Hvílík uppreisn æru!

Hallgrímskirkja var eitthvert umdeildasta mannvirki á landinu þegar hún var reist og um hana stóðu hatrammar deilur.

Einhver beittasta ádeilan var ljóð Steins Steinarrs sem hófst svona: "

"Húsameistari ríkisins tók handfylli sína af leir

og horfði dulráðum augum um reislur og kvarða..."

      og síðan botnaði hann á frægan hátt:

Húsameistari ríkisins tók handfylli sína af leir,

og Hallgrímur sálugi Pétursson kom til hans og sagði:

Húsameistari ríkisins, - ekki meir! Ekki meir!

Kirkjunni hefur verið líkt við sæljón sem liggi fram á lappir sínar og gert grín að því að turninn sýnist skakkur frá vissum sjónarhornum.

En nú eru þessar raddir þagnaðar.  

Álit manna í kirkjunni hefur breyst smám saman svo að nú liggur fyrir að í tveimur álitsgerðum úr ólíkum áttum er hún talin í hópi tíu mögnuðustu kirkjum heims.

Ég minnist þess þegar stórt líkan af henni var sýnt á sýningu í Þjóðminjasafninu um 1950 og hvað mér þótti mikið til stærðar hennar og glæsileika koma.

Þá virkaði líkanið eins og næsta óraunhæf framtíðarmúsík og Hallgrímskirkjusöfnuður kúldraðist með athafnir sínar í kjallaranum undir kórnum, sem var það eina af kirkjunni sem tekist hafði að reisa.

Ég átti leið upp Skólavörðustíg í fyrradag um klukkan sex síðdegis þegar skuggar sumarsólar falla hvað best á kirkjuna og áttaði mig á því sem aldrei fyrr hve flott kirkjan getur verið frá ákveðnum sjónarhornum við ákveðnin birtuskilyrði.


mbl.is Hallgrímskirkja ein magnaðasta kirkja heims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hallgrímskirkja er vinsælasti ferðamannastaður landsins.

Flestir útlendingar fara í miðbæ Reykjavíkur, ganga Laugaveginn og Skólavörðustíg.

Moka þar inn erlendum gjaldeyri.

Tom Cruise gekk niður Skólavörðustíginn ásamt sínum ektamaka.

Þau fóru hins vegar ekki í Kringluna.

Kringlan skapar ekki gjaldeyri. Hún eyðir honum, enda í Austurbænum.

Þorsteinn Briem, 19.6.2012 kl. 21:25

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er alltaf rok við Hallrímskirkju.

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.6.2012 kl. 21:29

3 Smámynd: Sigurður Antonsson

Það er misskilningur að halda því fram að söfnuðir hírist eða dúsi í kjallaraholum. Einlæg trú og leitin að guði sínum getur verið nánast hvar sem er. Upp á fjöllum í lofti og í hellum. Allt eftir því hvert hugurinn vill. Hugrekki til að minnast Hallgríms sálmaskálds var stórt í sniðum þegar kirkjan reis á nokkrum áratugum.

Veglegustu kirkjunnar byggjast á öldum og enn aðrar taka breytingum eftir árstíðum. Ummælin í Politiken eru vinsamleg og tilvísun í Snæfellsjökull skemmtileg. Íbúar á láglendi sjá hluti sem Íslendingum hættir til að gleyma. Kirkjan á niðri Jökulþúfunni er stórkostleg í sumarsólstöðu, þegar skuggar og rauðglóandi nætursólin lita jökulstálið. Eiginlega ætti enginn að sem vill komast í námunda við himnaríki að missa af slíkri upplifun á bjartri sumarnóttu.

Sigurður Antonsson, 19.6.2012 kl. 21:48

4 identicon

Væri ekki ástæða til að fara rétt með tilvitnanir í þjóðskáldin?

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 19.6.2012 kl. 22:46

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jú, hárrétt hjá þér, Þorvaldur minn og þakka þér fyrir ábendinguna. Er búinn að laga þetta.

Ómar Ragnarsson, 20.6.2012 kl. 00:23

6 identicon

Ég og frúin fórum eitt sinn dagsferð með þýska orrustuflugmanninum Gunther Rall um Reykjavík. Við vorum altso á bíl með kallinn með okkur og fórum vítt og breitt um Reykjavík.

Hallgrímskirkja var það eina sem honum fannst athyglisvert að ráði, - við slysuðumst inn á opna tónleika.

Perlan og Íslandskortið í Ráðhúsinu var það eina af öðru sem honum fannst forvitnilegt, - restin höfðaði ekki til hans, - og þetta var heimsmaður.

Jón Logi (IP-tala skráð) 20.6.2012 kl. 08:13

7 identicon

"Hallgrímskirkjan, Perlan og Íslandskortið", tek undir þetta. En við bæta við Hótel Holti, vegna listaverkanna þar.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 20.6.2012 kl. 10:25

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Tjarnargatan er fallegasta gatan í Reykjavík, enda eru þar gömul hús sem eigendurnir hafa haldið vel við, en ekki einhverjar steypu- og glerhallir í líkingu við klump þann við Aðalstræti sem kallaður er Morgunblaðshúsið, ellegar hrákasmíðina á milli Gamla Reykjavíkurapóteks og Hótels Borgar, sem eru fögur hús að flestra mati.

Ætli flestallir vilji nú ekki halda í eitthvað af bílunum, sem nú eru kallaðir fornbílar, sama hversu merkilegir eða ómerkilegir þeir þóttu í upphafi, og það kosti peninga að gera þá upp?!

Í gamla miðbænum í Reykjavík er hins vegar fjöldi hótela og um eitt hundrað veitingastaðir, sem moka inn gjaldeyri frá erlendum ferðamönnum árið um kring, ítem til að mynda skartgripa-, fata- og bókabúðir.

Í 101 Reykjavík eru einnig útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækin Grandi og Fiskkaup, ítem tölvuleikjafyrirtækið CCP með sinn landburð af erlendum gjaldeyri í hverjum mánuði, jafnvirði um 600 milljóna íslenskra króna.

Ekkert póstnúmer á landinu aflar því eins mikils gjaldeyris og 101 Reykjavík, þrátt fyrir sína almennt frekar lágreistu byggð, og þar eru um 630 fyrirtæki, sem er svipaður fjöldi og í öllum Hafnarfirði og öllum Reykjanesbæ.

Þorsteinn Briem, 20.6.2012 kl. 11:05

9 identicon

Eigum við ekki frekar að segja uppreist æra?

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 20.6.2012 kl. 11:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband