28.6.2012 | 23:06
Þýska vélin látin hiksta.
Þýska vélin, sem hefur ekki slegið feilpúst á EM, hikstaði allan leikinn á móti Ítölum nema rétt í byrjun. Ástæðan var sú að Ítalir "spiluðu sinn fótbolta" allan tímann og komust upp með það, af því að Þjóðverjar fundu aldrei svar við því.
Þetta ítalska spil hentaði þýska liðinu afar illa, sem fyrir bragðið náði aldrei "að spila sinn fótbolta" eins og það hafði gert í öllum leikjum sínum fram að því og komist upp með það.
Fyrirbrigðið er kallað "ring generalship" í hnefaleikum, þ. e. hvor aðilinn ræður ferðinni, hefur frumkvæðið og er hershöfðinginn í hringnum / á leikvellinum.
Þetta er þekkt fyrirbrigði í hernaði, að ráða vígvellinum og eðli viðureignarinnar.
Til að hamla gegn slíku verður sá sem fyrir því verður, í þessu tilfelli þýska liðið, að hafa aðlögunarhæfni til þess að breyta sínum leik og leikskipulagi og finna svar við aðferð andstæðinganna, - taka með því frumkvæðið.
Það örlaði aldrei á slíku hjá þýska liðinu, sem var algerlega fast í leik, sem gekk ekki upp og hélt greinilega að það gæti gert það sama og hafði dugað svo vel í öllum leikjum fram að því, að spila sinn bolta allan leikinn til enda og láta hann ganga upp.
Þetta þýddi aðeins eitt: Seinni hálfleikurinn varð að endurtekningu á þeim fyrri því að Ítalirnir héldu uppteknum hætti í anda þeirra sanninda að men skipta ekki um sigurlið og heldur ekki um siguraðferð meðan hún svínvirkar.
Þegar snemma í seinni hálfleik var svo komið að þýska liðið var farið að spila á stórum köflum gamaldags enskan bolta með háum sendingum á ská fram á fremstu menn inni á teig Ítala , var auðséð að hverju stefndi.
Varnarmenn Ítala áttu yfirleitt ekki í vandræðum með að skalla slíkar sendingar frá og komast fyrir bragðið í skæðar og hraðar sóknir.
Ítalir voru eins nærri því að skora þriðja markið og Þjóðverjar sitt fyrsta og það sem gerði leikinn svo skemmtilegan var það, að Ítalir féllu ekki fyrir þeirri freistingu að leggjast í vörn til að halda tveggja marka forskoti, heldur héldu áfram að spila sinn bolta með þeim árangri að þýska vörnin splundraðist hvað eftir annað.
Ítalir áttu skilið að vinna og það var gaman að sjá þá gera það, koma á óvart og lífga þar með upp á mótið.
Í íþróttum er þekkt það fyrirbrigði sem kallað er að einhver "hafi númer" keppinautarins, þ. e. að stíll andstæðingins henti afar vel til að ná sérstöku taki á honum.
Ken Norton "hafði númer" Ali og Ítalir "höfðu númer" Þjóðverja.
Balotelli: Stórkostlegar sendingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Frábær lesning Ómar :)
Hittir naglann á höfuðið með góðum samlíkingum og bara áfram Ítalia!!
Hermann, 29.6.2012 kl. 00:03
Jú, ítalir spilu vel og gerðu allt rétt takískt í sínum leik - en þýskarar voru líka eins og eitthvað hálf sloj. þeir hefðu alveg getað, með smá heppni, potað inn ss. einu marki í byrjun en vantaði einbeitnina einhvernvegin. En svo var það líka það sem var verra, að vörnun hjá þeim var á köflum útá þekju. Eða viðkomandi varnamenn. Td. í fyrsta markinu, að þá labbar fyrirgjafamaðurinn rétt si sona framhjá 3-4 varnamönnum barasta uppúr engu - og þeir alveg eins og útá þekju. Ólíkt þjóðverjum. Í seinna markinu voru líka strategísk varnarmistök hjá Lahm. Hann var ekki viss hvort hann ætlaði að spila rangstöðuvörn eða reyna fylgja Balotelli eftir. Tók 1 og172 aukaskref. Má ekki vera svona hikandi gagnvart Balotelli. Sem var barasta samstundis, vegna þessa aukaskrefs hjá Lahm, kominn aleinn fleiri fleiri metra innfyrir vörnina. Ólíkt þjóðverjum að klikka svona á undirstöðuatriðum. þegar staðan var orðin þessi - þá er ekkert grín að sækja ítala sem hafa það djúpt í kjarna sínum að halda fenginni forystu.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 29.6.2012 kl. 01:16
Edit: ,, Jú, ítalir spiluðu vel og gerðu allt rétt taktískt í sínum leik"
,,Tók 1 og1/2 aukaskref"
Ómar Bjarki Kristjánsson, 29.6.2012 kl. 01:19
Góð greining Ómar, en var barasta kerlingin hún Merkel ekki búin að skipa þeim að tapa, svo hirta mætti Ítalska óráðssíu á sama tíma og enginn tæki eftir því í sigurvímunni suður á Ítalíu?
Halldór Egill Guðnason, 29.6.2012 kl. 04:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.