Katan og Þristurinn, öflugt tvíeyki.

Þegar Bandaríkjamenn fóru í stríð við Japani 7. desember 1941 var hrópandi þörf fyrir langfleygar flugvélar í víðáttum Kyrrahafsins.

Kanarnir áttu þá aðeins tvær langfleygar vélar, Boeing B-17 "fljúgandi virkið" og Consolidated PBY-5 "Catalina" flugbáta. Raunar fékk PBY-5 Katalínunafnið í notkun Breta.

Katan var notuð á öllum vígstöðvum og meira að segja Rússar fengu leyfi til að smíða hana og nota.

Einna lengst þjónaði Katan hér á landi, vel fram á sjöunda áratuginn. Katan og Þristurinn notuðu sömu hreyflana, Pratt-Whitney stjörnuhreyfla, 1200 hestafla. Katan var miklu þyngri en Þristurinn en vængurinn var miklu stærri og flugþolið eftir því.

Hún gat verið á lofti meira en 20 klukkustundir í senn og komist 4000 kílómetra í senn og var því eins og kjörin til leitar og árása á þýsku kafbátana í orrustunni um Atlantshafið.

Það var Katalína frá Íslandi sem fann Bismarck þegar Bretar týndu honum eftir orrustuna á Grænlandshafi og gátu þar með veitt honum eftirför og sökkt honum.

Ég fór nokkrum sinnum með Kötunni vestur á firði að skemmta á fyrstu árum mínum í þeim bransa og Rúnar Guðbjartsson leyfði mér eitt sinn að sitja neðst frammi í og horfa út um framgluggann þar á sjóinn æða yfir hann þegar sest var á Patreksfirði.

Þar kom ungviðið hlaupandi niður að sjó þegar Katan lagði að, og ef til vill var í þeim hópi ung stúlka sem seinna varð lífsförunautur minn.

Fáir taka eftir einu af sérkennum Kötunnar, en það er sú staðreynd, að engir flapar eru á vængjunum eins og á öllum öðrum flugvélum af þessari stærð.

Katan var svo þung og með svo stóran væng að flapar hefðu sennileg bara aukið of mikið á loftmótstöðuna til að gera verulegt gagn. Þessi óvenju stóri vængur sá hvort eð er til að skila henni á loft og halda henni á lofti hátt í sólarhring ef svo bar undir.

Katan var afar hægfleyg og tók ekki eins marga farþega og Þristurinn. Hún var þrefalt lengur að fljúga frá Reykjavík til Ísafjarðar en Fokkerinn er nú.

Viðhaldið gat verið dýrt vegna seltunnar. Af öllum framangreindum orsökum lagðist notkun hennar af þegar flugvöllum fjölgaði.

En engin sjóflugvél var framleidd í fleiri eintökum, alls 4051. Það var þó aðeins fjórðungur á við Þristinn , sem var þess vegna nefndur sem eitt af helstu vopnum Bandamanna í stríðinu og er mesta tímamótaflugvélin í sögu farþegaflugs.

Er vel að ein slík verði nálægt Kötunni á flugdeginum í dag.

Í


mbl.is Catalina er í fullu fjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband