það embætti var undanfari forsetaembættisins og Sveinn líka fyrsti forsetinn), myndaði utanþingsstjórnina 1942.
Sú stjórn laut að vísu þingræðisreglunni, því að Alþingi hefði getað samþykkt vantraust á hana. Þingið gerði það ekki vegna þess að þá hefði skömm þess orðið enn meiri en ella því að því var um megn að mynda meirihlutastjórn fyrr en haustið 1944.
Í stjórnarkreppum 1949-50, 1978, 1979-80, 1987 og 88 vofði það yfir að forseti kynni að taka til sinna ráða ef annað dygði ekki. Kristján Eldjárn var með hótun um utanþingsstjórn uppi í erminni í janúar 1980 og hafði fengið Jóhannes Nordal til að vinna að því að hafa hana tilbúna ef stjórnarkreppan yrði lengri.
Með frumvarpi stjórnlagaráðs er þetta vald tekið af forsetanum og er það á skjön við þá túlkun núverandi forseta að völd forsetans verði stóraukin ef frumvarpið nær fram að ganga.
Ég og fleiri í stjórnlagaráði vildum upphaflega halda þessu valdi inni en ofaná varð að í stað þess kæmi að boða yrði til nýrra kosninga.
Það kemur þó ekki í veg fyrir að myndaðar verði stjórnir sem verði ýmist blandaðar af þingmönnum og utanþingsmönnum eða hreinar utanþingsstjórnir, svo framarlega sem meirihluti þings stendur að baki ríkisstjórn sem varin er vantrausti.
Ómar Ragnarsson, 20.5.2012 kl. 23:08
Sæll á ný Ómar; og þakka þér fyrir, skýr svörin !
Þó; fjarri fari því sjálfsagt, að við séum sammála, í meginatriðum.
Og; þar á ég við tilurð Stjórnlagaþings / síðar Stjórnlagaráðs, sem mér virðist hafa verið aumkunarvert yfirklór stjórnmála liðsins, til þess að breiða yfir alls konar óhæfu sína - frá fyrri tímum, sem seinni, að þá hefir þetta lið gengið einna harðast fram í, að hunza ákvæði, þeirrar gömlu, og núgildandi.
Tek fram; að meinbægni mín, beinist ekki, að ykkur 25, sem ráðið sátu Ómar, svo fram komi.
Með; ekki síðri kveðjum - en þeim fyrri /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 20.5.2012 kl. 23:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.