Mikið verk óunnið.

Það er ánægjuefni að eftir alla þessa áratugi sem það hefur þurft að bíða eftir jafn þörfu atriði og því að auka ökuhæfni fólks hefur nú þokast í þá átt að skapa aðstöðu til þess.

Mikið verk er hins vegar óunnið í því að lagfæra aldeilis óborganlega galla í aksturlagi Íslendinga, sem sumir hverjir byggjast á því að geta ómögulega lagt á minnið einföldustu atriðin varðandi það að skapa öruggari og skilvirkari umferð.

Dæmi: Íslendingum virðist alveg fyrirmunað að hafa í huga þessa einföldu setningu: Fyrstur kemur - fyrstur fær, og sýnist mér við vera eina þjóðin í okkar heimshluta sem getur ekki framkvæmt þessa sjálfsögðu og einföldu reglu.

Þetta atriði á til dæmis við þegar aksturleiðin þrengist, til dæmis þar sem tvær akreinar sameinast í eina og líka þegar komið er að einbreiðum brúm.  

Erlendis gengur þetta snurðulaust. Sá bíllinn sem er á undan fær forgang fram yfir hinn sem er aðeins á eftir. Bíllinn sem framar er, eykur kannski aðeins ferðina, en aðalatriðið er að sá sem er aðeins aftar, hægir í nokkur augnablik á sér.

Þetta atriði er kennt við tannhjól eða rennilás.

Hér á landi virðist meirihluti ökumanna enn ekki geta tamið sér þetta. Þeir, sem eru á þeirri akrein, sem liggur beint áfram, telja sig eiga forgang og að hinir, sem eru á akreininni sem endar, en er merkt skáörvum til þess að gefa til kynna að beita eigi tannhjóls/renniláss aðfferð, þeir bílstjórar eigi að víkja.

Í stað þess að umferðin gangi eins snurðulaust, örugglega og hratt fyrir sig og unnt er, verður útkoman sú að ökumenn á akreininni með örvunum verða óöruggir, umferðin verður skrykkjótt og stundum stöðvast hún alveg á akreininni sem endar.  

Í mörgum tilfellum auka þeir ökumenn sem eru á beinu og óslitnu akreininni hraðann til þess að koma í veg fyrir ökumenn á reininni sem endar komist inn á þá beinu.

Í fyrradag kom ég að einbreiðri brú þar sem bíllinn á undan mér kom fyrr að brúnni en bíll sem kom á móti. Bílstjórinn, sem kom úr gagnstæðri átt, stöðvaði bíl sinn en í stað þess að aka af stað inn á brúna af því að hann kom á undan mér að henni, hreyfði hann sig ekki og tók þar með upp á því, upp á sitt eindæmi, að ganga gegn reglunni um það að menn fari yfir einbreiðar brýr í þeirri röð, sem þeir koma að þeim.

Engin leið var að sjá hvað hann var að hugsa. Ef bíllinn hans komst ekki af stað af einhverjum ástæðum hefði hann átt að setja blikkandi ljós á.

Eftir langa bið kom í ljós að ég og aðrir bílstjórar, sem komu á eftir mér og biðum þarna í óvissu, áttum að lesa þær hugsanir hans, að hann ætlaði að "vera tillitssamur og gefa okkur séns".

Að lokum gafst bílstjórinn fyrir aftan mig upp á biðinni og fór fram fyrir mig og  yfir brúna og síðan fór hver bíllinn af öðrum, sem hafði stöðvast vegna þessa atviks, yfir.

Loks kom að því að "tillitssami" bílstjórinn hinum megin kom yfir brúna og veifaði mér sérstaklega þegar hann fór fram hjá mér, greinilega til þess að þakka mér "tillitssemi" mína!

Eitt sinn ók ég á eftir stórum sendibíl á tvíbreiðri götu með graseyju í miðjunni. Sendibíllinn var á vinstri akrein en ég á móts við afturenda hans á hægri akreininni, og sá því ekki nema takmarkað fram fyrir sendibílinn. Allt í einu tekur hann upp á því að hægja á sér, líkt og eitthvað væri að bílnum, og fór ég þá fram úr honum.

Um leið og ég var kominn á móts við framenda bíls sendibílsins birtust skyndilega kona með barnavagn og eitt barn sem hún leiddi og voru á leið yfir fjórbreiða götuna og graseyjuna fyrir framan sendibílinn sem nú var í þann veginn að stöðvast.

Ég var snöggur að hugsa og sveigði til hægri og skellti mér framhjá í stað þess að nauðhemla, - var kominn það langt að þetta var skásta lausnin.

Skömmu síðar var hringt í farsíma minn og var þar kominn bílstjórinn á sendibílnum sem jós yfir mig óbótaskömmum fyrir að hafa ógnað lífi hins gangandi fólks.

Þegar ég benti honum á að bannað væri að ganga svona yfir graseyjuna af þeirri einföldu ástæðu að það myndi skapa óviðunandi hættu í umferðinni ef fólk gerði það almennt, og að konan hefði aðeins þurft að ganga um 20 metra til að fara yfir á gangbraut varð hann enn reiðari en fyrr, - sagðist vera í hópi tillitssamra ökumanna sem reyndi hvenær sem hann gæti að "gefa fólki séns" en ég væri greinilega hættuleg frekja og dóni.

Ég benti honum á að ég hefði með engu móti getað séð fólkið og að hegðun hans hefði skapað hættuna en þá skellti hann á mig.


mbl.is Miklar framfarir orðið í ökunáminu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Aksturslag einstaka ökumanna er til skammar en staðreyndin er samt sú að tíðni umferðarslysa hér er ein sú lægsta í heiminum.

Ég held að hún sé vanmetin sú hætta sem hægkeyrandi ökumenn á þjóðvegunum valda. Ef allt er í lagi varðandi bíl og ökumann, ber honum að halda sig við hámarkshraða við bestu aðstæður þegar umferð er mikil og framúrakstur er vafasamur. En sumir aka eins og þeir séu einir í heiminum og óþolinmóður ökumenn sem oft eru jafnframt ungir og óreyndir, freistast til framúraksturs með tilheyrandi áhættu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.7.2012 kl. 17:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband