Minnir svolítið á Svía í Kalda stríðinu.

Þegar Kalda stríðinu lauk komu í ljós gögn, sem sýndu, að Svíar höfðu, þrátt fyrir hlutleysisstefnu sína, haft samráð við NATO á bak við tjöldin í atriðum, sem tengdust hugsanlegri ógn austan frá.

Finnar urðu á þeim tíma að sitja nánast og standa eins og Sovétríkjunum þóknaðist og til varð orðið "Finnlandisering" um slíkt eðli hlutleysis.

Nú er Kalda stríðið úr sögunni og Finnar að sumu leyti komnir nún í svipaða stöðu og Svíar voru í Kalda stríðinu.

Þrátt fyrir lok þess er Rússland voldugur nágranni og því er hlutleysinu viðhaldið, að minnsta kosti á yfirborðinu. Á ferð norður eftir endilöngu Finnlandi og í akstri víðar þar í landi var stundum ekið fram á margra kílómetra langa vegarkafla sem voru þráðbeinir og tvöfalt til þrefalt breiðari en aðrir kaflar.

Þessir vegakaflar eru ætlaðir til nota sem flugbrautir ef þurfa þykir.   

Þjóðir, sem áður voru undir rússneskri stjórn eða lentu undir járnhæli Rússa, verða lengi að ná sér eftir þá reynslu.

Dæmi um það er þegar ég kynntist Pólverja á bílaverkstæðinu Knastási sem var laginn að gera við pólsku Fiatana mína og hafði gaman af gömlum bílum. IMG_3631

Þegár ég kom einu sinni á á verkstæðið á 37 ára gömlum frambyggðum Rússajeppa, sem ég á, (ódýrasti húsbíll landsins, kandidat í naumhyggjubílasafn Íslands) og hélt að hann hefði gaman af að sjá hann og skoða, urðu viðbrögðin þveröfug við það sem ég bjóst við: Hann varð alvarlegur á svip og hreytti út úr sér: "Ég vil ekki sjá svona bíla og láttu mig helst ekki þurfa að sjá þennan bíl aftur."

"Hvers vegna?" spurði ég af fávísi.

"Af því að hann vekur upp vondar minningar sem ég vil helst ekki þurfa að upplifa."IMG_3632

Ég sá í sjónhendingu fyrir mér allar fréttamyndirnar frá átakaárunum í Póllandi á Sovéttímanum, þar sem rússneskir hermenn notuðu þessa bíla við liðsflutninga, rétt eins og í öðrum kommúnistaríkjum og Afganistan, komu á þeim á vettvang og allt að ellefu hermenn þustu út úr hverjum þeirra, (þótt þeir séu álíka langir og Volkswagen Golf)  og skildi viðbrögð Pólverjans.

Ein af ástæðum þess að ekki tókst samstaða með Bretum, Frökkum, Pólverjum og Rússum 1939 um sameiginlegar aðgerðir gegn Þjóðverjum, ef þeir réðust á Pólverja, var sú að Pólverjar máttu ekki heyra það nefnt að leyfa Rússum að senda herlið til vígstöðvanna í vestanverðu Póllandi.

Því olli gamalgróið vantraust á fyrrum kúgurum, fyrirbæri sem heitir á erlendu máli "Russophobia".

Þar með féll aðalforsendan fyrir þátttöku Rússa, sem auk þess vantreystu vesturveldunum til þess að ráðast inn í Þýskaland.

Það vantraust var á rökum reist. Meðan vesturveldin áttu gullið tækifæri til að herja á Þjóðverja, sem höfðu sent meginher sinn gegn Þjóðverjum, sátu herir Frakka og síðar Breta kyrrir og höfðust ekki að.

Enda fékk þetta ástand, sem ríkti í átta mánuði, nafnið "Falska stríðið" (Phoney War) eða "Setusríð" ("Sitzkrieg").

Bretar og Frakkar áttu enga sóknaráætlun og vegna þess og Rússafælni Pólverja voru þeir dauðadæmdir.  


mbl.is Þátttaka í vörnum Íslands ótengd NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er sérstök söguskoðun. Þriðja ríki Hitlers og Sovétríkin voru þegar búin að semja um skiptingu Austur Evrópu áður en til Póllandsinnrásarinnar kom og voru í leynilegu hernaðarbandalagi.

Fyrir utan það hversu hörmulega lélegur árangur Sovétmanna var í að eiga við nánast óvopnaða Finna (vopnlausa ef miðað er við þann óljósa mælikvarða sem margir íslendingar nota um sig sjálfa) er ekki ólíklegt að Þjóðverjar hefðu valtað yfir þessa „aðstoðarmenn“ Pólverja líka.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 25.5.2012 kl. 12:04

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta er ekki "sérstök söguskoðun" heldur almenn söguskoðun. Hitler og Stalín sömdu um skiptingu Austur-Evrópu 23. ágúst og innrásin í Pólland hófst viku síðar.

Vorið 1939 stóðu yfir viðræður Rússa og Breta um samvinnu til þess að hjálpa Póllandi, en leynilegar viðræður Rússa og Þjóðverja hófust síðar þegar Stalín sá, að bandalag við vesturveldin gekk ekki upp af ástæðum, sem ég rek í pistlinum og er almenn niðurstaða sagnfræðinga en ekki einhver sérstök söguskoðun mín.

Stalín lék eftir það tveimur skjöldum í nokkrar vikur og óttaðist að ef til styrjaldar kæmi í bandalagi við vesturveldin myndu þau lítt aðhafast, ( það mat hans reyndist rétt) og láta meginhernaðinn bitna á Rússum sem voru hörmulega staddir vegna hreinsana Stalíns í Rauða hernum.

Eftir að vesturveldin höfðu árum saman friðmælst við Hitler með endurtekinni undanlátssemi og látið undan honum í Munchen 1938 án nokkurs samráðs við Rússa, og ekkert aðhafst þegar Hitler sveik það samkomulag í mars 1939, var Stalín tortrygginn í garð Breta og Frakka sem vonlegt var.

Hann dreif því í því þegar komið var fram á sumar að gera hinn ótrúlega en þó "Machiavelli"-rökrétta griðasamning við Hitler, sem tryggði Rússum frið á meðan Hitler væri að fást við vesturveldin en varð auðvitað til þess hleypa stórstyrjöldinni af stað.   

Ómar Ragnarsson, 26.5.2012 kl. 00:08

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er síðan "sérstök söguskoðun" mín, sem ég hef áður lýst, að ef Þjóðverjar hefðu haft "Operation Barbarossa" tilbúna vorið 1940 hefðu þeir getað unnið Rússa í stríði síðari hluta árs 1940 í stað þess að fórna 1700 herflugvélum í hinni misheppnuðu "Orrustu um Bretland".

Og til eru sagnfræðingar sem halda því fram að og eru sammála Pétri um það að Þjóðverjar hefðu getað haldið áfram austur í septemberlok og malað Rússana þá.

Það finnst mér hæpið vegna þess hve slíkt stríð hefði orðið seint á því ári og erfitt um flutninga liðs, vista og hergagna í haustrigningum og síðar rússneskum vetri.

Í Barbarossa herferðina þurfti, svo dæmi sé tekið, 750 þúsund hesta og ógrynni flutningstækja sem hefði þurft að vera búið að draga saman fyrir herferð austur.

Þessi kenning og mín kenning eiga það þó sameiginlegt að leiða að því líkur að innrásin 1941 hafi komið of seint, - Rússar hafi þá verið búnir að ná vopnum sínum, eða að minnsta kosti þeim vopnum, sem þeir höfðu alls ekki 1939 og 1940.

Ómar Ragnarsson, 26.5.2012 kl. 00:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband