Algengt orðalag.

Orðalagið "vildi að ég hefði aldrei hitt Skúla" gefur til kynna, að sá sem segði þetta finnist að hann hafi "lent í" aðstæðum, sem kölluðu fram morðtilraun. Ef hann hefði ekki verið svo óheppinn að hitta fórnarlambið hefði aldrei neitt gerst. Það var eiginlega Skúla að kenna hvernig fór.

Ef hann hefði ekki álpast til að vera þarna, hefði ekkert gerst. Samt var sá, sem þetta segir, með hníf á sér og með heiftarhug.

Svipuð hugsun skýtur aftur og aftur upp kollinum í smáu og stóru þegar við reynum að réttlæta slæmar gerðir okkar og munurinn er stigsmunur, ekki eðlismunur.  

Hversu oft er ekki sagt: "Hann lenti á fylleríi", "ég lenti á fylleríi", svona svipað eins og að áfengið hefði óvart verið innbyrt, eða jafnvell að aðstæðurnar hefðu verið þannig að óhjákvæmilegt hefði verið að drekka svona mikið ?

Maður heyrir jafnvel orðalagið "...lenti í framhjáhaldi".

"Æ, hann var fullur, greyið" er líka orðalag sem oft heyrist þegar réttlætingar er þörf.

"Hann lenti í því að vera tekinn fullur undir stýri."

Hafa einhverjir heyrt orðalagið: "Hann/hún skóp sér vandræði" ?  "Hann/hún ógnaði lífi vegfarenda með ölvunarakstri"?

Nei, en hins vegar er alltaf sagt: "Hann/hún lenti í vandræðum."

Þeim, sem ók fullur, er efst í huga og talar mest um það hvernig hann muni komast leiðar sinnar ökuskírteinislaus, - ekki hvort ástæða sé til að fara í áfengismeðferð.  

Ekki hefur enn fundist Íslendingur sem viðurkennir að hafa átt hinn minnsta hlut í Hruninu.

Nei, "við lentum í Hruninu", hvert einasta okkar.

Með ofangreindu er ég ekki að líkja saman harðsvíraðri morðtilraun og lítilvægum afglöpum. Fjarri fer því. En það getur verið gagnlegt fyrir okkur öll að pæla í hugsunarhættinum sem býr að baki ákveðnum ummælum varðandi gerðir okkar.


mbl.is „Vildi að ég hefði aldrei hitt Skúla“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skúli Guðbjarnarson

Þú getur þó sagst hafa lent á "frúnni" Ómar. :-)

Skúli Guðbjarnarson, 9.6.2012 kl. 12:07

2 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Skil ekki afhverju einstaklingurinn er ekki talinn haldinn geðsjúkdómi. Hann segist heyra raddir samkv. því er kemur fram í fjölmiðlum og jafnframt er frásögn einstaklingsins samkv. fjölmiðlum svo eikennileg og órökræn að virkar sem ranghugmyndir og rangskynjanir.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 9.6.2012 kl. 13:01

3 Smámynd: Agla

Umhugsunarverð færsla eins og oft áður, Ómar.

Ég  hjó sérstaklega eftir "Ekki hefur enn fundist Íslendingur sem viðurkennir að hafa átt hinn minnsta hlut í hruninu".

Trúlega er það rétt hjá þér en hver mörg okkar hafa hugleitt meðvirkni okkar í þeirri atburðarás sem leiddi til "hrunsins" og axlað okkar samábyrgð?

 Mér vitanlega er Forseti Íslands eini valdhafinn sem hefur viðurkennt  mistök í því sambandi og gefið þá trúverðuglegu skýringu að hann hefði treyst þeim sem hann hélt vita betur, rétt eins og við hin gerðum.

Mér sýnist þú vera að tala um að "axla ábyrgð" sem er eðlileg samfélagsleg krafa til þeirra okkar sem hafa ekki, lögum samkvæmt, verið úrskurðuð óábyrgð fyrir gjörðum okkar.

Agla, 9.6.2012 kl. 18:58

4 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Agla:

Ólafur má eiga það að hann viðurkenndi mistök á sínum tíma að hafa verið að mæra útrásarpjakkana. En sennilega gerði hann önnur mistök mun alvarlegri að afneita Icesave. Hefði hann undirskrifað þá væri þetta mál núna úr sögunni. Þá hefðum við hagkvæmari lánskjör og mun betri stöðu á öllum sviðum.

Nægar innistæður eru núna í vörslum Englandsbanka til að greiða Icesave vandamálið og jafnvel afgangur! Þar eru afborganir og vextir af lánum sem útibú Landsbankans veitti viðskipavinum sínum í Bretlandi.

Við hins vegar „lentum“ í að hafa forseta sem vildi sýna valdið en án ábyrgðar. Svo telja margir hann vera n.k. þjóðhetju! Hann virðist ekki hafa haft minnsta skilning á rekstir bankastofnana.

Af misjöfnu verða menn  frægir!

Góðar stundir!

Guðjón Sigþór Jensson, 9.6.2012 kl. 20:39

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Leiðrétt færsla:

Agla:

Ólafur má eiga það að hann viðurkenndi mistök á sínum tíma að hafa verið að mæra útrásarpjakkana. En sennilega gerði hann önnur mistök mun alvarlegri að afneita Icesave. Hefði hann undirskrifað lögin um Icesave málið sem 70% þingmanna vildi þá væri þetta mál núna úr sögunni í eitt skipti fyrir öll. Þá hefðum við í dag hagkvæmari lánskjör og mun betri stöðu á öllum sviðum.

Nægar innistæður eru núna í vörslum Englandsbanka til að greiða allt Icesave vandamálið og jafnvel afgangur! Þar eru afborganir og vextir af lánum sem útibú Landsbankans veitti viðskipavinum sínum í Bretlandi. Það er eins og sumir vilji ekki setja sig inn í þessa hluti en vilja frekar móðursýkina um að við eigum ekki að borga! Hver var að segja að við ættum að borga?

Við hins vegar „lentum“ við í að hafa forseta sem vildi fremur sýna valdið en án ábyrgðar. Svo telja margir hann vera n.k. þjóðhetju fyrir vikið! Hann virðist ekki hafa haft minnsta skilning á rekstri bankastofnana.

Eignir Landsbankans voru verulegar en einkum í formi útistandandi lána til lengri tíma. Skuldirnar voru nær allar skammtímaskuldir, stutt lán á lágum vöxtum! Icesave átti að brúa lausafjárstöðu Landsbankans í Bretlandi og koma í stað skammtímalána til að framlengja eldri lán.

Af misjöfnu verða menn frægir!

En svona er nú það.

Góðar stundir!

Guðjón Sigþór Jensson, 9.6.2012 kl. 20:48

6 identicon

Ólafur Ragnar hefur sagt að kafli Rannsóknarskýrslu Alþingis sem fjallar um þátt forsetans í aðdraganda hrunsins sé "tóm vitleysa".

Þessi kafli er virkilega góður og segir skýrt frá því hvernig Ólafur Ragnar vann fyrir og með bankamönnunum og öðrum útrásarvíkingum. Kallaði m.a. Sigurð Einarsson í Kaupþingi "vin sinn" í bréfi sem hann skrifaði til erlendra aðila þegar hann var að liðka fyrir viðskiptum "vinar" síns.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur því ekki beðist afsökunar á einu né neinu.

Láki (IP-tala skráð) 9.6.2012 kl. 21:02

7 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Hengdi ekki Ólafur fálkaorðuna á Sigurð Einarsson? hérna um árið?

Eru kannski útrásarvíkingarnir með ÓRG enn í vasanum?

Guðjón Sigþór Jensson, 12.6.2012 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband