16.6.2012 | 21:32
Loftkuldi á aðdáunarverðri hátíð.
Jón Grétar Sigurðsson, flugmaður í Skaftafelli, sagði mér í gær að gránað hefði niður í hlíðarætur í Öræfasveit í kuldaskúrum þar sem voru éljum líkastar. Þótt sæmilega hlýtt væri niðrir við jörð, væri loftkuldi í efri loftlögum.
Þetta er svipað fyrirbrigði og haglélin á Rangárvöllum og í Grímsnesi í dag.
Það andaði svölu lofti um Þjórsárhátíð unga fólksins í landi Stóra-Núps í Gnúpverjahreppi í dag en stemningin var þrungin hugsjónahita og skúrirnar voru allt í kring, en létu hátíðarsvæðið í friði.
Aðdáunarvert var að sjá hverju unga fólkið hafði áorkað upp á eigin spýtur, smíðað og reist stórt yfirbyggt leiksvið, sett upp sölutjald, komið fyrir fullkomnu og öflugu hljóðkerfi, leiðbeiningarskiltum og öðru sem tilheyrir útihátíðum.
Þarna var fyrst haldið stutt málþing en upp úr fimm hófust tónleikar sem voru í fullum gangi þegar ég hvarf af vettvangi um sjöleytið.
Á tímum þegar talað er um sinnuleysi ungs fólks og höfð uppi nöfn eins og sófakynslóðin er gott að vita til þess að til er ungt fólk sem er tilbúið að leggja mikið í sölurnar fyrir hugsjónir sínar.
Haglél á Hvolsvelli og í Grímsnesi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það varð svona sæmileg skvetta í kringum Hvolsvöll í gærmorgun (Laugardag) og gránaði í röndum. Þetta hef ég aldrei séð áður. Högl eins og baunir.
Jón Logi (IP-tala skráð) 17.6.2012 kl. 22:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.