Bibba lifir góðu lífi.

Fyrir um tuttugu árum skóp Edda Björgvinsdóttir ógleymanlega persónu, Bibbu á Brávallagötunni.

Upp úr henni vall aldeilis kostulegt samansafn af málleysum sem kitlaði hláturtaugarnar.

Nú þarf Edda varla að endurvekja Bibbu því að hún lifir góðu lífi í máli fjölmiðlamanna dag hvern.

Á mynd með frétt á mbl.i sem er tengd þessum bloggpistli, er sagt að nef bílanna á myndinni séu kýtt saman.

Því fer þó fjarri, því að þau snertast ekki og geta því ekki verið kýtt saman.

Í íþróttafréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi var tvítekið að hlaupari hefði fengið hraðasta tímann. Þetta er ekki aðeins málleysa heldur hreint bull. Ekki hefur enn uppgötvast með mælingum að tíminn líði misjafnlega hratt þegar hlauparar eru á ferð.

Hlaupari fær ekki lægri tölu í tímatökunni vegna þess að tíminn hafi hraðað á sér og hlauparinn hlaupið jafnhratt og áður. Þvert á móti er hraði tímans ævinlega jafn og samur, en hlauparar hlaupa hins vegar mishratt og nota mismunandi langan tíma til að hlaupa ákveðnar vegalengdir.

Hingað til verið sagt að hlaupari fái stysta tímann eða besta tímann en það þykir líklega ekki nógu fínt.

Það er álíka rökrétt að segja að hlaupari fái hraðasta tímann og að kúluvarpari fái lengstu eða stystu sentimetrana.

Í fréttum sömu stöðvar sagt að mikill úrhellir hefði truflað keppni í Formúlu eitt. Úrhellir hlýtur að vera sérkennilegur hellir og alveg óþekktur fram að þessu. Er vandséð hvernig hellir getur hafa tafið kappakstursbílana, sem hljóta þá að hafa ekið óvart inn í hann og lent í ögöngum.

 Hins vegar er til orðið úrhelli sem þýðir mikil rigning. Eiður Guðnason hefur haft nóg að gera að benda á málvillur og rökvillur í fjölmiðlum og mun líklega hafa við nóg að sýsla framvegis.  


mbl.is Suzuki og Volkswagen kýta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

„Ekki hefur enn uppgötvast með mælingum að tíminn líði misjafnlega hratt þegar hlauparar eru á ferð.“

Þetta er nú ekki rétt. Ef tveir hlauparar hefðu með sér klukku, sýndu klukkurnar sama tímann ef báðir hlypu jafn hratt, annars ekki. Klukka þess sem hlypi hraðar gengi hægar. Þetta hefur verið sannað.

Klukka sem hreyfist gengur hægar en klukka í kyrrstöðu.  Mælistika á miklum hraða styttist. Massar sveigja tímarúmið umhverfis það. Allt er þetta afleiðing þess að ljóshraðinn reynist hin sami hvort sem athugandinn væri á mikilli ferð eða lítilli.

Eða eins og Einstein sagði 1905; "Die Lichtgeschwindigkeit ist konstant."

Það varð bylting í eðlisfræði.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 9.7.2012 kl. 14:11

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hlauparanir halda ekki á klukkununum heldur eru mælitækin kyrrstæð annars staðar.

Ef annar hlauparinn hleypur 200 metrana á 19,6 sekúndum en hinn á 21,6 sekúndum, getur tíminn ekki hafa liðið um 10% hraðar hjá þeim sem fljótari var.

Hann háði  að vísu um 10% betri tíma í hlaupinu en hinn, en tími hans var ekki 10% hraðari en hjá hinum.

Ómar Ragnarsson, 9.7.2012 kl. 17:02

3 identicon

Auðvitað halda kapparnir ekki á klukkum. Ég setti þetta bara svona fram til að gera þetta skiljanlegra. En hjá þeim sem hleypur hraðar, seinkar klukkan sér meira en hjá hinum sem hleypur hægar. En ekki bara klukkan, heldur sjálfur tíminn.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 9.7.2012 kl. 17:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband